Hugsanir tengdar verönd

Hér um daginn gekk ég með stunguspaðann að þremur alparósum, stakk þær upp og henti í hjólbörur. Svo fór ég með þær út í skóg og henti ofarlega í greinahaug sem Pétur tengdasonur hlóð upp í sumar þegar hann tók höndum um fimm birkitré sem voru felld bakvið húsið. Þarna var ég að jafna og móta lóðina kringum nýju veröndina og þá var tími alparósanna runninn upp.
 
Valdísi langaði svo að hafa fleiri alparósir og svo keyptum við þær fyrir fáeinum árum. Við fórum kannski öfuga röð með þetta. Fyrst hefðum við átt að velja þeim stað en það gerðum við ekki. Við gerðum það eftir að við höfðum keypt þá liti sem Valdísi langaði í. Svo fundum við enga góða staði fyrir þær en gróðursettum þær samt. Í fyrra sagði Valdís að það væri best að taka þær bara burtu því að staðsetningin væri ómöguleg. Það var rétt hjá henni en það var ekki fyrr en þennan dag fyrir stuttu sem ég lét þær hverfa.
 
Í fyrra stóð til að byggja þessa verönd en svo varð ekki af því. Því var slegið á frest um óákveðinn tíma. Síðan stakk Rósa upp á því á ný, eða dæturnar báðar, að byggja pallinn. Þar gæti Valdís svo væntanlega haft sæmilega tilveru í sumar. Svo varð það þó ekki en pallurinn byggðist eigi að síður, nokkrum mánuðum seinna en til stóð. Sumir segja að Valdís sé hér meira og minna og hafi auga með mér. Um það verð ég samt að segja að ef það er hlutverk Valdísar nú í framhaldslífinu að hafa auga með mér, sérvitrum og misjafnlega leiðinlegum, þá er framhaldslífið ekki svo magnað að koma til. Ég ætla bara rétt að vona að hún fái stærri umbun en svo eftir að hafa af mikilli tryggð annast sitt hlutverk mjög svo samviskusamlega í jarðlífinu.
 
Í nokkur ár vann Valdís á heimili fyrir aldraða í Örebro í bæjarhluta sem heitir Vadköping. Þar var líka fólk sem var ekki svo gamalt en hreinlega glímdi við mikla erfiðleika. Þar var meðal annarra maður sunnan úr Evrópu, maður á góðum aldri en fatlaður og sat í hjólastól. Hann gat heldur ekki tjáð sig í tali. Valdísi var mjög í mun að aðstoða svona fólk og það var kannski vegna þess að hún lagði hart að sér við það að hún varð að hætta að vinna fyrr en ella.
 
All löngu eftir að Valdís hætti að vinna í Vadköping var hringt til hennar þaðan og henni boðið að koma á samkomu sem haldin var fyrir íbúa heimilisins og starfsfólk. Það vildi hún svo gjarnan og eftir á sagði hún mér þessa sögu: Það var söngatriði og hún stóð ásamt starfsfólkinu aftan við vistfólkið og fylgdist með. Allt í einu fann hún eitthvað koma upp að hlið sér og það var tekið var í hendina á henni. Þar var þá kominn maðurinn sunnan úr Evrópu og svo var hann þarna við hlið Valdísar þar til öllum atriðum var lokið og hann sleppti ekki hendi hennar allan tímann.
 
Eitthvað vildi þessi maður segja henni og eitthvað var það væntanlega sem hann vildi þakka fyrir. Ég ætla að vona að herrann sem ræður á himni háum eigi í fórum sínum betri verðlaun til handa Valdísi fyrir vel unnin verk í jarðlífinu en að hún þurfi að dvelja hér hjá mér langtímum saman. Óski ég þess er ég afar sjálfselskur og vanþakklátur fyrir það sem hún gerði fyrir mig á þeim fimmtíu og þremur árum sem hún dvaldi með mér. Ég óska henni oft velfarnaðar og bið þess innilega að það sé vel hlúð að henni.
 
