Og svo kemur vorið

Það var sólskin á Sólvöllum þegar við loks komum þangað um hádegisbil. Það var líka tveggja stiga hiti, allur snjór var horfinn af þakinu og það voru komnir smá auðir blettir á nokkrum stöðum. Smáfuglarnir voru líflegir og tíst þeirra og smá spjall barst að úr öllum áttum. Tólgarboltarnir sem Valdís býður fuglunum upp á höfðu minnkað hraðar en áður og það bar vitni um vaxandi fjölda fugla. Það virtist vera vor á næsta leyti. Þetta vakti góða tilfinningu og það var eitthvað nýtt við að ganga frá bílnum og heim að bústaðnum. Það styttist í gönguferðir út í skóg til að fylgjast með brumum og sjá þau fara að bústna og búa sig undir nýtt vaxtartímabil. Það styttist líka í ferð til Vingåker til að sækja ein fjögur beykitré til viðbótar þeim 20 sem þegar eru orðin rótföst í Sólvallaskóginum. Síðan verður væntanlega hlé á þessum beykiflutningum á næstu árum. En í fyrsta lagi er farið að bráðliggja á að fara út í skóg og fella nokkur tré, bæði til að grisja og fá í eldiviðarforðann. Annars verður öll áhersla lögð á svefnherbergið þar sem búið er að ákveða að það verði opnað með pomp og prakt um páska.

Í nótt ætlum við að sofa hér á sólvöllumm í fyrsta skipti í langan tíma. Það verður tilbreyting og þá verður tíminn líka drýgri við smíðarnar. Það verður líka gaman að opna útihurðina í fyrramálið, líta út og sjá að við erum í sveit. Það var mikið af hérasporum í snjónum þegar við komum hingað í dag og um dimmumótin þegar við vorum að borða kvöldmatinn hljóp héri yfir lóðina, stoppaði við bílinn, en hélt svo áfram leiðar sinnar niður á gamalt tún vestan við húsið. Það hefur líka verið mikið af dádýraslóðum kringum húsið en þau hafa verið sparsöm á að sýna sig þegar við erum hérna. Ég hef líka oft verið einn hérna og er þá mest inni við smíðar og sé ekki þó að það einhver umferð ferfætlinga eigi sér stað.

Klukkan er að nálgast tíu og á morgun ætla ég að taka daginn snemma. Því er mál að bursta og pissa. Valdís er að horfa á samtalsþátt í sjónvarpi en mig grunar að hún muni koma fljótlega á eftir mér til að funda með Óla lokbrá. En áður en ég lýk þessu ætla ég að útskýra við hvað ég á þegar ég tala um tólgarboltana hennar Valdísar. Orðið tólgarbolti er bara bein þýðing og það er raunverulega tólg í þessum boltum, en í hana er blandað ríkulegu magni af fræjum og þetta er veislumatur smáfuglanna yfir vetrartímann. Valdís er minnugri á að hengja þessa bolta upp en ég er. Og að þessum orðum sögðum man ég eftir því að við höfum talað um að kaupa nokkra fuglahólka og festa upp í tré. Það er nokkuð sem þarf að fara að koma í verk. Það er bara fullt að gera í sveitinni.


Kommentarer
Rósa

Gott að heyra að vorið er að koma. Ég er búin að fá nóg af úlpu, trefli, vettlingum og húfu.



Kveðja,



R

2009-02-28 @ 14:07:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0