Ferðasaga

Þar sem ég fer aldrei úr landi nema þá til allra nánasta nágrennis get ég ekki sagt frá neinu merkilegu af þeim vetvangi og verð að grípa til einhvers sem skeður heima fyrir. Í gær sagði ég að ég ætlaði jafnvel að heimsækja hann Kjell vin minn á sjúkrahúsið í Eskilstuna. Í Eskilstuna hafa íslenskir læknar gjarnan lokið námi sínu. Þar er sjúkrahús sem kallast Mälarsjúkrahúsið og þar liggur Kjell og hefur gert í fleiri vikur.

Þegar ég kom á bílastæðið við sjúkrahúsið virkaði ekki stöðumælaboxið á kort. Það var hreinlega um bilun að ræða. 15 krónur fann ég í bílnum og það nægði til eins klukkutíma og 15 mínútna og ég hélt jafnvel að það mundi nægja. Síðan hraðaði ég mér upp til Kjell á áttundu hæð og viti menn; hann hálf sat uppi í rúminu og leit næstum snaggaralega til dyranna þegar ég opnaði. Það var fullt að spjalla og tíminn leið fljótt. Allt í einu var klukkan orðin þrjú og ég vissi að miðinn í bílnum væri útgenginn. Ég spurði Kjell hvort það væri nokkur hætta á að stöðumælavaktin væri á ferðinni svona um helgi. Jú, sagði Kjell. Hún Kristina fór illa út úr því hérna um daginn. Hún fékk sekt og hún varð fjúkandi reið, sérstaklega vegna þess að hún þekkti þann sem skrifaði sektina og hann vissi hvað hún gerði þegar hún kom á þetta bílastæði. Þá er hún að heimsækja mig, sagði Kjell.

Ég kvaddi Kjell en sagðist koma aftur þegar ég væri búinn að fá mér kaffi og borga meira í stöðumælinn. Ég fór beina leið niður á jarðhæð og á kaffiteríuna þar. Þar sátu tveir menn við borð og annar þeirra virtist eitthvað einkennisbúinn en svo veitti ég því ekki frekari athygli. Afgreiðslustúlkan gat verið svo sem 25 ára, lágvaxin, svolítið þybbin, dökkhærð með tagl sem byrjaði hátt upp í hnakkanum, ögn breið í andliti og mér fannst hún ekkert sérstaklega aðlaðandi við vinnu sína. Ég fékk mér þykka rækjubrauðsneið og kaffi og tók upp kortið. Geturðu ekki bætt við tíu krónum spurði ég starfsstúlkuna svo að ég fái pening í stöðumælinn. Nei, sagði hún, ég get bara tekið akkúrat fyrir því sem þú kaupir. Vesen, sagði ég, ég sem þarf að borga í stöðumælinn en hann tekur ekki kort vegna bilunar. Leiðinlegt svaraði hún með taglið og svo var ekkert meir. Vaktin er kannski ekki á ferðinni um helgar svo að ég kannski slepp, sagði ég. Ha ha, jú jú, svaraði stúlkan með taglið, hann stendur þarna og ég sá þá að einkennisklæddi maðurinn sem hafði setið við borðið stóð nú við hlið mér og hlustaði. Þetta var einkennisklæddur sekúrítasmaður. Það finnst annað box aðeins þarna neðar sagði hann og það virkar. Annars getur þú bara tekið því rólega. Drekktu kaffið þitt. Já gerðu það sagði hún með taglið og taktu þann tíma sem þú vilt. Ég er nefnilega að loka en þér er velkomið að sitja áfram. Svo þurrkaði hún af borðum, gekk frá kaffivélinni og ítrekaði við mig að ég skyldi sko ekki stressa mig. En hvað hún var þægileg við gamla manninn. Notalegt að fá svona móttökur.

Hvað hafði skeð? Ég sem hélt að hún væri þurrpumpa en hún vildi þvert á móti að ég vissi að ég mætti láta fara vel um mig. Ég hélt áfram með væna rækjusneiðina og velti fyrir mér hvort henni fyndist kallinn bara þægilegur -eða var það mögulegt að sekúrítasmaðurinn hefði heillað hana svo að ég hefði fengið að njóta þess líka. Einmitt þá birtist nýr maður sem setti í gang nýja atburðarás. Svo sem tæplega fertugur maður stikaði inn um hliðið sem beið eftir að sleppa mér út. Það stafaði af honum kulda og hann vildi fá að borða. Hún með taglið sagði að það væri búið að loka og hún gæti því miður ekki hjálpað honum. Þá jókst kuldinn og hann kom með tillögur um hvernig þau gætu afgreitt þetta mál en framkoman var alls ekki til að lokka fram samvinnuþýðu. Svo var hann farinn að hækka röddina og vildi leggja hundraðkall á afgreiðsludiskinn og láta liggja þar til morguns ef hann bara fengi góða brauðsneið. Hún með taglið hætti nú að segja nei og lauk verkum sínum hljóðlát og enga fékk maðurinn brauðsneiðina. Þá settist hann við eitt af borðunum, tók vatnsflösku upp úr bakpoka sínum og fór að drekka vatn. Afsíðis karlmaður einn á báti fær oft aðstoð en það fékk hann þó ekki. Ég hef nú grun um að ef hann hefði sýnt ögn meiri hlýleika, þá hefði hann fengið brauðsneið.

Svo kom ég aftur upp til Kjell. Það var gaman að þú skyldir koma sagði hann. Svo teygði hann sig með óstyrkri hendi eftir gemsanum sínum og hringdi til Bernt. Hann vildi nefnilega að við Bernt hittumst. Bernt er eitthvað yngri en ég og við eigum það sameiginlegt að eiga báðir stugur (lítið hús, sumarbústaður) en hans stuga er bara um 800 km norðan við Örebro. Við skiptumst öðru hvoru á fréttum af hvors annars stuguvinnu og sendum myndir en hann kemur ekki til með að smíða í sinni stugu fyrr en í vor. Við eigum það líka sameiginlegt að vera með lélega mjöðm -en þó ekki lengur. Bernt er búinn að fá nýjan lið og segir það undur notalegt. Áður en Bernt kom spurði Kjell hvort ég gæti ekki komið svolítið oftar. Ég velti þessu fyrir mér á leiðinni heim og áttaði mig smám saman á því að þeir ættingjar og vinir sem næstir eru eru búnir að heimsækja hann á sjúkrabeð í tvö ár, ýmist á Huddingesjúkrahúsinu í Stokkhólmi, Mälarsjúkrahúsinu og heima hjá honum í Eskilstuna. Það væntanlega dregur smám saman úr þessum heimsóknum og mér finnst það á vissan hátt skiljanlegt en ekki nógu skemmtilegt. Hér var ég í góðum bíl á góðum vegi og enn þægilega mettur af rækjusneiðinni og minningu um góðar viðtökur á kaffiteríunni á Mälarsjúkrahúsinu. Það var mikill munur á mínum högum og Kjells og mikil þörf fyrir mig að sjá það og endurnýja þakklætistilfinningu mína.


Kommentarer
Anonym

Skemmtileg færsla, myndræn, falleg og hlýleg

2009-02-15 @ 19:03:48
Brynja

Já og kveðja frá Skánarbúum

2009-02-15 @ 19:04:40
Guðjón

Takk fyrir kommentaren Brynja. Þú mátt ekki skilja alveg við mig þó að þið flytjið til Akureyrar í sumar. Ljóti skaðinn fyrir land skóganna. Skiljið eftir góðan anda.

2009-02-15 @ 19:17:21
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0