Nú má hann koma

Já, nú má hann koma. Allt er tilbúið til að taka á móti honum en það er engin hætta, hann kemur nú ekki næstu vikurnar. Það er bara svona að það er best að vera tilbúinn í tíma. Að vera alltaf á síðasta snúningi er svo aulalegt og svo verður það bara stress á síðustu stundu, en ef ég er tilbúinn í tíma get ég blöskrast yfir þeim sem eru á síðustu stundu eða allt of seinir. Það er mikið betra að hafa það þannig. En eitt skal ég viðurkenna; svo hefur það ekki verið á mínum vetvangi alla tíð. Ég var einn af þeim sem var alltaf á síðustu stundu og hafnaði í stressinu og kannski hreinlega í vandræðum. Vetrarhjólin eru komin undir bílinn og því er ekkert að vanbúnaði að vetur komi og það falli snjóföl. Fyrst fórum vi til sjúkraþjálfarans, síðan í byggingarvöruverslunina okkar og keyptum kerruna fulla af einangrun. Svo héldum við til Sólvalla og fengum okkur kakó og splunkunýtt brauð með þykkum ostasneiðum. Þegar við vorum að enda við að háma í okkur brauðið kom hún Annelie sem er stórvinkona Valdísar til margra ára. Hún á synina Adam 11 ára og Samúel 13 ára og það er eins og þessi mamma hreyfi sig aldrei án þess að drengirnir séu með henni. Ég held að þeir viti að þeir eiga góða mömmu og þeir muni aldrei gleyma því. En skömmu eftir að þau komu fór ég út til að skipta frá sumarhjólum til vetrarhjóla. Nokkru síðar komu þeir bræður út og buðu mér aðstoð sína. Nú vorum við orðnir þrír karlmenn sem unnum við að skipta um hjól. Þeir rúlluðu hverju hjóli á sinn stað við hliðina á bílnum fyrir utan það fyrsta sem ég var þegar búinn með. Síðan tóku þeir miða sem ég einmitt var að búa til þegar þau komu, miða sem á stóð VF, HF, VB, HB og miðana settu þeir hvern á sinn stað svo að ég gæti bundið þá á hjólin jafn óðum og ég tók þau undan bílnum. Síðan slógust þeir í góðu um stund en að lokum kom Valdís og bað þá að rúlla dekkjunum á ákveðinn stað þar sem hún ætlar að þvo þau um helgina. Þar með var komið að brottför hjá þessari fjölskyldu og á leiðinni að bílnum kölluðu þeir til okkar: Ha det bra.

Nú vinn ég í Vornesi næstu fjóra dagana og svo vinn ég tvö kvöld og nætur í næstu viku. Ljóta klandrið; bara enginn tími til að vinna á Sólvöllum. En það verður nú gott að fá lagt inn á bankareikninginn og þurfa ekki að flytja eins margar verðlitlar íslenskar krónur af lífeyrisgreiðslunum á þessum krepputímum. Reyndar hefur sænska krónan fallið líka og ef ekki mundi íslenska krónan standa ennþá verr móti þeirri sænsku, og nóg er nú samt.

Eftir að hafa talað um þetta með dekkin og svolítið um peninga má ég til með að segja frá miklum veikleika sem ég barðist lengi við. Þessi veikleiki gerði mér lífið oft erfitt og eiginlega meira en það, hann hafði áhrif á allt lífið. Þegar við komum til Svíþjóðar varð það eindregin regla að borga alla reikninga skömmu fyrir mánaðamót. Daginn sem ég framkvæmdi þetta fór ég alltaf í fýlu eða jafnvel meira en það. Ég varð nýskur og reiður og svo leið mér ILLA. Svo gekk það allt of lengi. Einhvern tíma þegar ég var í vinnunni að halda fyrirlestur um heiðarleika áttaði ég mig á því að þetta gæti ekki gengið lengur. Ég heyrði að fyrirlesturinn var falskur og myndi verða þar til ég hefði unnið bót á vandamálinu. Nú byrjaði ströng vinna við að breyta afstöðu minni til þessa að borga reikninga. Ég notaði mikið tímann á leið úr og í vinnu og talaði við sjálfan mig um það hvað það væri tryggt þegar ég væri búinn að borga reikningana, hvað það væri góð regla að borga reikningana á réttum tíma, að eftir að ég hefði borgað reikningana væri ég frjáls maður í heilan mánuð og svo framvegis. Eftir nokkurra mánaða þjálfum fann ég hvernig þetta breyttist og ég hætti að fara í mánaðarmótafýluna. Það varð að lokum gaman að borga reikningana og svo er það enn í dag. En getur ykkur dottið í hug hver hinn raunlegi ávöxtur varð af þessu annar en að fýlan hvarf? Nei, ég er ekki viss um það. Og nú skulið þið setjast ef þið ekki sitjið þegar. Það fór að verða afgangur af launagreiðslunum.

Góða nótt


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0