Einbúi rétt einu sinni enn

Um kvöldmatarleytið var smá vindbelginur og hiti um tíu stig. Það var eins og það væri kalt en samt var ekki kalt. Auðvitað, ef mið er tekið af sumarhitanum sem stóð næstum mánuðum saman, er þetta árans kuldi en eftir á að hyggja var besta veður allan daginn. Samkvæmt veðurspánni var mesti hiti í dag hér í suðurhluta Svíþjóðar nítján stig. Spáin á morgun gerir ráð fyrir að mesti hiti geti aftur komist upp í þessi nítján stig en væntanlega þó ekki á mínum slóðum. Ég er búinn að kveikja upp í kamínunni fyrir nokkru og það er notalegt hér á Sólvöllum.
 
Helgargestirnir héldu heim á leið upp úr hádegi og ég fylgdi þeim úr hlaði. Við komim við í Svampinum í Örebro og fengum okkur hressingu, til dæmis kaffi og væna rækjubrauðsneið. Síðan héldu þau austur á bóginn áleiðis til höfuðborgarinnar en ég hélt heim til Sólvalla og minna athafna hér heima. Athafnirnar fyrir og eftir brottför þeirra voru ansi ólíkar.
 
Svona var það fyrir brottförina. Hér gefur að líta tvo unga menn með fjarstýrða rafmagnsbíla. Þeir óku þvers og krus kringum veröndina, mættust dálítið djarft og fóru í kappakstur sem sá á rauða jakkanum með græna bílinn vann jafnan. Afi kenndi því um að barnabarnið hefði fengið betri bíl til umráða, en hins vegar getur afi ekki sagt mikið vegna þess að það var hann sem valdi rauða bílinn í verslun inn í Marieberg og gaf barnabarninu í afmælisgjöf. Afi getur bara átt um þetta við sjálfan sig.
 
Og ég sem auðvitað er afinn get ekki séð þegar ég horfi á þessa mynd að ég líti svo þunglyndislega út þrátt fyrir allt. Ég er með ráðagerðir um að byggja brýr á veröndina þannig að það sé hægt að aka þessum viðbragðssnöggu bílum upp og niður af veröndinni. Það yrði góð einbeitingaræfing fyrir alla að taka þátt í þeirri íþrótt.
 
Þarna var ekið í návígi en samkomulagið var gott og það var ekki tiltökumál þó að ég æki stöku sinnum yfir litlu tærnar á barnabarninu mínu. En aftur að þessu með brýrnar. Ég sá í versluninni þar sem ég keypti rauða bílinn að það er líka hægt að kaupa þyrlur með sama útbúnaði. Ég met það svo að ef ég mundi ekki ná tökum á að aka upp og niður brýrnar, þá mundi ég ekki ná tökum á þyrlunni og mundi þá líklega alveg sleppa að kaupa hana. Eða hvað?  :)
 
Þegar við komum efst upp í Svampinn lyfti ég Hannesi og sýndi honum útfyrir brjóstvörnina sem umlykur útivistarsvæðið þar. Þegar hann leit þarna suðvestur yfir Örebro varð honum að orði: mörg hús. Svo var ekkert meria um það.
 
Ég nefni oft Kilsbergen. Þau eru þarna úti við sjóndeildarhringinn og væru kannski frekar kölluð hæðir á Íslandi en fjöll. En vissulega ekur maður upp dálitlar brekkur þegar ekið er upp í Kilsbergen og þar er víða mjög fallegt. Þessi mynd er líka tekin úr Svampinum, tekin móti vestri.
 
Hversu vel sem okkur Hannesi kemur saman, þá snýr hann mjög oft upp á sig þegar ég beini að honum myndavélinni. Þarna fékk ég þó að taka eina mynd af Stokkhólmsfjölskyldunni allri þar sem þau horfðu til suðvesturs í átt til Sólvalla. Eftir myndatökuna fórum við inn og völdum okkur meðlæti með kaffinu. Síðan skildu leiðir.
 
Vírnetið þarna var sett upp í fyrra og það best ég veit á að fjarlaægja það aftur að vori. Það er líka mikil sjónmengun að því.
 
Nú er aðeins glóðin eftir í kamínunni og ég var að slökkva á viftunni sem dreifir hitanum frá henni. Viftan var búin að vera í gangi smá stund, en þegar hún þagnaði varð svo undur hljótt. Innan skamms er það bara að bursta og pissa og draga svo ullarfeldinn upp að eyrum. Golukaldi duflar við loftventilinn á vesturveggnum en ég læt það ekki á mig fá og minnist bara veðurspárinnar frá klukkan átta í kvöld. Verkin sem ég ætla að fást við í vikunni eru öll einföld og létt miðað við þau verk sem ég hef haft með höndum síðustu dagana núna fyrir helgina. Ég á bjarta daga í vændum í vaxandi skammdegi.


Kommentarer
BJÖRKIN

Gaman í bílaleik mágur kær.Ekki slæmt að fá svona gleðigjafa í heimsókn..Krammmmmmm

2013-10-07 @ 14:12:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0