Mig hálf langar að blogga

Já, mig hálf langar að blogga en samt nenni ég því ekki almennilega. Ég veit þó að ef ég byrja er eins víst að ég komist á flug. Við skulum sjá.

Mér hefur oft dottið í hug að undanförnu hvað ég hef getað eitt mörgum orðum um Sólvelli og það sem við erum að gera þar. Samt er þetta bara lítill sumarbústaður sem við stækkum um nær helming og samtals verður byggingin rúmlega 70 ferm. Hvað er það? Það er eflaust í margra augum bara ekkert að tala um og svo hefur mér stundum fundist sjálfum. En svo er það nú samt að mér sjálfum, og okkur báðum, finnst þetta bara heil mikið. Við höfum líka stóra lóð og 6000 ferm skóg að annast og markmiðið er að innan nokkurra ára verði hægt að sjá skóginn sem vel hirtan laufskóg og eðallaufskóg. Flest sem gert er á Sólvöllum tekur langan tíma. Í fyrsta lagi er ég lengi að smíða og í öðru lagi nota ég vandvirkni sem kannski er ekki alltaf nauðsynlegt að nota. Einu sinni tókum við lán en nú um langan tíma höfum við bara keypt byggingarefni þegar það hefur vantað og borgað það jafnóðum. Svo hefur eigin vinna verið látin duga með hjálp Rósu og Péturs í nokkrum tilfellum nema hvað varðar raflagnir og fleira sem fagmenn verða að framkvæma.  Áfangar hafa verið margir og margsinnis hef ég, og oft við bæði, gengið nokkur skref aftur á bak til að sjá síðasta áfanga tilbúinn og gleðjast yfir því.

Stundum kaupum við lottómiða þar sem maður skrapar af reitum og fær fram tölur og ef þrjár eins tölur koma fram er það vinningur. Sumir segja að þeir kaupi svona miða til að styrkja góðan málsstað en það tek ég mátulega trúanlegt. Þegar ég kaupi svona miða geri ég það vegna þess að ég veit að það getur líka komið vinningur. Einhvern tíma þegar ég hafði keypt svona miða í hálfgerðu laumi, hafði stungið honum í brjóstvasann og gekk út í bílinn varð már á að hugsa að 
ef ég fengi vinning mundi það hjálpa mikið til við framkvæmdir á Sólvöllum. En þá komst ég líka að þeirri niðurstöðu að eftir á ættum við eiginlega ekki eins mikið í eigninni þar sem peningarnir hefðu komið svo auðveldlega upp í hendurnar á okkur.

Við höfum heyrt fréttir af fólki sem hefur byggt hundruða fermetra hús á stuttum tíma, glæsihallir með bílskúrum og öllu tilheyrandi, og bara eins og ekkert hefði í skorist. Við höfum líka heyrt frásagnir af miklum fjármálamönnum sem hafa keypt verslanakeðjur í útlöndum, stofnað banka í frægum borgum sem hafa velt miljörðum og aftur miljörðum. Svo hef ég setið við tölvuna mörg kvöldin og bloggað enn og aftur um nokkurra fermetra viðbyggingu á Sólvöllum eða flutning á nokkrum beykitrjám úr skógi í næstu sýslu sem við svo höfum gróðursett í Sólvallaskóginum. Þetta eru tré sem kölluð eru eðallauftré og verða kannski upp undir 10 metra há sum hver þegar við verðum 75 ára. Ósköp er þetta lítið í samanburði við það áðurnefnda.

