Í léttari dúr

Það er spurning hvernig ég eigi að eyða kvöldinu, hvort ég eigi að festa mig við sjónvarpið, kannski að lesa, eða kannski að blogga í svolítið léttari dúr en í gær. Ég vel það síðastnefnda. Þegar ég vaknaði í morgun hafði ég sofið án minnstu truflunar í átta tíma. Ég spurði Valdísi hvernig hún hefði sofið. Í einum dúr sagði hún utan að hún hefði rumskað eitthvað en sofnað strax aftur. Eftir svona svefn eiga meira að segja ellilífeyrisþegar að vera vel upp lagðir. Það fór líka svo að þegar við höfðum tekið langan og rólegan tíma til að borða morgunverð, þá stóð Valdís upp og sagði: Jæja!
 
Hvað nú spurði ég og hún svaraði að bragði að hún ætlaði að baka kanelsnúða. Það gengur ekki í sveitinni að eiga ekkert ef það kemur fólk. Ég bauð henni hjálp mína en hún ráðlagði mér að fara út og smíða. Já, ég sagðist þá líka ætla að koma mér af stað. Þá var ég þegar búinn að hreinsa átta sentimetra snjó af helstu gönguleiðum hér á Sólvöllu og sækja blaðið. Nú fór ég út með myndavélina því að ég var ákveðinn í að ljósmynda verkefni dagsins. Svo fór ég út og tók tvær myndir.
 
Þegar ég kom til baka inn til að leggja frá mér myndavélina sá ég þetta á eldhúsbekknum. Mér fannst myndefnið stórskemmtilegt og það varð líka þessi fína mynd af því. Hveiti, sykur, smjör (alls ekki smjörlíki) og egg. Efniviðurinn í kanelsnúðana. Eitthvað annað þurfti Valdís að gera áður en hún braut eggið en það var alla vega komið á sinn stað. Stuttu seinna var eldhúsbekkurinn kominn í mikla óreiðu. Þannig er það við bakstur.
 
Seinna í dag þegar ég kom í eina af mínum ferðum inn, þá voru snúðarnir komnir í poka og svolítið var á diski á  matarborðinu. Svo borðuðum við volga snúða.
 
Enn seinna í dag þegar ég kom einu sinni enn inn blasti þetta við mér. Hjónabandssæla. Svo borðuðum við volga hjónabandssælu.
 
Eftir sjúkrahúsferð okkar í gær bjó hún þetta til. Við köllum þetta kjötkökur Valdísar enda er þetta uppskrift hennar. Svo var kominn kvöldmatur og við borðuðum kjötkökur Valdísar með soðnum kartöflum, rauðrófum og rauðkáli. Þá var Valdís sem betur fer búin að ganga makindalega frá sér í djúpa stólnum og sofna svolitla stund.
 
Það má fara að ætla að það sé skörp verkaskipting á okkar heimili enda munu næstu fimm myndir sanna það. Krydd ásamt ýmsu öðru skilar ekki góðum árangri í mínum höndum. Það er kannski vegna þess að það er ekki krydd í pönnukökum sem við erum búin að ákveða að innan skamms verði ég kominn með réttindi á pönnukökur. Valdís ætlar að kenna mér að baka pönnukökur, að hætti Valdísar, áður en langt um líður. En þetta með verkaskiptinguna. Ég er býsna góður við að ganga frá öllu á kvöldin og mér finnst gaman að sjá eldhúsbekk sem er vel frágenginn. Þegar ég fer í að ryksuga, skúra og þrífa get ég næstum fengið smá æði. Eiginlega finnst mér nú orðið að þetta síðastnefnda sé kallmannsverk.
 
*
 
Nú vendum við kvæðinu í kross.
 
Þetta var fyrri myndin sem ég tók í morgun þegar ég fór út til minna verka. Ég er búinn að eyða mörgum stundum í að smíða gerefti á dyrnar og gluggana á Bjargi, grunna þau og mála eina umferð. Húsið er alls ekki farið að verja sig fyrr en gereftin eru komin upp og svo gerir það húsið líka mikið, mikið fallegra.
 
