Vasagangan

Það er spurningaþáttur í sjónvarpinu núna og þar var mikið um íslenska hestinn áðan og gangtegundir hans. Það voru líka sýndir margir fallegir íslenskir hestar, vel kembdir og glansandi. Og það var meðal annars sagt frá því að þó að íslenski hesturinn væri lítill gæti hann auðveldlega borði fullorðinn mann.

Dagur er að kvöldi kominn og í dag hefur verið óttalegt flakk á okkur Valdísi. Eftir einhverra stunda smíðar í morgun drifum við hjólsögina inn í farangursrýmið í bílnum og héldum með hana til Fjugesta. Ég hafði hringt í málningarvöruverslunina þar sem ég keypti sögina fyrir þremur árum og spurði hvar mundi vera hægt að fá gert við slík verkfæri. Sögin nefnilega neitaði algerlega að snúast og eitthvað þungt og mér óskiljanlegt hélt á móti þótt motorinn rembdist af öllum mætti. Per, sem rekur þessa verslun, sagðist ekki hafa hugmynd um hverjir gerðu við hjólsagir en sagði mér bara að koma með sögina og svo skyldum við sjá hvað skeði.

Nú, auðvitað. Ég sló nú ekki hendinni á móti því að gera þetta svona einfalt. Ég vissi jú að Per er upphaflega rafvirki og í versluninni hjá honum vinnur líka ungur maður sem er til í að reyna það mesta sem er í boði. Það er nefnilega þannig með þessa verslun að þar er alveg frá bært fólk og hjálplegt. Það er reyndar fullt af svona fólki ef maður bara vill taka eftir því og ég held að ég tali oft um það. Við erum dyggir viðskiptavinir þarna og okkur er líka mætt sem slíkum eins og dæmið um sögina gefur til kynna. Svo vonum við bara að sögin verði brátt heima aftur því að það er ómetanleg hjálp í því að hafa hjólsög þegar verið er að byggja.

Valdís átti tíma hjá heyrnasérfræðingi sem ætlaði að prufa heyrn hennar og því vorum við í Örebro næst á eftir Fjugesta. Eftir heyrnarkönnunina drifum við okkur í verslun þar sem einnig er matsölustaður. Og hvað með það. Það er líklega ekkert merkilegt við það. Og þó. Við fengum okkur mat þarna og ef eitthvað er til frásagnar sf því, þá er það bara það að ég hef bara aldrei held ég séð aðra eins rosalega skammta á diskum. Við urðum næstum södd af að horfa á haugana sem við höfðum framan við okkur þegar við vorum setst.

Eftir mikið matarát alllanga stund var það þó svo merkiklegt að það var ekki svo mikið eftir á diskunum. Þvílíkt og annað eins. Það lá við að við værum farin að líta í kringum okkur en sannleikurinn var þó sá að enginn var að velta þessu fyrir sér. En eitthvað gott virtist þetta hafa í för með sér því að þegar við komum heim fór ég í vinnugallann, dreif mig upp í ris og skreið þar við verstu aðstæður. Og viti menn! Ég var búinn að hálf kvíða fyrir þessu verki í marga daga en þegar ég var byrjaður með allan þennan mat í maganum uppgötvaði ég að verkið var bæði einfalt og auðvelt að framkvæma. Þetta hlýtur að hafa verið alveg sérstakur matur.

Nú er ég búinn að bulla um stund með sjónvarpið í gangi tvo metra frá hægra eyranu og þá er komið að því að vekja athygli á einu. Klukkan hálf átta að sænskum tíma á sunnudagsmorguninn hefst útsending frá Vasagöngunni og klukkan átta leggja af stað yfir 15000 manns í þessa 90 km löngu göngu. Það best ég veit er þetta lengsta og fjölmennasta skíðakeppni í heiminum og athugið; hún á sér stað í einu af Norðurlöndunum. Ég veit að það er ekki farið svo mörgum orðum um þessa göngu á Íslandi. Fyrir tveimur árum sendi ég Boga Ágústssyni tölvupóst og vakti athygli á þessu og alla vega það ár voru fréttir af Vasagöngunni. Ef fólk sem hefur aðgang að sænsku sjónvarpi þá hefst sjálf gangan klukkan sjö að íslenskum tíma á sunnudagsmorgun. Einhverjir tugir Íslendinga taka þátt í göngunni.

Það er upplifun að sjá þennan ógtrúlega mannfjölda leggja af stað. Það er eins og startið ætli aldrei að taka enda. Valdís horfir mikið á skíðaíþróttir í sjónvarpi og kann þar nöfn og þjóðerni en ég er alger auli á þessu sviði. Ég er hins vegar ákveðinn í því að sjá Vasagönguna hefjast.


Ps. Ég var búinn að stela mjög fallegri mynd af manni á íslenska hestinum en svo sá ég að fólk var beðið að stela ekki myndinni. Og hvað geri ég þá? Ég virði beiðnina og fæ í staðinn betri stund með Óla Lokbrá í nótt,



Kommentarer
Ásrún Önnu Steinu-dóttir

Ég varð nú að koma því að, að föðurbróðir minn, Jörundur Traustason, fór í sína 10 Vasagöngu þetta árið! Á 61sta aldursári!

2011-03-17 @ 23:04:02
Guðjón Björnsson

Ég veit að eitt árið fyrir nokkru síðan tóku um 30 Íslendingar þátt í Vasagöngunni. Einn maður sem gekk núna gekk í fimmtugasta sinn.



Kveðja, Guðjón

2011-03-17 @ 23:20:16
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0