Í óþekktum heimsálfum

Þegar ég gekk frá aðalinnganginum í Vornesi í morgun og að bílnum var ég ekki alveg heima. Hugur minn var í einhverjum óþekktum heimsálfum. Áður en ég komst hálfa leið fann ég að ég hafði fyrirtækissíma í vasanum og þá þreifaði ég líka eftir lyklunum og þá hafði ég í öðrum vasa. Ég lagði töskuna frá mér og með síma í annarri hendinni og lykla í hinni sneri ég við. Upp einn stiga gekk ég og inn í ákveðið herbergi þar sem ég setti símann í sæti sitt á hleðslutækinu. Svo lagði ég af stað aftur, enn með hugann í annarri heimsálfu. Ég gekk að töskunni, tók hana upp og gekk eina tíu metra til viðbótar þegar ég tók eftir því að ég hafði lyklana ennþá í hinni hendinni. Ég lagði töskuna aftur frá mér og sneri við. Aftur gekk ég eina tröppu upp og hengdi lyklana upp í skáp í öðru herbergi.
 
Á leiðinni að bílnum áttaði ég mig á því að ég hafði lagt töskuna frá mér mitt á veginn þannig að ég bauð upp á að næsti vegfarandi æki yfir hana. Það slapp og nú komst ég heilu og höldnu í bílinn og í bílstjórasætið. Ætli ég sé ekki orðinn of tilfinningasamur fyrir þessa vinnu hugsaði ég. En ef ég vil hafa einhverja vinnu er þetta það eina sem ég kann. Það er mín sterka tilfinning og hefur verið í ein sautján ár.
 
Þegar ég var kominn út á malbikaða veginn sunnan við Vingåker hugsaði ég út í hvað ég þyrfti að kaupa í kaupfélaginu þar. Það voru fáein atriði. Svo þegar ég nálgaðist Vingåker vildi ég bara komast heim. Ég var nógu birgur af öllu fannst mér og ég hélt áfram án þess að versla. Svo þegar ég kom að síðasta hringtorginu á leiðinni heim, þá var ég í þann veginn að halda beint áfram í stað þess að taka fyrsta veg til hægri. Ég gerði eins og stundum áður, ég tók heilan hring og náði svo veginum til hægri.
 
Þegar ég kom heim vantaði ekkert. Ég fékk mér vel að borða. Það var kannski ekkert að bjóða gestum upp á ef þá hefði borði að garði, en það hreinlega vantaði ekkert fyrir mig. Svo hitaði ég mér kaffi. Þá var dyrabjöllunni hringt. Þar var kominn hann Lennart nágranni með barnabvarnið sitt hana Angelika. Angelika getur verið sjö eða átta ára. Hún var í söluátaki fyrir skólann sinn og var að selja barnaefni í tilefni jólanna. Ne-ei hugsaði ég fyrst. En svo; ég finn eitthvað handa Hannesi að skoða. Svo pantaði ég tvær barnabækur og Angelika var mikið glöð. Svo fannst henni svo gaman að heyra hvað ég talaði skrýtna sænsku.
 
Hún horfði á mig og afa sinn til skiptis og svo fór hún að ganga um húsið. Hún horfði mest í loftið sem er öðruvísi í laginu en í flestum húsum. Svo horfði hún mikið upp á sjálft loftið þar sem er hægt að vera og leika sér. Hvernig er farið þarna upp? spurði hún. Í stiga svöruðum við einum rómi, ég og afinn. Og ég bætti við að það væri ekki búið að smíða stigann. Svo gekk hún inn í herbergi í hinum enda hússins og skoðaði það gaumgæfilega. Sólvallahúsið er öðruvísi hús og ábúandinn þar er öðruvísi. Hann talar líka öðruvísi. Honum finnst líka bara gaman að vera svona. Svo fóru þau Angelika og afi og hún hafði alveg örugglega eitthvað til að tala um eftir þessa heimsókn. Það fannst mér gaman.
 
Ég þyrfti að komast til kennara til að ná betri framburði í sænskunni sagði ég einu sinn við Bengt hjúkrunarfræðing sem áður vann í Vornesi. Hann horfði fyrst hljóður á mig eins og hann gerði svo oft. Svo sagði hann; vertu bara eins og þú ert. Þú nærð betur athygli sjúklinganna þannig. Þetta var alveg rétt hjá honum. Ég hef nú ávinning af því að tala öðruvísi. Ég þarf ekki að tala illa þrátt fyrir það. Svo þegar sjúklingunum finnst ég hafa augnaráð sem sjái leyndarmál þeirra óhindrað þrátt fyrir tilraunir þeirra til að dylja þau, þá finnst þeim best að sleppa takinu. Þegar þau að lokum uppgötva að ég er bara góður kall, þá verður allt þetta samspil ósköp einfalt og gott.
 
*          *          *
 
Núna ætla ég að fara í gönguskó og taka eins og tvo hringi um Sólvallaskóginn. Ég þarf ekki að leggjast undir húsvegg núna, ég er frjálsari maður en svo. Ég er búinn að vinna fyrir því frelsi að undanförnu. Svo þarf ég að fara alveg sérstaklega snemma að sofa í kvöld því að ég þarf að vakna vel úthvíldur eldsnemma í fyrramálið. Síðan er það Vornes á ný. Þessi vika verður mest bara Vornes.


Kommentarer
björkin

Sólvallahúsið er bara flott.

Svar: Alveg hárrétt.
Gudjon

2013-10-29 @ 17:00:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0