Loksins var komið svolítið lag á mig

Mikið ótrúlega var ég skipulagslaus maður í morgun. Ég sem bloggaði um það í gærkvöldi að ég ætlaði að byrja sæmilega tímanlega að þrífa og taka til hér heima vegna væntanlegrar gestakomu. Svo komst ég ekki í gang með neitt og þegar ég ætlaði að byrja á einu sá ég að fyrst þyrfti ég að gera eitthvað annað og þegar ég var að snúa mér að því sá ég eitthvað sem einfaldast væri að gera fyrst af öllu. Svona hringlaði ég kringum skottið á sjálfum mér en tókst þó að lokum að bera eitt og annað út á veröndina sem ég ætlaði með út á Bjarg og geyma þar. Við það lagaðist aðeins í þvottahúsinu og reyndar í eldhúsinu líka.
 
Svo tók ég ruslapoka með lífrænum afgöngum sem ég ætlaði með í moltukassann úti í skógi. Þegar ég kom  út fyrir dyrnar með pokann var ég næstum dottinn um það sem ég var búinn að leggja frá mér á veröndina. Þá loksins gerði ég val. Ég ákvað að fara fyrst með lífræna pokann út í skóg og við það sat. Þegar ég kom þaðan tókst mér með smá úturdúrum að koma því út á Bjarg sem þangað átti að fara. Þar með var komið að því að fara til Fjugesta og skila brettaskífunni sem ég leigði í gær. Um leið gerði ég helgarinnkaup og innkaup vegna gestakomunnar. Loksins var komið svolítið lag á mig.
 
Eftir að hafa ryksugað það mesta tókst mér að þrífa baðherbergið afbragðs vel, og þvottahúsið nokkurn veginn líka. Rétt þegar ég hafði svo tekið fram lax og annað í kvöldmatinn renndi bíll í hlað. Stokkhólmsfjölskyldan var komin. Hann nafni minn hafði sofið á leiðinni og var svo mjúkur og fínn á manninn við komuna hingað að það var ekki hægt annað en gleðjast mikið yfir nærveru hans. Og hvílíkur munur að geta nú gengið í kringum húsið með öðrum og gert úttekt á því sem ég hef verið að gera. Að geta svo borðað með öðrum og rætt saman var eitthvað annað en einveran yfir matardiskinum mínum og þau einkasamtöl sem ég hef haft við sjálfan mig undanfarið.
 
Ég kvarta ekki en að fá heimsókn sem þessa eftir einveru í vikur eykur verðmætamatið og þakklætið vegna gestakomunnar. Hann nafni minn var svo ljúfur allan tímann þangað honum var sagt að nú væri háttatími og jafn ljúfur tók hann því, háttaði og bauð afa góða nótt. Svo bað hann um að það væri lesið fyrir hann.
 
Nú er kyrrðin á Sólvöllum jafn mikil og þegar ég er hér einn. Nafni minn er hljóðnaður og lestrinum er lokið. Líklega er hann kominn í umsjá Óla Lokbrá. Ég er uppi með þá hugmynd að hann nafni minn hjálpi mér við rúgbrauðsgerð í fyrramálið meðan foreldrar hans gróðursetja hvítlauk og fleira sem á að skila afrakstri næsta sumar. Það getur orðið býsna góður dagur á morgun og ég hef grun um að ég verði skipulegri í athöfnum mínum en ég hef veri í dag. Ég er óðum að koma niður á jörðina eftir þær framkvæmdir og annir sem hafa verið í gangi hér undanfarið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0