Á Kálfafelli fyrir 60 árum

Það var í morgun sem tveggja og hálfs árs gamalt barn, frekar lítið klætt, hvarf að heiman langt norður í Svíþjóðarlandi. Foreldrarnir og lögregla höfðu leitað í tvo tíma þegar tveir lögregluþjóðnar festu bílinn sinn. Þeir stigu út og spáðu í hvernig þeir gætu losað hann en meðan þær vangaveltur stóðu yfir heyrðu þeir kvein utan frá akri skammt frá. Þeir flýttu sér þangað og þar lá barnið í snjóskafli og var þá búið að tapa skónum sínum. Kalt og sorgmætt var barnið en nú er það aftur í ylnum heima hjá foreldrum sínum. Heima er best.
 
Það er mikilvægt þegar lögreglubilar festast að þeir festist á réttum stað.
 
þegar ég kom fram í morgun, líklega um það leyti sem barnið hverf upp í Norðurlandi, kveikti ég á sjónvarpinu til að sjá veðurspána á textavarpinu. En það varð hindrun á vegi mínum. Það var athyglisverður þáttur í sjónvarpinu, þáttur sem kannski gæti heitið á íslensku Veröld vísindanna. Þar sem ég kom inn í þennan hátt var kona að tala um það hvort nútíma lífshættir okkar væri hindrun milli okkar og tilverunnar, stöðvuðu eðlilega þróun. Þetta varð ég einfaldlega að hlusta á.
 
Eftir nokkra stund lá leiðin til Himalayafjallanna þar sem fólk býr í 3500 metra hæð. Þar gekk rannsókn út á að skilja hvernig fólkið þar fær nógu mikið súrefni til að geta unnið verk sín og haldið lífi. Súrefni loftsins þar er aðeins 60 eða 65 % af því súrefni sem við höfum í loftinu og dæmi eru um að vesturlandabúar hafi hreinlega dáið þarna af súrefnisleysi. Ekki var hægt að sjá á þessu fólki að það væri öðru vísi úr garði gert en fólk hvar sem er annars staðar á Jörðinni. En þegar flókin og nákvæm tæki voru notuð í rannsókninni kom í ljós að það var munur, það sem konan kallaði að það fannst munur á "djúpinu".
 
Meðan ég var að horfa á þetta skrapp ég 60 ár eða meira aftur í tímann. Pabbi var að bjástra úti við og með ensku derhúfuna sína, þessa með smellu sem hægt var að festa húfukollinn niður á derið með. Að öllu jöfnu hafði pabbi húfukollinn smelltan niður á derið og þá var húfan ekki eins há á kollinum, eða að húfan var þá ekki dregin eins mikið niður á ennið. En nú þegar ég sá pabba fyrir mér var húfukollurinn ósmelltur og derið dregið langt niður á ennið. Það setti að mér ugg. Þetta var ekki góður fyrirboði.
 
Framhaldið á þessu var hvassviðri þar sem hrikti í húsum, sandur og ryk barðist með vindinum á gluggarúður og ef maður var úti við var málið að halla sér vel upp í vindinn ef gengið var á móti. Svo næddi vindurinn bókstaflega inn á allsbera húðina þar sem klæði þeirra daga voru ekki 66 gráður norður. Ef gengið var undan vindi mátti alls ekki fara að hlaupa því að þá var svo erfitt að stoppa. Væri vetur var kalt bæði utan sem innan dyra. Þegar vindinn lægði, hvort það var eftir einn eða fleiri daga, þá setti pabbi smelluna aftur á. Svo var smellan á þangað til nýr vindur var í aðsigi.
 
Ég er mjög sannfærður um að ég hef rétt fyrir mér en ég mun aldrei geta sannað það. Ég er líka viss um að pabbi var ekki meðvitaður um þetta, þetta var bara eitt af mörgu sem var innbyggt í að vera til á Kálfafelli fyrir 60 árum. Pabbi var eins og annað fullorðið fólk þeirra ára fæddur með ómengað grjótið í útveggjum hýbýlanna mjög nærri líkamanum, einnig torfið og moldina. Hann  fór ekki á bíl yfir lækinn eða ána á brú, hann varð að vaða eða fara á hesti, finna vatnið renna um fæturna eða heyra straumhljóð þess upp á hestbakið.
 
Hann fór ekki í smalamennsku á fjórhjóli, traktor eða bíl og hann hafði ekki Útvarp Reykjavík í hnappi í eyranu þegar hann gekk til gegninganna. Hann fór ferða sinna undir berum himni en ekki undir bílþaki og hann fann ilm árstíðanna í stað ilmsins af gerfileðri á bílsætum. Ég hætti þessari upptalningu um pabba og hans samferðafólk og kynslóðir í aldir á undan, upptalningu sem ég gæti þó haldið áfram niður margar síður.
 
Ég er ekki að mæla með þessum lifnaðarháttum eða óska þeirra til baka. Ég er hins vegar að velta því fyrir mér hvort við höfum glatað hæfileika til að lesa á tilveruna, veðrabreytingu, gestakomu, hamfarir. Fílarnir slitu sig lausa og flúðu til fjalla í flóðunum í Tælandi þegar 225 000 manns dóu eða týndust. Af hverju skyldu fílar hafa fyrirboðahæfileika framyfir manninn? Hvað ætli ég þyrfti að vera lengi einn í fjallakofa til að endurheimta þessa hæfileika ef til eru? Mánuð, ár eða kannski tiu ár? Ég hef ekki rætt það við Valdísi hvort ég fái leyfi til þessarar tilraunar.
 
Ef til vill ætti ég frekar að fara í háskóla og lesa "djúpa" mannfræði.
 
Valdís er að horfa á söngvaþáttinn Så skall det låta. Við fórum eins og um var talað á sveitahótelið og borðuðum konudagsmat. Þar hitti Valdís vinnufélaga frá því fyrir 12 árum. Ég hef aldrei hitt hann svo ég muni en ég hef keypt af honum bók og nafnið hans er skrifað á spásíuna. Þessi bók er um andlegheit og er eftir finnska prestinn Harry Månsus. Sú bók gaf mér mikið við leit mína á víðáttum andlegheitanna. Valdís kunni vel við þennan mann og það gladdi hana að hitta hann.
 
Val Valdísar á konudaginn var gæða-hamborgari.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0