Barnalegur get ég verið

Ég á það til að vera óttalega barnalegur, stundum óvart og stundum til að hafa gaman af því. Stundum er ég líka klaufalegur í orðum eða háttarlagi en það geri ég ekki viljandi. Hins vegar held ég að mér takist yfirleitt að leggja klaufaskapinn til hliðar þegar það er áríðandi að mér takast vel til.
 
Í gær og í dag, jafnvel lengur, er ég búinn að vera órólegur og stressaður vegna þess að mér var svo mikið í mun að ljúka ákveðnu verki. Ég hafði löngu sett mér það að vera kominn með þetta verk á ákveðið stig áður en Rósa og fjölskylda koma núna um helgina. Svo er það búið að vera á dagskránni að ljúka þessu verki snyrtilega og ganga vel frá í kringum það áður en ég fer upp í Dali um næstu helgi. Þá get ég haldið upp á það að gamall draumur hafi rætst. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta margnefnda verk eða geta neins hvað það snýst um fyrr en í næstu viku, einmitt þegar ég verð búinn að ganga endanlega og snyrtilega frá.
 
Ég sagði að ég hefði verið orðinn stressaður. Það er hverju orði sannara og er ekki svo venjulegt. Ég held að þetta stress hafi verið af tvennum toga. Annars vegar það að ég var farinn að halda að ég næði ekki markmiðinu á fyrirfram tilsettum tíma og svo hitt að ég hreinlega var oðinn dauðþreyttur. Í gærkvöldi fann ég vel fyrir stressinu og ég var hreinlega óöruggur og órólegur. Svo svaf ég vel í nótt en var ekki alveg laus við óróleikann þegar ég fór á stjá í morgun. En með hafragrautinn sem veganesti inn í daginn ásamt rúsínum, apríkósum og hvönn, og til og með einum banana, þá er nú bara að bíta á jaxlinn.
 
Svo gekk mér ágætlega um tíma en þegar leið að hádegi fann ég verulega fyrir stressinu, en ég beið með matinn sem var alrangt en mér fannst sem ég hefði varla tíma og það var líka alrangt. Að lokum áttaði ég mig á því að nú var það maturinn sem gilti. Ég vatt mér inn og setti egg í pott og meðan suðan kom upp tók ég tvö þessi gríðarlega vænu síldarflök upp úr kryddlegi. Þá er ég að tala um ærleg flök, þétt, safarík og gómsæt. Þá tók ég 750 gramma saltkjötspoka út úr frystinum og lagði í bleyti. Það skyldi verða kvöldmaturinn og það sem yrði umfram yrði til hádegismatar á morgun. Síðan borðaði ég egg og síld ásamt bollasúpu og eitthvað hollustubrauð hafði ég með. Nokkru síðar fann ég að mér óx heldur betur ásmegin.
 
Þegar ég tók fram brettaskífuna mína virkaði hún ekki. Það var farinn þráður í leiðslunni þar sem hún kemur inn í vélina. Venjulega er það létt verk að laga svona en nú var það alls ekki á mínu færi. Ég til Fjugesta og lagði vélina inn hjá rafvirkjanum og leigði aðra í rafvélaversluninni. Svo vann ég markvisst og hratt, drakk mikið vatn og allt gekk að óskum. Það gekk meira að segja mun hraðar en ég átti von á og ég þakkaði það síldinni.
 
Og svo þetta með barnaskapinn. Það var korter fyrir sjö sem ég reisti mig upp og horfði með barnslegri gleði á áfangalokin sem ég var búinn að stefna að marga síðustu daga og dreyma um í nokkur ár. Já, ég fann að ég gladdist eins og barn. Svona einföld augnablik gera lífið mikils virði -meira að segja fyrir strák á áttræðis aldri.
 
Þegar ég hafði tekið saman eftir mig í stórum dráttum var komið að því að sjóða saltkjöt. Ég nýtti tímann til fullnustu og fór í sturtu meðan á suðunni stóð. Gleðin yfir unnu verki fylgdi mér í gegnum sturtuna og saltkjötsmáltíðina og ekkert umfram kjöt verður borðað í hádeginu á morgun vegna þess að kjötið er búið. Ég sem hef einungis borðað fisk marga daga undanfarið lagði nú að velli 750 grömm af saltkjöti. Líkami minn segir mér núna að það hafi alveg verið kominn tími fyrir væna kjötmáltíð. Stressið og óróleikinn eru að baki og í fyrramálið ætla ég að byrja þokkalega snemma á tiltekt, afþurrkun og skúringu í tilefni heimsóknarinnar sem ég verð aðnjótandi um helgina. Fram að næstu helgi hef ég góðan tíma til að laga til, snyrta og snurfusa eftir vel unna áfangann í vikunni sem brátt er að líða. Síðan bíða mín Dalirnir og Falun.
 
Mikið hlakka ég til.


Kommentarer
björkin.

Það er ekki svikist um í vinnu á Sólvöllum.Farðu vel með þig mágur minn.Vorum að koma frá Grundarfirði að ná í Valda Var slappur kallinn og endaði á spítala í gærkveldi.Sendu hann svo heim í morgun ,,,ekkert pláss á Ísl.spítulum hahah.Eigið góða helgi fjölsk.mín.Krammmmmmm.

Svar: Tack sömuleiðis og skilaðu kveðju til Valda.
Gudjon

2013-10-04 @ 14:51:29


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0