Ég hef verið að vinna í Vornesi þrjá daga í þessari viku. Ég verð líka að vinna fyrir byggingarefni til að geta haldið áfram á Sólvöllum. Í dag hafði ég fyrirlestur fyrir 20 manns, menn og konur á aldrinum frá 21 árs til um 60 ára. Eftir fyrirlesturinn gengu þau rólega út og skröfuðu saman. Ég þurrkaði af töflunni og lagði svo af stað út sjálfur. Þegar ég kom fram í stóra forstofu þar sem þessi hópur fólks hafði gengið um svo sem einni mínútu áður, sá ég agnar litla lífveru bærast á gólfinu. Lífveran sjálf var kannski tveir og hálfur sentimetri á lengd en þegar hún hreyfði sig komu í ljós langir afturfætur. Þetta var froskur, ungi, sem hafði vilst þarna inn. Þegar fólkið gekk út hafa þau ekki tekið eftir frosknum þar sem þau gengu þétt og voru í samræðum. Nú var allt kyrrt og við vorum þarna bara tveir, ég og froskurinn. Eitthvað leit hann undarlega út þessi froskur. Það var eitthvað sem fylgdi honum eftir þegar hann hreyfði sig og þar að auki gekk hann rólega en annars hoppa froskar og þá svo langt í hverju stökki að það getur verið óþægilegt að ná taki á svona smá veru. Hér var það ekkert vandamál að ná honum og þegar ég hafði tekið upp froskinn sá ég að hann hafði flækt á sína löngu afturfætur einhverjum hellingi af lóhnoðrum sem höfði eins og spunnist í breitt band. Froskurinn var eiginlega í hafti. Hann hefur eflaust verið búinn að vera lengi þarna inni og fara víða.

Þegar ég lagði froskinn í grasið utan við sá ég að hann var hreinlega í hafti og gat alls ekki um frjálst höfuð strokið. Ég reyndi því eftir bestu getu að plokka af honum lóhnoðrana svo að hann gæti komist til frelsinins aftur. Svo studdi ég höndunum á hné mér og horfði á þennan litla ræfil sem bara lá í röku grasinu og virtist í einhverju sjokki. Fyrir einni mínútu var hann ófrjáls og bjargarlsus og þurfti eðlilega á hjálp að halda til að verða sjálfbjarga aftur. Og einmitt þarna þar sem ég horfði á froskinn datt mér í hug samlíking. Margir hafa hafnað í hafti að undanförnu og koma til með að eiga erfitt með að losna úr því. Ég fann fyrir þakklæti að hafa ekki spennt bogann of hátt á Sólvöllum og tapað frelsinu, nógu margir hafa gert það samt. Margir sem hafa hafnað með afturlappirnar í hafti að undanförnu hafa skapað það sjálfir. Froskurinn hins vegar viltist af leið og gat ekkert að þessu gert og nú er hann frjáls svo framarlega sem engin svöng froskaæta náði taki á honum. Ég vona ekki, þar sem mér þygir vænt um froskinn sem fékk mig til að hugsa svolítið. Ég ætla að halda áfram að gleðjast yfir hinum smáu áföngum á Sólvöllum og kannski að blogga um það líka. Ég er ennþá frjáls maður.

Ég held bara að ég hafi virkilega komist í gang með að blogga. Góða nótt.

Guðjón


Kommentarer
Valgerður

þetta eru góð orð.

VG

2008-10-20 @ 11:08:58
Guðjón

Takk Valgerður mín, þau komu líka frá hjartanu þegar ég skrifaði þau.



Kveðja,



pabbi

2008-10-20 @ 13:40:20
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Brynja

elsku litli froskurinn vonandi mun hann ná að dafna vel. Ég vona líka að hann finni ekki til þarfar að byggja sér hús á sandi og lánum sem valda hugsanlegri tímabundinni gleði en síðar ævavarandi timburmönnum. Ég ætla að taka mér ykkur til fyrirmyndar, taka lítil skref og safna mér fyrir hlutum áður en þeir eru keyptir. Takk fyrir notalegt blogg Guðjón

2008-10-24 @ 11:27:35
Anonym

Takk fyrir notaleg orð Brynja. Hef heyrt að Valur hafi sést hér í Örebro. Kveðja til ykkar allra.

Guðjón

2008-10-24 @ 12:30:33
Brynja

Rétt var á ráðstefnu, honum fannst gott að koma til Örebrú en því miður lítill frjáls tími, knús

2008-10-26 @ 21:32:21
Anonym

Rétt var á ráðstefnu, honum fannst gott að koma til Örebrú en því miður lítill frjáls tími, knús

2008-10-26 @ 21:32:53


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0