Úr einu í annað

Í fyrradag vorum við bæðu hjá sjúkraþjálfara, síðan keyptum við smávegis byggingarefni og svo héldum við til Sólvalla. Í einhverjum asnagangi kveiktum við á tölvunni og litum á spenntar fréttir af íslensku efnahagsmálunum. Það auðvitað gerir fólki illt að fara að horfa á svona lagað og eftir að hafa litið nokkrum sinnum á gengi íslensku krónunnar móti þeirri sænsku sýndist okkur sem ekki yrði hægt að flytja mánaðargreiðslur okkar frá Íslandi margar næstu vikurnar. Allt í einu tókum við mikilvæga ákvörðun. Við slökktum á tölvunni og gengum til okkar verka. Valdís fór að slá lóðina,
Stokkhólmsferð Kjell 004
ekki bara til að slá hana, en líka til að kurla hluta af því laufi sem hafði fallið af trjánum síðan eftir síðasta rakstur. Ég fór hins vegar að smíða og byrjaði á því að saga nokkra lista með á að giska 40 gráðu sniði. Síðan fór ég inn með þessa lista og miklar neglingar hósfust.
Stokkhólmsferð Kjell 005
Allt í einu datt mér í hug að líta á farsímann og sá að hann Kjell hafði hringt meðan ég var að saga. Ég ákvað að klára neglinguna og hringja svo í Kjell.

Þegar Kjell kom í símann sagði hann að hann hefði verið að horfa á fréttir frá Íslandi og sér hefði dottið í hug að ég væri áhyggjufullur. Því hefði hann hringt. Ég sagði honum að ég hefði verið í þann veginn að verða áhyggjufullur svo lengi sem ég hefði horft á fréttirnar en um leið og ég hefði byrjað að smíða og sjá árangur af því hefði ég orðið var við að ég gladdist yfir því að gera þarfa hluti. Ég sagðist líka telja að sanma væri með Valdísi, að hún hefði fundið fyrir því sama þegar hún byrjaði að slá. Svo ræddum við sman um daginn og veginn og allt mögulegt og ég var Kjell þakklátur fyrir að hafa viljað sýna nmér vinsemd.

Núna er miðvikudagskvöld og við Valdís vorum að koma heim frá Stokkhólmi. Við skruppum þangað með hann Kjell. Hann þurfti að fara í undirbúningsathugun fyrir stóra aðgerð. Vorið 2006 var hann skorinn upp við magakrabba og var það gríðar stór aðgerð. Kjell reiddi vel af fyrstu dagana en á þriðja eða fjórða degi varð hann allt í einu afskaplega veikur og var svæfður og áköf leit gerð að því sem olli þessum snöggu veikindum. Niðurstaðan var sú að magasýra hafði lekið inn í brjóstholið og brennt þar sundur vefi og líffæri á svo svakalegan hátt að ég ætla ekki að reyna að lýsa því. Næstu fáeina dagana gekkst Kjell undir einar fjórar aðgerðir og var svo haldið sofandi í tvo mánuði í öndunar- og hjartavél, annarri eða báðum til skiptis. Vélindað hafði verið tekið úr sambandi við það litla sem eftir var af maganum og var geymt upprúllað efst í brjóstholinu eða hálsinum. Eftir svefninn langa byrjaði löng endurhæfing og síðan var Kjell sendur heim til að ná sér svo vel að hann þyldi aðgerðina sem nú er framundan, að tengja vélindað við magann aftur. Þrátt fyrir allt þetta hringdi hann til mín á mánudaginn var til að athuga hvort ég væri áhyggjufullur.

Við auðvitað notuðum ferðina líka til að hitta hana Rósu dóttur okkar og færa henni eldivið fyrir veturinn.
Stokkhólmsferð Kjell 017
Sólvallaskógurinn gefur ekki bara af sér smíðavið til að stækka bústaðinn. Hann gefur líka af sér meiri eldivið en við komumst yfir að nota. Rósa var í vinnu þegar við komum heim til hennar og við byrjuðum á að ganga frá eldiviðnum í geymslu. En fyrr en varði var geymslan orðin full. Þau áttu eftir heil mikinn eldivið frá fyrri ferðum. Meðan við vorum að ganga frá eldiviðnum gekk hún Ulla nágranni Rósu framhjá okkur í ganginum. Hún er hjálpsöm kona Hún Ulla og hefur vikið góðu bæði að okkur og Rósu. Hún fékk því eldiviðinn sem við komum ekki í geymsluna. Reyndar stóð alltaf til að hún fengi eitthvað af honum en það varð meira en til stóð vegna plássleysins. Við fengum kaffi og súkkulaði í staðinn en samt finnst Úllu að hún verði að gera eitthvað meira. Rósa og Pétur eiga skilið mikinn eldivið frá okkur því að þau hafa hjálpað okkur mjög mikið á Sólvöllum.

Nú er mál að linni. Mynd af Kjell birti ég þegar hann er búinn að fá magann í lag og getur fengið sér kaffibolla með okkur. Förum vel með okkur á umbrotatímum.

Kveðja,

Guðjón


Kommentarer
Brynja

já það er mikilvægt að gleyma sér ekki í áhyggjum, jarðtenging í formi þess að slá garðinn og smíða er einmitt eftirsóknaverð leið. Víst er staðan slæm en ég vona að Íslendingar slappi aðeins af og slái garðinn sinn eða annað álika. Greinilegt að Kjell þarf ekki slík ráð sem gleymir ekki að hugsa um aðra þrátt fyrir greinilega þungar byrgðar. Hafið það gott kæru vinir, ég sakna ykkar

2008-10-08 @ 23:17:53
Guðjón

Takk fyrir þitt fína tillegg Brynja,

Kveðja,

Guðjón

2008-10-08 @ 23:33:09
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Valgerður

Ekki má gleyma börnunum á þessum tímum. Þau koma áhyggjufull heim úr skólanum með stærri spurningar en áður. Bekkjarfélagar eiga foreldra sem missa jafnvel vinnuna og annað þess háttar. Mamma eru foreldrar Jóns fátækir, það er alltaf hakk í matinn hjá þeim. Mamma missir pabbi Gunnu vinnuna því hann er bankastjóri í Glitni? Mamma, pabbi og svo er spurt. Þá er gott að setjast niður og spila krossorðaspilið eða annað í þeim dúr.

Kveðja

Valgerður

2008-10-16 @ 11:21:08


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0