En mitt kostar aðeins minna

Seinni hlutann í dag hef ég verið uppi í litlu risi hér á Sólvöllum að einangra með meiru. Þetta er alveg út við útvegginn þannig að það er lágt pláss að vinna í og það er ekkert um annað að gera fyrir mig en að liggja á loftinu og velta mér þar í einangrun sem ég setti á loftið fyrir nokkrum árum. Svo vill einangrunin upp fara upp í ermarnar, upp í skálmarnar, niður með skyrtukraganum, í nefið og helst niður í lungu. Þarna uppi verður hins vegar hið skemmtilegata pláss þannig að það er til nokkurs að vinna. Þegar smiðirnir enduðu vinnu sína hér fyrir síðustu helgi var komið að því að vinna þetta en þá þurftu þeir allt í einu að skreppa til Örebro og spurðu hvort þeir ættu að koma aftur. Ég skildi þá alveg og þeir þurftu ekki að koma aftur. Þeir voru búnir að gera mikið og vinna mjög, mjög óstöðvandi hratt.

Klukkan hálf átta var komið að þáttaskilum, allt það versta var búið, og þá hætti ég og fór hið bráðasta í sturtu. Þarna stóð ég undir sturtunni og fannst sem það hefði verið óhemju gaman að þessu, og þá alveg sérstaklega var gaman að þetta var búið. Þá þurfti ég ekki að böglast þarna á morgun líka og þá lítur út fyrir að ég sé ekki sjálfum mér samkvæmur að segja að þetta hafið verið gaman. En svona var þetta samt sem áður. Og svo er annað sem gerði mig hissa. Ég var að velta fyrir mér hlutum sem voru svo í órafjarlægð frá því sem ég var að gera.

Mér fannst það gaman að vera að ljúka einum áfanganum enn við húsið okkar. Suður í Evrópu eru hins vegar menn að vinna við allt annað. Þeir eru að vinna í einhverjum stærstu eða langstærstu jarðgöngum í heimi. Þeir ætla að komast að því hvernig heimurinn varð til með því að skjóta einhverjum örlitlum ögnum hverri á aðra með búnaði sem kostar mikið meira en ég get áttað mig á. Ég velti því fyrir mér upp í risinu hvort það væri það nauðsynlegasta í heimi að komast að því. Og þó að menn komist að því held ég að menn verði aldrei vissir um að það hafi verið einmitt þannig. Svo kom ég oft niður úr risinu og þá leit ég stundum á fréttir í sjónvarpi og þar var mikið talað um stríð niður í Líbíu þar sem menn skjóta með drápsvopnum hverjir á aðra.

Ekki er ég alveg viss um að Guði almáttugum sé nokkur þóknun í því að menn reyni að komast að því hvernig heimurinn varð til. Ég held hins vegar að honum væri mun meiri þóknun í því að menn eyddu einhverju af þeim ógnar peningum sem rannsóknin suður í Evrópu kostar til að rannsaka hvernig hægt væri að fá fólk til að skilja það að það er afar mikilvægt að við mannsekjurnar elskum hver aðra meira en við gerum. Þó að vísindamenn komist að niðurstöðu um sköpun heimsins munum við væntanlega ekki elska hvert annað meira þrátt fyrir það. Ég held að þeir geri þetta bara ánægjunnar vegna og til að seðja forvitni sína en ég einangra uppi í risi ánægjunnar vegna. Þar með erum við að gera svipað en mitt kostar aðeins minna.

Ég er ekki að vanmeta kunnáttu og vísindi með ofanrituðu. Þegar ég spurðu Rósu um daginn hvað námskeiðið fjallaði um sem þau hafa unnið með í vetur og fékk að vita að það var liður í að mennta fólk sem hjálpar heyrnardaufum, þá fannst mér kunnátta og vísindi mikilvæg.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0