Dalirnir í haustlitum

Ekki svo marga kílómetra norðan við Örebro fer landslag að breytast þannig að það verða meira afgerandi hæðir, til og með hálfgerðar brekkur, og smám saman koma í ljós lág fjöll með skóginn upp á efstu toppa. Eina 80 kílómetra norðan við Örebro, við Kopparberg, hækkar landið og við tekur alvöru skógur og út úr honum er ekki komið fyrr en enn öðrum 80 kílómetrum norðar, skammt sunnan við Borlänge. Svo kemur Borlänge í ljós með hina virkilega stóru verslunarmiðstöð, Kupolen, í forgrunni.
 
Það var þetta sem ég og Kristín ferðafélagi minn og skólasystir upplifðum og fengum að sjá á sunnudaginn var. Fyrir hana var það algerlega nýtt en fyrir mig langþráð endurnýjun á kynnum við svæði sem ég hef mjög oft farið um en þó ekki á nokkrum síðustu árum. Mér fannst ég hafa næstum því barnalegar væntingar í tilefni þessara endurfunda við gömlu heimaslóðirnar og það er hverju orði sannara að upplifunin fyllti væntingarnar svo sannarlega.
 
Fyrsta myndin sem ég tók var af húsinu sem við höfðum tekið á leigu til þriggja nátta. Það var notalegt að koma að því og virða það fyrir sér og það var ennþá notalegra að opna og líta inn. Þvílíkt fínt hús, tvö herbergi, lítil stofa ásamt eldhúskrók og þetta líka fína baðherbergi. Gólfin fín, allt var fínt.
 
Svo var að athuga útsýnið. Það var nú það fyrsta eftir að hafa rennt auga í skyndi yfir húsið. Það var að vísu orðið of skuggsýnt til myndatöku en nákvæmlega það sem sést á þessari mynd litum við augum þó að myndavélarnar réðu ekki við það fyrr en daginn eftir.
 
Þetta vatn, Runn, með öllum sínum 365 eyjum var mér ekki ókunnugt þar sem við Valdís vorum búin að búa í íbúð með útsýni yfir það nákvæmlega frá vinstri á þessari mynd. En litirnir, þeir komu mér á óvart. Ég vil ekki kalla það skrautsýningu, það þarf að vera eitthvað mikið meira viðeigandi heiti sem ég nota ef ég á að vera ánægður með það. Litadýrð dugir eiginlega ekki heldur. Og ekki var óróleikinn á vatninu. Það var hægt að fara aftur og aftur þessa fáeinu metra sem þurfti til að líta yfir þetta.
 
Þær fara nú að verða hver annarri líkar þessar myndir, en á þessari leyfði ég mér að draga skóginn nær til að ná litunum betur.
 
Þessi gæti svo sem alveg verið frá Akureyri ef það væri fjöllóttara í bakgrunninum. Eftir þessari byggð endilangri höfðum við Valdís oft farið, bæði einsömul og með fólk sem kom til okkar. Og svo gengum við fram eiðið sem er lengst til hægri með trjánum á strjálningi. Svo tók við baðströnd sem er hægra megin við myndina. Þegar við fórum þetta í gærmorgun var búið að læsa slánni sem lokar leiðinni þangað og það var ekki beinlínis freistandi þá að leggja land undir fót.
 
Það var líka litadýrð við Siljan. Það var alveg endalaus litadýrð þar og það var ekki svo slæmt að fá þessi eldri hús með, hús sem eru orðin hluti af umhverfinu vegna aldurs síns. Og ekki er óræktin eða draslið á lóðunum þarna.
 
Ég er ekkert ókunnugur á þeim slóðum sem myndirnar eru frá, svæðum þar sem við Valdís hrærðumst í þrjú ár. Það er erfitt að fullyrða, en ég gat ekki látið mér detta í hug áður en við lögðum af stað í þessa ferð að þessi náttúrufegurð mundi blasa við okkur á þessum árstíma. Þar með verð ég að segja; fallegra en ég hef nokkru sinni séð það áður.
 
Eftir þessum myndum að dæma er eins og það hafi enginn verið heima í Dölunum, að ekki ein einasta mannvera hafi verið þar á ferli, heldur hafi myndavélin svifið þarna um og tekið myndir á eigin sýtur. En ég bara valdi að hafa þetta svona og svo set ég fleiri myndir og annað efni í blogg á morgun ef allt gengur eftir. Það er nefnilega hægt að segja margt um þessa ferð og þá fundi sem við áttum með fólki. Við hittum gott fólk og áttum frábærar spjallstundir með því. Ég hitti mann sem mig óraði ekki fyrir að ég mundi hitta og ég held að við höfum báðir orðið all vel hrærðir yfir óvæntum fundi okkar. Við hittum líka konu sem ég vonaðist til að hitta. Það var líka frábær fundur. Þetta efni ætla ég að eiga í blogg á morgun. Bloggið núna er bara inngangurinn í alvöru blogg um Dalaferðina sem ég hef talað lengi um.
 
Nú að húsinu aftur. Þegar við vorum búin að bera farangur okkar inn og sjá útsýnið eins og hægt var að sjá það þarna um dimmumótin þegar við komum heiman að, þá tókum við eftir því að það var kalt í húsinu. Þrátt fyrir miklar tilraunir til að bæta úr því tókst okkur það ekki. Það var ekki fyrr en að morgni sem eigendurnir komu hitanum í lag, en það þurfti að breyta einhverri stillingu frá sumarhita til hausthita. Við fengum lítils háttar afslátt og afsökunarbeiðni og eftir á kynntumst við því hversu mjög vingjarnleiki húss breytist þegar það hlýnar vel í því.
 
Hittumst væntanlega á morgun.


Kommentarer
Svanhvit

Þvílîk fegurð og kyrrð, þurfum á þessu að halda.

Svar: Aldeilis rétt Svanhvít.
Gudjon

2013-10-17 @ 21:51:29
Björkin

Rosa fallegt og haustlitirnir skarta sínu fegursta.

Svar: Já mágkona, tæpum tveimur dögum eftir að við yfirgáfum þetta er ég enn hrærður yfir að hafa fengið að vera með um það og að hafa komið þangað á svo réttum tíma. Ég hef bara ekki verið með um svona náttúrufegurð áður, svo finnst mér alla vega núna.
Gudjon

2013-10-18 @ 12:11:24


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0