En mikið væri hún velkomin að Sólvöllum og gjarnan að hún settist við hlið mér í hengirólunni á veröndinni bakvið húsið eitthvað kvöldið þegar ég sit þar. Og mest af öllu þætti mér vænt um ef ég fynndi að tekið væri í hönd mína á þann hátt að ég væri viss um að hún hefði eitthvað að þakka mér fyrir eins og Evrópumaðurinn forðum vildi þakka henni á heimilinu í Vadköping.
 
Valdís talaði oft um Evrópumanninn í Vadköping og þótti sem örlögin sem féllu honum í skaut væru afar þung og að ekki væri réttlátt að slíkt þyrfti nokkur maður að lifa við.
 
*          *          *
 
Fyrir nokkrum dögum steig ég út úr þvottahúsinu út á veröndina og hugsaði um leið að þessi verönd átti að vera fyrir Valdísi, mjög hugsanlega síðasta sumarið hennar og hún átti að geta gert það besta mögulega úr lífinu þarna utan við austurhliðina þar sem heldur væri hlé fyrir sólinni. Smiðurinn Anders ætlaði að vinna þetta að stórum hluta og meira að segja að grafa fyrir stöplunum undir veröndina með mér. Hann vildi svo sannarlega vera hjálplegur. Svo skiptust veður í lofti fyrr en nokkurn óraði og þessari byggingu var slegið á frest.
 
Hugsunin um þetta kemur upp alltaf öðru hvoru en núna í þetta skipti var það einhvern veginn sterkara en venjulega. Þarna rétt innan við gluggann sem ég stóð nú utan við sat Valdís oft og ég var hingað og þangað og sýslaði við mitt. Skrapp alltaf öðru hvoru inn og við töluðum saman litla stund. Allt í einu var sem ég heyrði Valdísi segja; farðu nú bara og haltu áfram, ég ætla að reyna að hvíla mig, "ég verð að hvíla mig svo að mér geti batnað". Þessi orð gerðu mig svo leiðan "ég verð að hvíla mig svo að mér geti batnað". Hún virtist alla vega oft trúa því fram á það síðasta, eða hugsanlega allan tímann, og ég reyndi að trúa því. Það var eins og hennar bestu stundir væru í þessum stól og að henni gengi betur að hvíla sig þar en í rúminu sínu.
 
Óskaplega varð þessi dagur sorglegur um tíma. Hver hugsunin af annarri rann gegnum huga minn og hver setningin af annarri ómaði í eyrum mínum.
 
Ég hélt áfram, gekk út af veröndinni, sneri mér við og virti hana fyrir mér og það varð svo mikið "ef" í kringum svo mikið. Ef ég hefði, ef eitthvað annað og ef eitthvað hitt. Þetta "ef" hefði engu breytt en á vissum stundum kemur það aftur og aftur.
 
Það er búið að gera allmiklar skúrir í kvöld eftir að það varð dimmt og rigningarhljóðið berst inn. Þetta er eins og það á að vera og þrátt fyrir skúrirnar og rigningarhljóðið er góð kyrrð ríkjandi á Sólvöllum. Sólvellir er góður staður og hefur fengið alla umönnun til að vera það.


Kommentarer
Þórlaug

Hvað er hægt að segja eftir að lesa þetta blogg. Ég er viss um að Valdís fylgist með þér en hún gerir líka margt annað þar sem hún er núna og ég er líka viss um að Sólvellir er góður staður.

Kærar kveðjur,
Þórlaug

Svar: Þakka þér fyrir og kveðja til baka Þórlaug
Gudjon

2013-10-08 @ 21:55:28
Björkin.

Sumir dagar eru erfiðari en aðrir mágur minn.Bið alltaf um að henni líði vel þar sem hún er.Krammmmmmmmmmm.

2013-10-09 @ 13:49:05


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0