Gott fólk

Ég ætlaði ekki að nenna á fætur um sjöleytið í morgun en ég vissi svo vel að ég mundi sjá eftir því að drolla legnur í rúminu. Svo fékk ég mér morgunverð í skyndi og hélt því næst á sjúkrahúsið í Örebro. Þar átti að taka röntgenmynd af hálsinum og ég freistaðist til að komast að á röntgendeild þar sem maður fer í biðröð og svo getur það tekið hvort heldur stuttan eða langan tíma að komast að. Og hvers vegna röntgen? Jú, ég fór til læknis á heilsugæslustöðinni í Fjugesta um daginn og bað um almennt heilsueftirlit. Þegar ég sagði að það væri orðið mikið erfiðara að líta til hliðar eða til baka þegar ég ek bíl tók Eva læknir á höfðinu á mér og sneri því og vaggaði. Svo sagði hún að ég væri voða stirður í hálsinum og vildi fá að sjá af þessu röntgenmynd. Svo leit hún líka inn í eyrun og sagði að ég ætti að láta skola þau út. Því fór ég beint frá henni til Lísu hjúkrunarfræðings sem leit í eyrun. Hún sendi mig heim með dropa sem ég átti að setja í eyrun í þrjú kvöld í röð og koma svo aftur klukkan ellefu í dag.

Þannig fór það eftir þessa læknisathugun sem ég hef verið á leiðinni í síðasta hálfa árið eða svo. Og nú sat ég á sjúkrahúsinu í Örebro og vonaði að ég kæmist fljótt að svo að ég kæmi í tíma til Lísu. Næsta mann á undan mér að afgreiðslunni hafði ég séð, trúlega í einhverja tugi skipta, en ég hafði aldrei talað við hann. Við ákváðum að setjast saman á biðstofunni og ég fékk að vita um nokkra af nánustu ættingjum hans, allt fólk sem ég þekkti. Hann vissi þá þegar að ég væri Íslendingur svo að það var honum ekkert nýtt. Hann átti pantaðan tíma og svo hvarf hann á undan mér. Hann ætlaði síðan að fara eina hæð upp á sjúkrahúsinu og heimsækja pabba sinn sem undanfarin ár hefur gengið í gegnum rosalegri sjúkrasögu en ég held bara að ég hafi heyrt um áður. Hann ætlaði að skila kveðju til pabba.

Ég sá nú að ég yrði of seinn til Lísu og þótti það miður. En ég var búinn að bíða í meira en tvo tíma og konan í afgreiðslunni hvatti mig líka til að bíða áfram. Þegar ég ætlaði að hringja á heilsugæsluna til að tilkynna Lísu að ég yrði of seinn komst ég að því að ég næði ekki sambandi þangað fyrr en löngu eftir að ég kæmi þangað. En eftir myndatöku af mér í mörgum stellingum tók ég stefnuna móti Fjugesta. Í afgreiðslunni þar sagði ég konu sem var svo ung að ég hefði vel getað verið afi hennar, að ég væri hálftíma of seinn í heimsókn til Lísu. Við reynum nú að bjarga því sagði hún hin stilltasta. Biðstofan var aldeilis troðfull af fólki. Eftir svolitla stund kom Lísa og sagðist ætla að bjarga þessu en hún yrði þó að gera það í áföngum.

Og svo gerði Lísa. Hún tók mig inn í eyrnaþvottahúsið og byrjaði að hreinsa og svo sagði hún að hún yrði að taka höndum um aðra sjúklinga og svo kom hún á ný. Tvisvar þurfti hún að fara og gera annað og ég sofnaði í stólnum í annað skiptið. Einhvern veginn með svo góðri lund hjálpaði hún mér þó að ég hefði komið hálftíma of seint og svo kíkti hún inn í bæði eyrun og sagði: Hreint og fínt. Kannski var hún 25 ára og ég dáðist að hjálpsemi hennar. Það var einfaldast fyrir hana að segja að ég yrði bara að koma seinna og reyna þá að koma í tíma. Ég var henni þakklátur og ég fann stóran mun á eyrunum og því sagði ég við hana: Þú ert afar hjálpleg kona Lísa. Hún einhvern veginn stoppaði öll eitt augnablik en sagði svo: Guð hvað ég varð glöð að heyra þetta. Svo töluðum við um Ísland eitt augnablik og hvernig það er að læra tungumál eftir miðjan aldur.

Mikið óskaplega var ég orðinn svangur þegar ég kom heim. Valdís kom með mat á borð og ég fór í köldu geymsluna undir gólfinu og sótti stór síldarflök sem þar eru í geymslu. Svo borðaði ég allt of mikið og sofnaði á eftir sem ég geri mikið, mikið sjaldan. En þrátt fyrir allt tókst okkur að gera heil mikið núna síðdegis og nýjar hugmyndir litu dagsins ljós. Ég er að lokum mjög ánægður með þennan dag og finnst að ég hafi hitt svo mikið af góðu fólki og þó að Lísa fái mesta umfjöllun hjá mér var allt viðmót þeirra sem ég leitaði til í dag litað af góðu viðmóti og hjálpsemi.

Ég er hissa á því hversu mikið er af ljótum fréttum miðað við allt það góða fólk sem ég hitti.


Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Sæll Guðjón.

Gaman að lesa pistilinn þinn. Það eru þessi litlu atriði; bros, klapp á öxl eða vingjarnleg orð sem gefa svo mikið en kosta ekki neitt. Og gefa reyndar gefandanum enn meira en þiggjandanum, því vellíðanin sem á eftir fylgir er svo rífleg umbun.

Bestu kveðjur til ykkar Valdísar,

Guðmundur

2011-03-21 @ 23:05:37
Guðjón Björnsson

Gaman Mummi að þú sérð líka þetta með litlu, litlu hlutina sem kosta svo ógnar, ógnar lítið en gerir lífið svo mikið, mikið betra.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2011-03-21 @ 23:26:46
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0