Dagur eins og hver annar dagur

Mitt fyrsta verk í morgun var að líta á veðurspána og þar sem það var hálfgerð kuldaspá fyrir næstu daga ákvað ég að bera inn eldivið. Ég ætlaði að vera fljótur að þessu og því klæddi ég mig ekkert sérstaklega vel og fór til dæmis berfættur í gönguskóna mína. En satt best að segja fannst mér eftir bara fáeinar mínútur að það væri napurt og þegar ég fór svo og sótti blaðið fann ég að það andaði norðan, aldrei slíku vant þar sem norðanátt nær sér sjaldan niður hér á Sólvöllum. Við erum vel varin fyrir þeirri átt af skógi. Það hefur sjálfsagt andað eina fjóra metra á sekúndu og það nægði til að færa kuldann alla leið inn á skinnið. Eftir þetta stúss mitt var heitur hafrarúsínugrauturinn minn alveg afbragðs góður. Þannig getur morgunstund litið út hjá ellilífeyrisþegum.
 
Við Valdís fórum á sjúkrashúsið í Örebro í gær þar sem hjúkrunarfræðingur ætlaði að sjá hvernig krabbameinslyfin færu í hana, hvort það væri hægt að merkja einhverjar aukaverkanir. Þegar við vorum komin inn á stofuna til hennar leit hún á Valdísi og sagði eftir fáein andartök að þetta virtist bara vera allt í fína lagi sem henni fannst líka alveg afbragðs gott. Hún virtist geta séð þetta svona í sjónhendingu. Svo skoðaði hún húðina þar sem birta reynir mest á og ítrekaði að þetta liti vel út. Þetta verkaði eitthvað svo frábært þar sem um er að ræða lyf sem ekkert er að leika sér með.
 
Svo í morgun þegar við borðuðum morgunverðinn horfði ég á Valdísi og fannst hún ekki eins hress í útliti og ég hafði vænst eftir ferð okkar í gær. Ekki ræddi ég það við hana en fylgdist með henni. Svo fór ég út á Bjarg að smíða og tilkynnti að ég kæmi fljótlega inn aftur sem ég og gerði. Ég er aldrei lengi þarna úti í einu og mínar ferðir inn í bæ eru tíðar, bara svona til að spjalla aðeins og kannski til að taka pínu kaffitár eða vatn í leiðinni. Það var fljótlega eftir hádegið sem ég kom inn og þá ilmaði af bakstri. Ég varð dálítið hissa og hafði orð á því. Nú, ég fann bara á mér að ég þurfti endilega að gera eitthvað sagði sú stutta og hnykkti á með báðum haldleggjum með kreppta hnefa og handarbökin fram, svona eins og fólk gerir oft þegar eitthvað hefur gengið upp.
 
Ja hérna. Ég hafði aldeilis haft rangt fyrir mér með heilsu hennar í morgun því að þarna var haugur af bolludagsbollum sem hún var að skera sundur með snöggu handbragi til að geta fyllt í þær með góðgæti. Ég fór út aftur og svo var kallað á mig í kaffi og ekki lét ég bíða eftir mér. Svo "fíkuðum" við. Orðið að fíka á einmitt mjög vel við þetta, að fá sér kaffi og góða bollu með. Ég kalla þetta bolludagsbollur því að það er lagt meira í þær en svona alveg hversdagslegar bollur.
 
Valdís segir oft að hún geri ekki neitt og hjálpi ekkert til. Þó að ég geri meira innanhúss en áður er það hún sem heldur heilsu minni gangandi með matnum sem hún útbýr. Og það finnst henni vera að gera ekkert. Hún talaði í síma við vinkonu sína í Fjugesta núna seinni partinn og ég var áheyrandi að því samtali. Vinkonan á mann sem er orðinn heilsulítill og er nú á sjúkrahúsi. Hann á að koma heim á morgun. Vinkonan kvartaði undan því að maðurinn skipti sér aldrei af því hvað hún keypti í matinn og vildi ekki hafa neitt með það að gera. Ég seig aðeins niður í stólnum þegar ég vað þess áskynja hvað þeim fór má milli. Það má mikið vera ef við erum ekki að einhverju leyti líkir, ég og kallinn hennar.
 
En nú vildi ég koma svolítið til móts við Valdísi fyrst hún var svona hress. Því fékk ég hana til að koma með mér út á Bjarg og standa á plönkum sem ég var að festa niður í gólfið með múrboltum. Það er svo gott að láta einhvern standa á þeim svo að þeir skríði ekki vítt um gólfið þegar borað er fyrir boltunum. Þetta er nánast í fyrsta skipti sem Valdís kemur mér til hjálpar þarna úti síðan hún málaði all mörg panelborð stuttu eftir að krabbameinsmeðferðinni lauk í september síðastliðnum. Henni líkaði vel að geta gert þetta og brá á smá glens sem ég tók mynd af, en einhverjar agnir höfðu setst á linsuna sem eyðilögðu myndirnar.
 
Það er orðið all áliðið en ég er vel á mig kominn, enda var að engin lélegur matur sem var hér á borðum í kvöld. Það var það sem við stundum köllum allsherjarsúpu. Það er kjötsúpa með litlu kjöti en afar miklu af grænmeti og rótarávöxtum af mörgum sortum. Ég sá um gulrófurnar og smávegis af káli en að öðru leyti sá konan um þetta, konan sem finnst að hún geri svo lítið gagn. Mér fannst það ekki svo lítið þegar ég borðaði fleiri diska af þessu mikla góðgæti. Nú er hún lögst útaf hér fyrir aftan mig og les í bók. Innan skamms skal ætla ég að verða henni selskapur með mína bók. Munurinn er þó bara sá að ég sofna afar fljótt með mína bók. En það fer vel á því og innan skamms munum við bæði sameinast kyrrðinni hér undir skógarjaðrinum að öðru leyti en því að ef ég legst á öfugu hliðina mun ég spilla kyrrðinni með hrotum mínum. Þá mun ég fá hjálp við að vakna nógu mikið til þess að ég velti mér yfir á hina hliðina. Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0