Annar í sveitasælu

Á þessari stundu geysar söngvakeppni sjónvarpsstöðva í gervöllu landinu og þar með líka á litla sveitasetrinu Sólvöllum. Ef ég hefði infrarauða sýn gæti ég sjálfsagt séð dansandi héra, hnarreist dádýr og daðrandi ungelgi úti í náttmyrkrinu alveg dáleidda af þessum tónlistarviðburði sem heyrist vel út í skógarjaðarinn. Í gær var meiningin að vera bara eina nótt á Sólvöllum að þessu sinni. En í dag ákváðum við að taka því bara rólega hér í nótt líka. Um miðjan daginn þurfti ég út úr verðandi svefnherbergi til að sækja mér spýtu og hvað haldið þið? Þegar ég kom út undir bert loft angaði af pönnukökulykt. Svo var miðdegiskaffið heitar pönnukökur. Og Valdís er búkona. Einhvers staðar lumaði hún á lambakótilettum og nú vitið þið líka hvað var í kvöldmat. Það er ekki innangengt ennþá í þetta verðandi svefnherbergi þannig að ef ég vil athuga með matarlykt frá eldhúsi Valdísar, þá er bara að reka út nefið í dyragættina. Upp úr þakinu kemur nefnilega sérstakur skorsteinn sem sér um að koma matarlykt hússins á framfæri.

Vinnuáætlun helgarinnar kemur að vanda ekki til með að ganga eftir. Nú kenni ég því um að það eru svo margar rafmagnsdósir í herberginu að það tekur tíma að saga úr fyrir þeim öllum (þetta er brandarinn sem ég sagði Valdísi áðan). Það gengur nógu vel og það er gaman að vinna þetta allt saman. Valdís spurði mig nefnilega áðan hvort ég væri ekkert orðinn leiður á þessu. Ég brá fyrir mig heiðarleika og svaraði svo neitandi. Ég er nefnilega ekki leiður á smíðunum en hins vegar mundi ég gjarnan vilja geta lagt mig í nýja svefnherberginu í kvöld. Því svara ég líka af heiðarleika.

Í morgun ætlaði ég að fara út í dyr og sjá notalegan dag í fæðingu. Í gær talaði ég nefnilega svo mikið um að hlýindi væru að taka yfir eftir langan frostakafla. En viti menn; áður en ég opnaði útihurðina leit ég á hitamælinn og hann sýndi nær tíu stiga frost. Því verður hins vegar ekki mótmælt að það var fallegur morgun og í dag var mikill sólskinsdagur. Smáfuglarnir hennar Valdísar virðast bara verða fleiri og fleiri og tólgarboltarnir hverfa hver á fætur öðrum. Því keyptum við skammtara í dag sem skammtar fræ í samræmi við magnið sem fuglarnir éta. Það er nefnilega ekki hægt að gefa þeim beint á jörðina því að þá fer allt fræið í þá sem eru stærri, sterkari og frekari. Svo keyptum við líka fræpoka og sumt af þessum fræum eru voða góð í brauð eins og til dæmis sólrósarfræ. Og aftur minni ég mig á að fara að kaupa fyglahólkana sem við ætlum að hengja upp í skóginum. Þegar hægist um við húsasmíðar verð ég svo að smíða fuglahólkana sjálfur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0