Biðjum fyrir þeim sem gráta

Tunglið er enn svo mikið í austri að það skín gegnum skóginn og hvort það virðist stærra en venjulega get ég ekki dæmt um fyrr en seinna í kvöld. Hins vegar er eins og margar trjágreinar séu að gæla við bjartan mánann og aðrar teygja sig áleiðis en ná ekki. Í sjónvarinu stendur yfir þátturinn Kóraslagurinn (Körslaget) sem er keppni sjö kóra þar sem einn kór fellur út á hverjum laugardegi. Í dag er fyrsti slagurinn og þess vegna á enginn að falla  út í kvöld. Á laugardeaginn kemur verður það hins vegar engin miskunn, þá verður fyrsti kórinn sendur heim. En sem sagt, það er ómurinn frá þessari keppni sem fyllir eyru mín þar sem sjónvarpið er ennþá tvo metra frá hægra eyranu þegar ég sit við tölvuna.

En ég er að reyna að breyta þessu ástandi með því að halda áfram í byggingarvinnunni eftir því sem kraftar mínir leyfa. Þetta lætur að vísu eins og ég sé á barmi uppgjafar en svo er ekki. Nú er ég búinn að vera einn með Valdísi í kotinu síðustu þrjá dagana. Smiðurinn er farinn í bili. Þegar ég er einn að smíða geri ég það sem er erfitt að láta aðra gera. Í fyrsta lagi eru sum verk þannig að það er erfitt að biðja aðra að framkvæma þau nema því aðeins að það sé hreinlega allt fullt af peningum. Því gerum við suma hluti hreinlega vegna þess að heimilisfaðirinn á þessum bæ hefur titilinn smiður. Svo er annað og það er að hér í landi gerir fólk vissa hluti, oftast kannski við aðalinnganginn, sem eru ætlaðir sérstaklega til skrauts, til að gera fallegt. Þetta heitir, þýtt á íslensku, smíðagleði. Hver ætti því að vera höfundur smíðagleðinnar á þessum bæ ef ekki smiðurinn í samráði við konu sína. Það liggur því beint við að smiðurinn á þessum bæ framkvæmi slík verk.

Nú eru ákveðnar hugmyndir um einfalda smíðalgeði við aðalinnganginn en það er ekki á dagskrá ennþá. Því hef ég verið að vinna við smíðagleði innanhúss í dag og ég er undrandi yfir því sem hefur áunnist og hversu vel hönnunin hefur tekist. En myndir af þessari smíðagleði verða þó ekki tilbúnar fyrr en eftir Íslandsferð. En ég nefndi áðan "titilinn smiður" og það gerði ég vegna þess að. . . nei, það verður að bíða þangað til ég verð fullorðinn. En ég er ekki einn við iðju hér heima. Valdís hefur verið að pakka niður í töskur fyrir Íslandsferð. Ég skal bara viðurkenna að það er mér ofviða að taka þátt í því. Ég vil ljúka byggingarvinnu hér hið fyrsta. Svo þegar við komum til Íslands kem ég til með að kalla: Valdís, hvar finn ég? . . . þetta og hitt

Það var verið sð segja fréttir frá Líbíu. Ég er ekki stríðsæsingamaður en ég er búinn að bíða óþreyjufullur eftir því að þjóðir komi sér saman um aðgerðir gegn því voðalega ástandi sem ríkt hefur í þessu landi þarna sunnan við Miðjarðarhaf. Mér létti því í dag þegar fréttir bárust af því að búið væri að samþykkja að hefja aðgerðir. Eftir fréttirnar frá Líbíu kom svo Anders veðurfræðingur á skjáinn og hann lofaði alveg sérstaklega fallegu veðri á morgun, sunnudag. Því miður eru samt allt of margir íbúar Jarðarinnar okkar svo uppteknir við að þurrka tárin sín að þeir taka ekki einu sinni eftir fallegu veðri. Svo sitjum við Valdís í öryggi hér heima og veltum fyrir okkur hvernig við getum gert heimilið okkar sem huggulegast. Við sem ekki þurfum að þurrka tár skulum muna eftir þessu grátandi fólki í bænunum okkar.

Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0