Síðdegis og við önnur birtuskilyrði tók ég svo þessa mynd frá sama stað. Það hefur eitthvað mikið breytst. Framhliðin er búinn að fá sinn endanlega svip utan að þakrennuniðurföllin eru ekki komin upp. Þau koma á hvítu hornin. Það var að byrja að skyggja þegar ég var tilbúinn að taka þessa mynd, en mig langaði mikið að hafa myndir af undan og eftir til að geta borið saman. Ég rétt náði því.
 
Önnur myndin sem ég tók í morgun var þessi.
 
 Og um dimmumótin tók ég þessa nákvæmlega frá sama stað. Harla er ég ánægður með samanburðinn. Það vantar þó eitt stykki á milli glugganna til vinstri á myndinni. Það var um seinan þegar ég áttaði mig á því.
 
Í haust gekk einn nágrannanna framhjá. Hann sagði að það væri greinilegt að ég hefði staðsett húsið eftir trjánum og honum fannst það reyndar ögn broslegt. En það var mjög skemmtilegt hvernig þetta passaði allt saman. Hefði ég staðsett húsið einum meter lengra til hægri hefði það verði komið of nærri lóðamörkum nágrannanna. Hefði ég staðsett það einum meter lengra til vinstri hefði það byrjað að hindra vatn að renna frá íbúðarhúsinu þegar skýföll koma. Hvað var þá eftir? Jú, að hafa það nákvæmlega þar sem það er. Útlitsins vegna hefði húsið líka mátt vera einum meter lengra, en hvort tveggja var, að þá hefði það farið of langt bæði til hægri og vinstri og einhvers staðar verður að setja stærðarmörkin.
 
Ég er óttalegur dellukall. Hér er sýnishorn af nokkrum gereftanna. Ég lími lista aftan á þau öll. Annars vegar til að gera húsið fallegra og hins vegar til að gera gereftin stabílli og sterkari. Það er mikið að sníða og fella þegar unnið er svona. Lengst til hægri er gerefti yfir glugga og öll hin eru hliðargerefti. Ég hefði getað útbúið gereftin á tveimur dögum eins og ég hef unnið undanfarið, en ég hef gert þetta á tveimur vikum. Þegar svona er gert fær hvert stykki sinn persónuleika. Ég geri ráð fyrir að það þurfi svolítið smiðsauga til að átta sig á þessari gereftagerð.
 
Fari einhver að hlæja býð ég upp á það. Ég sagði einhvern tíma að ég vil njóta af því að byggja á Sólvöllum. Ég geri það meðal annars á þennan hátt. Fyrr á öldum voru menn lengi að byggja og byggðu jafnframt afar falleg hús. Í dag er ekki tími til að gera þetta, aðallega af fjárhagslegum ástæðum, og húsin eru því mörg líkari kössum fyrir vikið. Hann Anders smiður sem hefur hjálpað okkur sagði eitt sinn að hann mundi aldrei geta gert reikning fyrir svona vinnu, en hnn ber virðingu fyrir þessu föndri mínu samt sem áður og hlær ekki að því.
 
Nú sé ég að ég kem til með að hafa tíma fyrir sjónvarpið líka. Valdís er að horfa á fréttir og seinna kemur annað léttara efni sem við getum horft á saman. Dagur á Sólvöllum er að kvöldi kominn


Kommentarer
Rósa

Rosalegur dugnaður er þetta! Þið eru bæði dugleg "skólabörn".

Kveðja,

r

2013-02-05 @ 20:09:05
Guðjón

Takk Rósa.

2013-02-05 @ 20:16:14
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Þorsteinn Ólafsson

Takk fyrir bloggið þitt kæri vinur. Þú ert sjálfum þér líkur, vandar það sem þú smíðar og skrifar eins og þú hefur alltaf gert. Kysstu hana Valdísi, hún er ótrúleg.

2013-02-05 @ 21:44:02
Björkin.

Kæru hjónin mín.Mikið get ég verið stolt af ykkar dugnaði.Þið eruð ótrúleg..Knússssssssss.

2013-02-05 @ 21:55:05
Guðjón

Þorsteinn, þakka þér hlýlega kveðju. Eiginlega þarft þú að fara að koma og gera úttekt á því sem við gerum hér. Byggingarfulltrúinn hefur aldrei komið þó að hann viti vel hvað við erum að gera.

Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2013-02-05 @ 22:46:48
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Guðjón

Takk fyrir kveðjuna mágkona og bestu kveðjur til baka.

2013-02-05 @ 22:47:30
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0