Fimmtudagskvöld

Áður en ég fór í vinnu í gær las ég um það á textavarpinu að Norðurlöndin myndu sameinast um að koma Íslandi til aðstoðar og sú vinna sem framundan væri vegna þessa yrði leidd af svíum. Ekki var farið einu einasta niðrandi orði um stöðu Íslands og hvað það varðaði varð ég glaður og þakklátur. Hins vegar var mikil alvara fólgin í þessari ákvörðun og hvað það varðar varð ég leiður. Þetta kallast víst að tilfinningarnar séu blandaðar. Svo lagði ég af stað í Vornes, vel í tíma, og gaf mér því góðan tíma til að líta í kringum mig. Áður en ég fór í vinnuna hafði ég farið með Valdísi að einhverju húsi í vesturbænum þar sem fram átti að fara einhver handa- og fótaleikfimi.

Haustlaufin lágu í sköflum á vissum stöðum og nú var það mesta af stórum skógarsvæðum algerlega lauflaus og barrtrén inn á milli og á bakvið höfðu eins og styrkt stöðu sína. Ég kom að suðurströnd Hjälmaren og þá, sem oft áður, fór ég að reikna út hversu oft ég hefði komið að Hjälmaren úr þessari átt. Útkoman var bara í samræmi við fyrri útreikninga; ég hafði líklega farið í þessa átt um það bil 2000 sinnum og jafn oft hafði ég komið til baka. Þetta jafngilti næstum vegalengdinni til tunglsins eða allt að sjö sinnum umhverfis jörðina. Þvílíkt bruðl á eldsneyti í allar þessar ferðir í öll þessi ár. Ekki hafði ég verið umhverfisvænn þó að ég hefði lengst af verið á sparneytnum bílum. Nú var ég að reyna að bæta svolítið fyrir bensínbruðl mitt með því að eiga etanolbíl. 

Viðskipti hafa átt sér stað. Hér stendur Valdís við nýja etanolbílinn og Nikulás
bílasali við gamla bílinn. Stóri og litli. Rauði gamli bílinn er minni og Nikulás
bílasali sem hefur tekið við honum er líka minni.

Svo þegar við vorum búin að kaupa etanolbíl ruddust einhverjir sérfræðingar fram á sjónvarpsskjánum og sögðu að etanol væri bara ennþá verra en bensín, bara bölvaður óþverri. Ég varð stórsvektur en dæmdi svo þessa menn sem rugludalla sem fengu tilefni til að koma fram fyrir alþjóð í sjónvarpi. En hvað skeði? Raddir þessara manna hljóðnuðu og því trúi ég því bara að þeir hafi verið rugludallar.

Í svona hugleiðingum gengur ferðin vel og allt í einu var ég frammi í Vornesi. Oft í svona tilfellum hef ég hugsað eftir á; keyrði ég aldrei gegnum Hampetorp, eða, á hvaða hraða keyrði ég eiginlega gegnum Läppe. En alla vega, ég hef alltaf komið fram í þessum 2000 ferðum mínum svo að ég hef kannski ekki verið sem verstur bílstjóri þó að ég hafi ekki alltaf munað eftir að ég hafi keyrt vissa hluta leiðarinnar.

Þeir fyrstu sem ég mætti í Vornesi þennan dag voru nokkrir innskrifaðir sjúklingar. Þeir tóku mér vel eins og í hér um bil öllum tilfellum áður. Ótrúlegt hvað þessar manneskjur eru þægilegar í viðmóti og fullar af vináttu. Nágranni okkar við Sólvelli spurði eitt sinn við hvað ég ynni. Þegar ég svaraði að ég ynni á meðferðarheimili fyrir alkohólista og eiturlyfjaneytendur hörfaði hann ögn aftur á bak með skelfingu í svipnum og spurði óttablandinni röddu: Eru þeir ekki erfiðir? Það er sú mynd sem margir hafa af þessu fólki, en þegar það hefur tekið ákvörðun og beðið um hjálp til að breyta lífi sínu verður myndin allt önnur.

Góða nótt,
Guðjón


Kommentarer
Þorsteinn

Sæll, ég fann póstinn frá þér þegar ég var að taka til í ruslpóstinum. Ég er búinn að segja ruslpóstvörninni að þú sért hinn vænsti maður og viljir mér ekkert illt.

Til hamingju með nýja bílinn og það að þú ert líklega farinn að nota meira etanól en þú hefur nokkurn tíma verið fær um á þínum votustu árum.

Það er líklega helst hægt að gagnrýna notkun á etanóli á farartæki ef það er unnið úr plöntum sem ræktaðar eru á landi sem hentar til matarframleiðslu. Mér skilst að Svíar vinni etanól úr lífrænum úrgangi og það er hið besta mál, án þess að ég viti hvort framleiðslan leysir út mikið CO2.

2008-11-02 @ 19:21:53
Anonym

Takk fyrir kommentaren Þorsteinn. Fyrst gagnrýnisraddirnar hljóðnuðu treysti ég því vel að etanol sé umhverfisvænna en bensín. Þegar bensínið er dýrast er líka nokkuð ódýrara að nota etanol. Það eru líka ákveðin gjöld sem ekki þarf að borga af etanolbíl og skattar eru lægri.



Kveðja, Guðjón

2008-11-03 @ 12:42:38


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0