Að gleðjast yfir litlu

Það er einkennilegt aðdráttarafl sem það hefur að setja orð á blað (eða á skjá). Ég var svo fullkomlega ákveðinn í því að það yrði ekkert bloggandi í kvöld, en svo er ég tilbúinn í bólið og búinn að bursta og pissa og þá sest ég hérna og set í gang. Ég var seint fyrir, fór á AA fund, og þegar ég kom heim klukkan hálf níu byrjaði ég á matargerð og var ekki búinn að borða fyrr en á tíunda tímanum. Kannski ekki alveg það besta fyrir þann sem segist hafa heilsuna í fyrirrúmi. En nú verður það ekki aftur tekið.
 
Það gengur vel með leyndarmálið sem ég er búinn að segja að ég afhjúpi seinni part vikunnar. Annað kvöld, fimmtudagskvöld, var líklegur tími, en það er spáð rigningu allan morgundaginn þannig að ég get kannski ekki gert það sem til stóð. En á eftir fimmtudeginum kemur föstudagur og þá er ekki spáð rigningu. Kannski get ég þá gert það sem ef til vill verður ekki hægt að gera á morgun. En alla vega; eftir annan hvorn daginn verður afhjúpun.
 
Ég fékk óvæntan glaðning í dag. Svoleiðis var að fyrir tæpum þremur vikum sáði ég grasfræi í dálítið svæði, nokkuð sem hefði þurft að ske einni og helst tveimur vikum fyrr. Ég gerði þetta með algerri óvissu eða þannig að ég taldi jafn miklar líkur á að það tækist og að það mistækist. Svo varð bæði kaldara og þurrara en ég hélt að yrði þannig að ég afskrifaði þetta með öllu núna undir síðustu helgi og var hættur að fylgjast með spíruninni. Ég var reiðubúinn að taka þessa áhættu. Grasfræið kostaði nokkur hundruð krónur og það yrðu þá bara ný innkaup að vori.
 
Svo var ég að störfum hér úti í dag og var eitthvað litið yfir moldarsvæðin með nýsáningunni. Mér sýndist einhver breyting vera á ferðinni, eins og einhver grænleit slæða hefði lagst yfir moldina. Ég lagðist á hnén, lagði vangann næstum á jörðina til að sjá nógu flatt á svæðið því að þannig sést best hvort það er byrjað að spíra. Og hvað haldið þið? Það voru komin mörg, mörg, mörg græn strá svo sem tveggja sentimetra há. En ef einhver hefur séð mig í þessari stellingu er spurning hvort sá hinn sami hafi verið alveg viss um að það væri allt í lagi með þennan undarlega krjúpandi mann.
 
Ég þarf ekki meira en þetta. Þetta var svo gaman og ég hringsnerist þarna og næstum hoppaði upp úr stígvélunum af kæti. Ekki peninganna vegna, heldur vegna þess að eitthvað hafði tekist. Og þó! Ég fór inn, kveikti á sjónvarpinu og leit á veðrið á textavarpinu. Ágætis spá. Svo fór ég í tölvuna og leit á tíu daga spána. Sama þar. Ágætis spá í heila viku að minnsta kosti og rigning á morgun. Það var í lagi að vera glaður. Síðan er gras að vaxa hér alveg fram í nóvember þannig að það eru mestar líkur að þetta takist vel.
 
Það er ríkidómur að gleðjast yfir litlu, gleðjast yfir að eitthvað hafi tekist þó að það sé ekki endilega stórt.


Kommentarer
Björkin

Og enn er beðið og spennan eykst.Kram frá okkur.

Svar: Og kveðja til baka
Gudjon

2013-10-10 @ 20:09:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0