Það má alls ekki skrökva

Tveimur dögum áður en ég fór upp í Dali til að halda upp á stóran áfanga birti ég blogg sem ég nefndi Leyndarmálið margnefnda. Ég var búinn að gefa í skyn nokkrum sinnum að það væri eitthvað stórmerkilegt í gangi á Sólvöllum. En þetta merkilega var einfaldlega að ég hafði byggt lokaðan grunn undir húsið. Það er mun einfaldara að byggja grunn áður en húsið er byggt en atburðarásin hér á Sólvöllum var sú að það varð þveröfugt. Fyrst var húsið byggt á opnum grunni, á steinstöplum, og mér fannst það ekki nógu fínt. Þess vegna fór ég út í það undir haustið að loka grunninum. Ég ætla ekki að vera með neinar orðalengingar um það eða að lýsa því hvernig ég framkvæmdi það, en það var árans mikið bauk og seinlegt. Stundum á minn mælikvarða hreinlega púl.
 
Áður en ég fór upp í Dali bloggaði ég sem sagt um þetta og sagðist vera búinn og eiginlega fannst mér það. En það var ekki satt. Það er einn gafl austan á húsinu, móti skóginum, og ég ætlaði ekki að ganga frá grunninum undir hann fyrr en að vori. Það voru ýmsar ástæður til þess sem ég fer ekki út í að lýsa, en alla vega þá var þetta ekki búið, ég bara skrökvaði því.
 
Þetta er austurgaflinn og svona lítur hann út núna. Kragann á brunninum brýt ég svo niður, kannski ekki fyrr en í vor, og mölin á plastinu til hægri verður hluti af fyllingunni í brunninn.
 
Himinninn er sakleysislega blár sagði Tedd Färjestad í ljóði sínu (Himlen är oskyldigt blå). Þetta lítur líka svo sakleysislega og einfalt út. Þannig verður það líka með svo margt þegar það er búið. Meðan á því stóð var það ekki alveg svo saklaust og einfalt fyrir mér. Þess vegna er hrein nautn að horfa yfir það núna.
 
Það eru komnar svona hellur umhverfis allt Sólallahúsið, alls 167 stykki. Það var löngu ákveðið að gera þetta svona, líka áður en ákveðið var að fara út í verandasmíði. Valdís sá það sem hlutverk sitt að slá og hirða lóðina og þetta átti að gera henni verkið auðveldara og skemmtilegra. Mikið leiðinlegt að hún fékk ekki að upplifa muninn, þó ekki hefði verið nema eitt sumar.
 
 
Það er alveg spurning að kaupa nýjar byggare bobb buxur í tilefni áfangans og að ég þarf ekki að vera að skrökva neinu um gang mála.
 
Það er ekki alveg grín að ég er að tala um þetta að skrökva. Ég var farinn að hálf skammast mín fyrir allt mitt skriðdýrslíferni hér á Sólvöllum, að hámark þess sem ég léti eftir mér væri að skríða kringum húsið á fjórum fótum milli þess sem ég lá undir útveggjunum. Sjötíu og eins árs gamall maður á ekki að þurfa að vera að ljúga um svona hluti. Ég vel þetta allt saman sjálfur og á bara að standa fyrir því. Og svo get ég alveg lofað að það er gaman að horfa á þetta þegar það er búið. Það verður líka að reiknast til lífsgleði.
 
Einn af máttarstólpunum í tólfspora kerfinu er heiðarleiki. Einn af máttarstólpunum í heiðarleikanum er að skrökva ekki. Um hálftíu leytið á morgun fer ég í Vornes og vinn annað kvöld og fram á þriðjudagsmorgun. Ég vinn þar sem fulltrúi tólfspora kerfisins. Oft spurja sjúklingarnir hvort hvít lýgi sé ekki leyfileg. Þá hristi ég höfuðið. Að segja ekki frá því að bakvið húsið leyndist nokkuð sem eftir var að framkvæma -það var hvít lýgi. Hlægilegt, eða hvað? Nei, það er reyndar ekki hlægilegt fyrir þann sem vill gera allt sitt besta til að hlú að edrúmennskunni sinni. Ég var búinn að hringja í hana Kristínu sem fór með mér upp í Dali og segja henni að ég hefði logið í hana. Rósa og fjölskylda vissu að þetta var eftir þannig að þau vissu að ég hafði notfært mér hvítu lygina. Hversu kannski hlægilegt sem einhverjum kann að virðast þetta, þá er best að taka hlutina alvarlega. Þá verður lífið gott.
 
Þegar ég var raunverulega búinn með verkið þarna úti og að ganga frá klukkann að ganga fjögur í dag fór ég í sturtu. Síðan fékk ég mér gríðarlega vel útilátið síðdegiskaffi þar sem ég hafði ekkert borðað frá morgunverði stuttu fyrir sjónvarpsmessuna. Annars byrjaði ég úti klukkan átta í morgun. Eftir þetta síðdegiskaffi kveikti ég á sjónvarpinu og sá þá viðtal Skavlan við pakistönsku stúlkuna Malala og pabba hennar. Þá skildi ég að raunveruleikinn sem ég hafði haft að félaga við austurvegginn í eina viku var býsna, býsna lítilfjörlegur miðað við raunveruleika svo margra heimsins barna. Samt fór ég tvisvar út eftir það til að athuga hvort það væri ekki alveg örugglega rétt að ég væri búinn.


Kommentarer
björkin.

Það er aldeilis flott heim að líta mágur minn.Og mörg eru handtökin.Góða nótt,og gangi þér vel í vinnunni,

Svar: Góða nótt
Gudjon

2013-10-27 @ 21:46:01


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0