Rafvirki, smiður og sótari

Ég hef held ég ekkert bloggað um húsbyggingu lengi sem auðvitað bara gengur ekki. En þó að ég hafi verið hljóður á blogginu varðandi þetta hefur húsbyggingin ekki staðið í stað, hreint alls ekki. Og eins og venjulega eru allir áfangar til ánægju. Til dæmis þegar rafvirkinn var búinn að koma og ganga frá öllum rafmagnsslögnum sem hringuðust út um allt eins og svínsrófur og við gengum á þær, fengum þær í andlitið og gleraugun. Svo þegar sótarinn var búinn að koma og hreinsa skorsteininn var ekki annað en veikja upp í kamínunni og svo var hlýtt í heilan dag. Vel einangrað hús er gott hús. En að vera sótari, það hlýtur að vera skítavinna. Svo er hann Lennart nágranni, smiður og ellilífeyrisþegi farinn að vinna hjá okkur. Já, hjól atvinnulífsins snúast á Sólvöllum í Krekklingesókn.


Ef ég skildi nú hvað rafmagn er. En ég þarf ekki að skilja það, það gerir það mesta sem maður óskar sér þó að ég skilji það ekki. Ekki veit ég hversu margir metrar af rafmagnsrörum og leiðslum eru komin í þetta hús sem var auglýst sem einfaldur sumarbústaður árið 2003, en það hljóta að vera nokkur hundruð metrar. Getum við ekki gert svona segjum við við rafvirkjann og þá er það ekkert vandamál. Svo er bara lagt eitt rör í viðbót eða þræði bætt í eitthvert röranna. Það sem við sjáum á þessari mynd eru bara smámunir af öllu saman. Rörin tvö vinstra megin í loftinu er bara vararör ef framtíðin skyldi bjóða upp á einhverja galdra sem þyrfti að leiða milli enda í húsinu með leiðslum.


En það var í gær sem rafvirkinn kom og í dag kom hann Lennart smiður. Lennart kemur frá Jämtland, nánar tiltekið í nágrenni Östersund, en Östersund er nánast í miðri Svíþjóð bæði frá norðri til suðurs og frá austri til vesturs. Konan hans er frá þessum slóðum líka og þau eiga bústað þarna norðurfrá og Lennart fær stjörnur í augun þegar við tölum um bústaðinn hans. Hann er mjög fínn nágranni og góður kall og þarna er hann að einangra.


En svo hófst nýr áfangi, að setja í loftið í gmla hlutanum. Að vísu settum við bara tvær svona umferðir hvoru megin og svo ætlum við að klára að klæða veggina í gamla hlutanum, fyrst með krossvið og síðan með gipsónetti eins og alla aðra veggi á Sólvöllum. Meðan Lennart vinnur við veggina ætla ég að vinna við að innrétta litla loftið sem á að verða krúttlegur góður staður. Það verður sko enginn skammarkrókur þar uppi skulið þið vita, enda yrði það bara ég sem yrði sendur í skammarkrókinn því að það er ég sem er prakkarinn á bænum. Valdís er betri helmingurinn.

En svo er það þetta með sótara, hvort það er ekki bansett skítavinna. Það var hressilegur og skemmtilegur kall, sótarinn sem kom í dag, og vegna breytinganna hér þurftum við á því að halda að ræða vissa hluti við hann. En eigum við ekki að líta á mynd af kallinum.


Þetta er hann Hasse Olsson skorstensfejarmästare sem þýðir einfaldlega sótarameistari. Og það verður ekki sagt með sanni að Hasse líti út fyrir að vera skítugur eða sóðalegur -eða hvað segið þið um það í fullri alvöru? Það var verst að ég tók ekki mynd af honum þegar hann var upp á þaki að pota niður í skorsteininn. Það hefði verið svo fínt að sjá hann þar uppi bera við himinn með hattinn. Svo setti hann meira að segja myndavél þar niður til að athuga hvort ekki væri allt í lagi í reykrörinu. Slíkt á að gera með nokkurra ára millibili. Það er alveg ótrúlegt hvað þessir menn vinna verkið þrifalega og eins og sjá má er stór ryksuga þarna við hliðina á honum og hún er í gangi allan tímann sem þeir vinna við þetta innanhúss. Allt í einu tók hann lítið vasaljós og svo stakk hann höfðinu á bólakaf inn í kamínuna til að sjá upp móti skorsteininum. Þá reyndat tók hann ofan hattinn á meðan.


Svo þurftum við að fá fræðslu um hvernig við ættum að innrétta kringum skorsteininn og þarna er hann að fræða okkur um það og talar með öllum líkamanum þó að hann liggi á hnjánum á gólfinu.



Kommentarer
Valgerður

Rosalega á eþtta eftir að verða flott og er reyndar farið að verða. Til hamingju mamma og pabbi.

VG

2011-03-10 @ 09:51:15
Guðjón Björnsson

Takk Valgerður mín, já það verður mjög fínt.



Kveðja,



pabbi

2011-03-10 @ 11:25:59
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0