Svartnes í Dölunum

Í Svartnesferð okkar Kristínar heimsóttum við húsnæði gamla meðferðarheimilisins Saga Svartnes þar sem ég hafði unnið. Ég fann vel fyrir eftirvæntingu, mjög vel. Við spáðum í það hvort það væri nokkra snyrtingu að finna í Svartnesi og þegar við komum að gamla meðferðarheimilinu voru þar nokkrir bílar og opnar hurðir. Við gengum inn og ég var mjög svo forvitinn. Í andyrrinu hafði miklu verið breytt og bakvið afgreiðsluborð sat maður sem var dökkur á hörund og skreyttur að hætti fornra indíána eða eða einhverra annarra ættbálka. Að vísu var hann ekki með fjaðrir. Við heilsuðum honum og spurðum hvort möguleiki væri að fá að nota snytringu.
 
Hann svaraði mjög kurteislega að þarna til vinstri væru tvær snyrtingar en inn á ganginum til hægri væri líka snyrting sem væri snyrtilegri. Það var í áttina að matsalnum. Kristín byrjaði á snyrtingunni, þeirri snyrtilegri, en ég gekk í rólegheitum móti gamla matsalnum og virti fyrir mér veggi sem höfðu fengið upplyftingu með panel upp að miðju og nýrri málningu. Allt leit mjög snyrtilega út. Ég gekk að lokum til hægri fyrir horn og sá þá yfir allan gamla matsalinn endilangann og að eldhúsdyrunum í hinum enda hans. Gamlir svartnesingar sem lesa þetta fara nú að kannast vel við sig.
 
Við eldhúsdyrnar innst í matsalnum var kona á miðjum aldri að vinna. Hún var myndarleg, viðkunaleg, frekar ljóshærð og með hálfsítt hár. Hún gekk fáein skref á móti mér og gaf mér kost á að ávarpa sig sem ég líka gerði. Ég heilsaði með handabandi, kynnti mig og sagði að ég hefði unnið þarna á árunum 1994-1995. Hún tók mér mjög vel og sagði að ég væri þá trúlega einn Íslendinganna sem hefðu verið þarna. Hún sagði að Svartnes væri búið að vera ýmislegt gegnum árin en væri nú aðsetur fólks sem hefði misst tök á lífi sínu og engin lausn hefði fundist fyrir. Við vorum þá sammála um að þarna væri þetta húsnæði að nálgast sitt upprunalega markmið, að hjálpa fólki sem hefði misst tök á lífi sínu. Það var IOGT sem var með þennan rekstur núna tjáði hún okkur.
 
Þessi kona tók okkur afar vingjarnlega eins og ég sagði þó að hún byði okkur ekki upp á kaffibolla að íslenskum hætti. Mér fannst svo notalegt að koma þarna og finna fyrir þessum vingjarnlegheitum, einmitt þarna, og mér fannst sem eitthvað gott væri að eiga sér stað með þennan gamla vinnustað minn. Ég leit inn í eldhúsið og mér fannst sem margir hlutir væru ennþá þar sem þeir voru 1995. Við kvöddum konuna og héldum af stað.
 
Þegar við gengum aftur fyrir hornið frá matsalnum komum við að dyrunum á gamla grúppuherberginu sem ég hafði um tíma meðan ég hafi grúppu á sjúkradeildinni. Þar inni var margt búið að segja og margt búið að ske. Einn atburður var mér þó langefst í minni þaðan. Það höfðu komið samdægurs margir þungir drykkjumenn frá stað einum í Gästrikland og ég fékk eina þrjá þeirra í grúppuna til mín. Þetta var á fyrsta árinu mínu í Svíþjóð og með þá málakunnáttu sem ég hafði var staðan alveg óskaplega erfið. Læknir einn úr Dölunum var einnig í meðferð og líka hann var í minni grúppu.
 
Eftir eina grúppuna beið hann meðan aðrir fóru út, síðan gekk hann að hurðinni og lokaði. Svo sneri hann sér að mér og sagðist vilja láta mig vita um góðan eiginleika sem ég hefði til að bera og hann hélt áfram eitthvað á þessa leið: "Hvað sem fólk er illa á sig komið og á bágt hér inni, þá tekst þér alltaf að finna eitthvað jákvætt í manneskjunni og láta hana vita af því. Það er mikill og góður eiginleiki." Síðan sneri hann sér að hurðinni, opnaði og gekk út. Svo var hann sjúklingur minn á ný. Hann var sjúklingur minn en hann var líka læknir sem enn hafði vinnu. Ég hlaut að hlusta á það sem maðurinn sagði.
 
