Vetur

Hér um daginn var tveggja daga frost sem flakkaði frá 15 til 20 stig en þessa dagana er þessi fína vetrarveðrátta með frosti frá þrjú til 14 stig og logn fyrir utan einn dag sem ég man eftir, en þá var golukaldi einn dagpart. Í morgun var ellefu stiga frost og sól að hækka á lofti þegar ég fór á Sólvelli skömmu fyrir hádegi. Þá var fínt, kristallað hrím á lauftrjám og sólin var byrjuð að lýsa það upp svo að veröldin skartaði silfri og kristöllum. Valdís var ekki með í ferð. Hún fór í smá aðgerð í fyrradag þar sem gerðar voru einhverjar ráðstafanir neðan við úlnliðinn til að koma í veg fyrir dofna fingur. Hún valdi því að vera heima og fara varlega. En hvað um það; ég vonaði að ég kæmi í tæka tíð á Sólvelli til að taka myndir áður en sólin næði að bræða burtu dýrðina. Það getur gerst á fáeinum mínútum ef svo ber undir. Myndin hér fyrir neðan sýnir svo hvernig bar í veiði þegar þangað vara komið.

Vetrarmorgun einn 1994 til 95 fórum við frá Svärdsjö í Dölunum niður til Falun. Þá var einn svona morgunn með hörku frosti og sólin rétt komin upp. Það var mikið meiri skrautsýning en þetta í dag og okkur fannst sem við hefðum allt í einu komið inn í veröld sem var af öðrum heimi. Svo upplifðum við það alla vega þá og ég á þá upplifun einhvers staðar skrifaða niður. Þessari vetrarblíðu er spáð áfram svo langt sem veðurfræðingsaugað eygir.


Svo smíðaði ég auðvitað á Sólvöllum í dag, setti spónaplötur á einn vegg. Að vísu kalla sumir afgreiðslumenn þessar plötur krossvið, aðrir nota einhverja skammstöfun, en þær eru aðallega notaðar undir gipsónett. Sjálfsagt er það gert á Íslandi líka. Við ætlum líka að setja gipsónett yfir þessar plötur.

Það er eins og ég hafi gert meira í dag en marga aðra daga þar sem þessar plötur eru loksins komnar upp á vegginn. En þannig er það þó ekki. En að þær eru komnar upp staðfestir hins vegar að það sem þarf að gera við sjálfan vegginn áður enn hægt er að klæða hann, það er búið. Svo auðvitað breytast húsakynnin voða skemmtilega þegar heill veggur er klæddur. Rósa og Pétur voru hér í heimsókn í fyrra og þá hjálpuðu þau okkur að rífa utanhússpanel af þessum vegg. Hann var nefnilega einu sinni útveggur. Ég man ekki í augnablikinu hvenær þetta var. Ef Rósa og Pétur lesa þetta geta þau kannski kommenterað og upplýst hvenær þetta var. Ég ætla hins vegar að fara að bursta og pissa og leggja mig. Ég er jafnvel að hugsa um að heimsækja hann Kjell vin minn á sjúkrahús í Eskilstuna á morgun. Við tölum oft saman í síma og hann spyr mig alltaf hvenær ég komi að heimsækja hann. Og á leiðinni heim eftir hvert skipti sem ég heimsæki hann skil ég hversu mikið ég hef að vera þakklátur fyrir.


Kommentarer
Rosa

Wow, herbergið er bara orðið óþekkjanlegt!



En ég man ekki hvenær við rifum panelinn. Var að reyna að finna myndir hérna hjá mér og á Flipper hjá ykkur, en finn ekki neitt... Það er eins og að enginn hafi tekið myndir af þessum stórviðburði.



En allannaveganna. Veggurinn er flottari núna en hann var þá!



Kveðja,



R

2009-02-14 @ 09:21:09
Guðjón

Jú, það var tekið mikið af myndum, Valdís var iðin með myndavélina, nú veit ég hvar ég finn þessa mikilvægu dagssetningu. Ég sem hef haldið því fram að myndir og blogg sé dagbókin mín og fatta svo ekki þetta. Ég þarf að auka við lýsisskammtinn greinilega.

2009-02-14 @ 09:37:38
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0