Að þroskast af lífinu

Ég hef lengi, eða alltaf, litið svo á að ein höfuðmeiningin með lífinu sé að þroskast sem manneskja. Í gær bloggaði ég svolítið um fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og formann sænska Alþýðuflokksins, Ingvar Carlsson. Ég hélt áfram núna eftir kvöldmatinn að hlusta á samtalið við hann frá í fyrradag og ekki síður að horfa á hann. Ég spáði í það hvernig hann brást við spurningum, hvernig raddblærinn var, hvernig hann bar sig þar sem hann sat í stólnum í sjónvarpssal, hvernig viðmótið var og svo margt fleira. Ég gat ekki látið vera að hugsa sem svo að þessum manni hefði tekist að þroskast af lífinu og þeim uppákomum sem hann hafnaði í. Það var mikið langt frá því að hann hefði orðið uppkjöftugur atvinnupólitíkus af lífsverki sínu  -heldur sem þroskuð manneskja sem hefur áhrif á umhverfi sitt bara með því að vera nærverandi.

Ingvar var upphringdur af aðstoðarmanni Olofs Palme forsætisráðherra þremur korterum eftir að Palme var myrtur og aðstoðarmaðurinn tilkynnti honum að Palme hefði verið skotinn. Ingvar og Palme höfðu verið miklir vinir, ekki bara flokksbræður og vinnufélagar, heldur miklir vinir. Það var ákveðið á fimmtán mínútum að Ingvar tæki við störfum Palme -"og það var mikið langt frá því að ég fynndi fyrir hinni minnstu gleði yfir að verða forsætisráðherra landsins og leiðtogi sænskra Socialdemokrata" sagði Ingvar. Ég grét mikið þessa daga en landinu varð að stjórna og það var ekkert annað gera en að bíta á jaxlinn og vinna. Hið fullkomlega óhugsandi hafði skeð í þessu landi, forsætisráðherra þess hafði verið skotinn.

Já, þannig var það. Ingvar var afar hógvær og sannfærandi þegar hann sagði frá þessu. Öðru hvoru virtist hann verða all hrærður. Þetta er önnur mynd en margt fólk annars hefur af stjórnmálamönnum býst ég við og ég á afar erfitt með að sjá margan stjórnmálamanninn sem er í slagnum í dag verða að slíkum yfirveguðum, þægilega virðulegum eldri manni, manni sem hefur að mínu mati þroskast sem manneskja með mikinn persónuleika af ferli sínum. Sagan leggur sinn dóm að lokum. Það er þá sem margt kemur upp í dagsljósið og það er þá sem margir sjá eftir að hafa sagt það sem þeir sögðu og vona bara að allir hafi gleymt því. Svo eru aðrir sem þola smásjá sögunnar vegna þess að þeir hafa verið ábyrgir, hugaðir og sannir. Nöfn þeirra verða stór í sögunni. Ingvar Carlsson er einn slíkur maður þó að hann hafi grátið af sorg á fyrstu vikunum sem æðsti maður þjóðar sinnar sem taldi einar átta miljónir.

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta í gær var tilgangurinn einn, núna kvöldið eftir er mér allt annað í huga. Ég hef litið í íslensk blöð í dag og merkt að haldið er áfram að sækjast að Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að rökstyðja neitt og ég ætla hér að segja hlutina í sem fæstum orðum. Ég er algerlega sannfærður um að Svandís er að gera mjög þarfa hluti fyrir land sitt, nýja hluti líka, og til að gera það þarf mikinn kjark. Þegar sagnfræðingar framtíðarinnar, og þá á ég við þá sem enn eru í vöggu og á leikskóla, skrifa að svo sem þrjátíu árum liðnum sögu þeirra atburða sem eiga sér stað þessa dagana, þá verður nafn Svandísar hátt skrifað. Þá verða hins vegar nöfn þeirra sem veitast af hörku að henni á skipulagðan hátt ekki skrifuð með svo stórum stöfum vegna þess að þau verða falin í skugga illa hugsaðra og illa valinna  orða og margur mun þá óska þess heitt að hafa aldrei látið þau orð frá sér fara.

Svandís er hugaður brautryðjandi og framtíðin mun verða henni þakklát. Hún kastar ekki stóryrðunum kringum sig en hún tekst á við hlutina. Árið 1905 þegar landsmenn fréttu af því að það ætti að fara að leggja símalínur um landið riðu þeir í fylkingum til Reykjavíkur til að mótmæla. Hvað hefur ekki verið hlegið oft að þessu gegnum árin? Snjósleðamenn, jeppamenn, og þeir sem vilja geta gert hvaðeina sem þeim dettur í hug við Ísland ef það getur orðið þeim til fjárhagslegs ábata um stundarsakir, verða aðhlátursefni seinna á sama hátt og mótmælendur síma árið 1905. Svandís mun vaxa af verkum sínum, þroskast sem manneskja. Hún er kona og ég er alveg öruggur með það að þeir sem eru með typpin mundu sækja öðru vísi að umhverfisráðherra ef það væri maður.

Áfram Svandís!


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0