Þetta eru uppbyggilegustu og mikilvægustu orð sem ég hef fengið að heyra í vinnu minni með alkohólista í 20 ár og þau hafa fylgt mér alla tíð síðan. Ég hafði heyrt Þórarin Tyrfingsson segja að það væri nauðsynlegt að segja jákvæða hluti við sjúklingana, en þarna fékk ég að vita að mér tækist það í reynd. Þvílík uppörvun. Ég og þessi læknir hittumst oft síðar í Falun 0og það fór alltaf mjög vel á með okkur.
 
Þegar við komum út á hlaðið mættum við tveimur mönnum sem heilsuðu. Annar þeirra gekk strax inn og það var greinilega matarími. Hinn, stæðilegur kall sem talaði Dalamál eins og það gerist fallegast, sagðist vera húsvörður með öllum verkefnum sem því fylgdu bæði varðandi viðhald og framkvæmdir. Ég nefni hann hér vegna þess að hann talaði þetta fallega Dalamál eins og það gerist best og svo var hann mjög þægilegur í viðmóti. Ég var aldeilis himinlifandi yfir þessari heimsókn.
 
Í Svartnesi ókum við líka framhjá gamla prestsbústaðnum og ég benti Kristínu á litla húsið við vatnsbakkan sem mig langaði svo mikið að kaupa á sínum tíma og gera upp sem sumarhús. Valdís var kannski ekki svo hrifin af þeirri hugmynd, enda með báða fæturna á jörðinni sem betur fer þegar ég sveif í loftinu og jarðsambandið var mjög lauslegt. Ég hef verið seinþroska en held að jarðsamband mitt sé í sæmilegu lagi nú orðið. Svartnestíminn og tengslin við Dalafólk og ótrúlega víðfeðmar skógi vaxnar óbyggðirnar þarna uppfrá er einn af mörgum þáttum sem hafa komið mér á legg.
 
 
Åsgatan í Falun. Kristín ferðafélagi minn er á bláum jakka þarna mitt í göngugötunni. Henni er ekki vel við myndatökur og það er kannski þess vegna sem hún er þetta langt í burtu og bíður þess að ég komi og við getum haldið áfram. Dyrnar sem standa opnar þarna vinstra megin og manneskja kemur út um með drif á öllum að því er virðist, það eru dyrnar inn til gamla AA fundarstaðarins í Falun. Eftir að ég var farinn að vinna í Vornesi fluttum við fundarstaðinn í næstnæstu götu ofan við þessa. Þessa göngugötu vorum við Valdís oft búin að rölta, bæði saman eða sitt í hvoru lagi. Ég sakna Falun og ég sakna Dalanna eins og ég segi svo oft, en örlögin færðu okkur þaðan, það var ekki hægt að standa á móti því. Það er ekki lengur um það að fást og Sólvellir eru góður staður líka. Hitt er svo annað mál að áður en við Kristín fórum í þessa ferð hlakkaði ég mikið til, en nú eftir ferðina finnst mér nauðsynlegra en nokkru sinni að fara þangað aftur.
 
Ég skrifa of langt mál. Þess vegna kom ég ekki fyrir frásögn um heimsóknina til hennar Súsönnu í þessu bloggi. Það er líka þannig að myndir af þeirri heimsókn eru á myndavél Kristínar og vegna tæknilegra örðugleika milli Västerås og Örebro hefur ekki tekist að koma myndunum þaðan og til mín. Því verður umfjöllun um þessa heimsókn að bíða næstu helgar. Ég ætla þó að skrifa það mikilvægasta fyrir þann tíma þar sem ég vil ekki koma of langt frá upplifuninni sem þessi heimsókn skildi eftir sig.
 
Svo má kannski segja að hvernig í ósköpunum mér detti í hug að skrifa svo mikið um ferð á milli landshluta í Svíþjóð. Sumir fara í ferðalag umhverfis jörðina, á óvenjulega staði eða á hæstu fjöll, og svo finnst ekkert skrifað um það. Ég skrifa þetta niður fyrir mig og bloggið er dagbókin mín og heimildabanki síðan í desember 2006. Það er einfaldast fyrir mig að birta allt sem ég skrifa annars fer skipulagið út um þúfur. Það er líka þannig að ef ég skrifa til að birta ekki verður frágangurinn allt öðruvísi og handvömmin meiri. Og svo er málið að það eru ótrúlega margir sem sem ég sé að lesa bloggin mín, meira að segja þessa löngu lýsingu af ferð upp í Dali. Minn skilningur er sá að fólk sækist ekki endilega eftir hetjudáðum og spennulýsingum, það er eins og mörgum líki vel að lesa um einfalt líf, líf sem í raun er eins og líf flestra, en samt vill fólk lesa um það.
 
Indæla og virkilega minnisstæða heimsóknin til Susönnu dregst einhverja daga, en þegar ég birti hana verður þessi Dalaferð orðin að hluta þess geymslubanka sem bloggið mitt er.
 
Frá Främby Udde resort
Veitingahús sem tilheyrir sumarhúsasvæðinu þar sem við vorum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0