Að vinna fyrir sínu

Ég ætlaði nú aldeilis ekki að eyða tíma í að blogga í kvöld en þegar ég svo skoðaði myndirnar sem Valdís hafði vistað inn á harða diskinn varð mér mál. Hús hrynja á einum stað í dag en nálgast all hratt að verða tilbúin íbúðarhús á öðrum. Það er munur á örlögum manna og mér ber að færa fram nokkur þakkarorð með kvöldbæninni eða morgunbæninni ef ég skyldi sofna of snöggt þegar eyrað finnur fyrir koddanum. Ég las það nýlega á FB að hamingja væri að vera þakklátur í hjarta fyrir það sem ég hef og þrá ekkert meira.

Þar liggur vandinn; að þrá ekkert meira. Fyrir nokkrum árum var ég á leið heim til Örebro eftir að hafa verið eitthvað að bardúsa á Sólvöllum. Ég tók bensín og keypti svo lottómiða á besnínstöðinni og á leiðinni út í bíl hugsaði ég sem svo að eina miljón væri nú alveg frábært að fá á svo auðveldan hátt og þá væri hægt að gera allt á Sólvöllum sem hugurinn girntist ásamt mörgu öðru. En svo sló mig hugsunin að það væri allt of auðvelt og þá mundum við ekki eiga það sem við hefðum þar sem við hefðum ekki unnið fyrir því. En ég fann mig klofinn þar sem ég vissi að ég mundi taka við miljón ef ég ynni hana einhvern tíma.


En ég fékk enga miljón og það er nú líklega best þannig og ég reyni að vinna að okkar þannig að við eigum það. Þegar þessi mynd var tekin í dag var smiður að vinna rétt hjá en ég valdi að fara á þann staðinn þar sem erfiðara var að vinna. Ég gat alls ekki hugsað mér að velja betra verkið og láta smiðinn skríða á loftinu.


En smiðurinn jafnaldri minn afkastaði svo ótrúlega miklu í dag og vann einnig af mikilli alúð og nákvæmni. Ég sagði frá því um daginn að hann ætti bústað upp í Jämtland. Í dag kom hann með myndaalbúm með myndum af bústaðnum sínum og myndunum var raðað þannig að þær sýndu byggingarsöguna. Hann var svo glaður yfir bústaðnum sínum þarna á bernskuslóðunum með útsýni til Jämtlandafjallanna að það var ekki hægt annað en gleðjast með honum. Meðan ég skoðaði myndirnar með honum hugsaði ég sem svo að hann hefði unnið fyrir sínu og því væri hann svo glaður með það sem hann hefði. Á einni mynd var hann að vinna með skóflu niður í þriggja metra djúpum frárennslisskurði og á annarri var hann að vinna við grunninn undir húsið. Mér fannst við eiga nokkuð sameiginlegt. Svo fór ég að smíða og hann fór aðra umferð gegnum albúmið og sýndi Valdísi myndirnar.


Fet fyrir fet kemst lag á húsið og að fá klætt loft eftir að allt hefur verið í rúst um tíma er alveg dásamlegt þó að það þurfi að vinna töluvert fyrir því. Loftið er bara einn gleðiáfanginn af svo mörgum.


Svo þegar ég hætti tók ég mynd af dagsverkinu mínu og var harla glaður. Mig langaði að vísu að halda svolítið lengur áfram en það var komið kvöld og ég á að vera búinn að afla mér svolítillar skynsemi á 68 árum.


Við Lennart smiður ákváðum áður en hann fór að við skyldum hafa loftið fullgert á mánudagskvöld. Hans flötur var mikið stærri en minn og mikið stærri en sést á myndinni en það er í góðu lagi. Þó að ég hefði unnið verkið hans hefði ég alls ekki komist svo langt sem hann gerði á nokkrum klukkutímum. Næsti áfangi sem hægt verður að gleðjast yfir sést aðeins í þarna til vinstri, en það er gaflinn frá gamla húsinu sem nú er orðinn inn í miðju húsi. Hann lítur afar ritjulega út sem stendur en það er allt samkvæmt skipulagi eigi að síður.

Nú hef ég skrifað þetta eins og Valdís hafi hvergi verið nálæg en samt tók hún flestar myndirnar. Eldhúsaðstaðan sem hún hefur til afnota sem stendur er ekki upp á marga fiska. Það er kannski þess vegna sem ég hef verið lélegur við að taka myndir af henni. Það eru skörp hlutverksaskipti okkar á milli þessi misserin en ég hef oft sagt að hún hefur séð mér fyrir orku með þeirri fæðu sem hún hefur borði á borð fyrir mig. En á morgun förum við til Stokkhólms og þá ætla ég að vera duglegur við að taka myndir af henni í ömmuhlutverkinu. Við ætlum að heimsækja Hannes Guðjón og fjölskyldu og vera þar næstu nótt og halda svo aftur heim á sunnudag.

En við erum amma og afi fleiri barnabarna en Hannesar Guðjóns og þess vegna förum við til Íslands þann 26. mars til að vera við fermingu hennar Erlu í Vestmannaeyjum. Við förum svo aftur til baka þann 14.apríl


Kommentarer
Hrafn Karlsson

Sæll Guðjón,

Það gengur aldeilis vel með bygginguna, þetta verður talsverð stækkun sýnist mér?. Hvað á að vera uppá hanabjálkanum?,þar sem þú liggur á bakinu.?

2011-03-12 @ 20:44:37
Guðjón

Krummi, ætli það verði ekki skammarkrókur fyrir mig þegar ég er óþægur -er með prakkarastrik.



Nei Krummi, þetta getur til dæmis verið svefnloft, leikstaður fyrir ungdóma, góður staður til að lesa á eða kannski til að geyma smávegis. Okkur fannst óþarfi að láta það verða að engu.



Kveðja,



Guðjón

2011-03-13 @ 18:10:09
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0