Bíllinn hans Þórarins á Seljalandi

Í morgun var eins og sagt var í gamla daga -alveg mígandi rigning. Mig vantaði þrjá litla borðabolta til að geta lokið ákveðnu verki útivið svo að mér fannst best að fara til Fjugesta meðan rigndi og sækja þá. Þá gæti ég unnið gott verk þegar upp stytti. Svo héldum við af stað, ég og Fordinn, og komumst klakklaust gegnum regnið. Síðasta verslunin áður en komið er að járnvöruversluninni í Fjugesta er bensínstöð. Þegar ég fór þar framhjá tók ég eftir einhverju kunnuglegu á planinu og hugsaði mig varla um, ég bara fór umsvifalaust inn á bensínstöðvarplanið og kom aftan að svörtum bil sem þar stóð. Jú, það var tilfellið. Aftan á bílnum stóð frekar litlum, gyltum stöfum: Packart.
 
Ég steig út úr Fordinum og gekk með lotningu kringum þennan bíl. Það eru orðin milli 55 og 60 ár síðan ég ferðaðist í svona bíl og það var bílinn hans Þórarins heitins móðurbróður míns á Seljalandi. Ég gekk hvern hringinn eftir annan kringum þennan bíl og mér fannst ég kannast svo mikið við allt mögulegt í sambandi við hann. Þrátt fyrir marga áratugi fannst mér sem ég minntist bílsins hans Þórarins frænda alveg nákvæmlega og á þessum bílum væri engin munur. Undir stýri sat ungur maður sem þóttist vart taka eftir mér. Átt þú bílinn? sagði ég við liðlega miðaldra mann sem var líka mættur þarna. Nei, svaraði hann, hann er að koma þarna út úr versluninni. Ég sneri mér að manninum sem kom út úr versluninni og honum þótti ekki leiðinlegt að bíllinn hans hefði fengið athygli.
 
Fordinn minn varð bara hallærislegur við hliðina á þessum eðalvagni, enda þorði ég ekki að leggja honum við hliðina á Packartinum. Ég stoppaði aðeins aftar. Sjáið grillið. Alveg eins og á bílnum hans Þórarins frænda míns. Eða svo fannst mér í hrifningunni.
 
Viltu ekki líka taka mynd af innréttingunni sagði eigandinn. Jú, ég vildi það. Ungi maðurinn sem setið hafði undir stýri gerði ég að syni eigandans. Honum tókst ekki lengur að láta sem hann tæki ekki eftir neinu og varð ögn stoltur eins og eigandinn. Hann er notalegur að sitja í, sagði eigandinn. Ég man það líka vel hvað mér fannst bíllinn hans Þórarins vera mikil "drossía". Alger lúxusdrossía sem gott var að sitja í. Og þessi drossía var svo dugleg að henni tókst að rúlla æði lengi á grýttum vegunum í Fljósthverfinu. Takið eftir gírstönginni.
 
Ég hafði gert mennina að feðgum og bað þá að stilla sér upp við bílinn. Það var þeim ljúft að gera. Ársmódel 1937 var bíllinn sögðu þeir mér. Hjólabrettin, ljósin, grillið, stuðarinn, framrúðan, allt eins og á bílnum hans Þórarins. Þannig blasti það við mér. Þokuljósin mundi ég þó vilja undanskilja. Það getur vel verið að raunveruleikinn hafi verið nokkuð annar en ég er viss um að þeir eru mjög líkir. Ég er ekki vanur að hrífast svona af bílum en þegar það snerti bílinn hans Þórarins frænda míns á Seljalandi, þá auðvitað gegndi öðru máli. :)
 
*          *          *
 
Svo kom ég í járnvöruverslunina. Eitt sinn þegar ég var að koma þangað og það fyrir all mörgum árum, þá var táningsstelpa útan við verslunina að reyna að snúa eitthvað á hann Per, eiganda verslunarinnar. Hún var honum greinilega svolítið erfið. Ég sá að þetta mundi örugglega vera dóttir hans. Ég gekk að þeim og sagði við táninginn: Þú átt mikið góðan pabba. Hún leit mjög undrandi á mig, stórskrýtinn kallinn, og sagðist vita það. Per hins vegar roðnaði.
 
Í versluninni vinnur í dag meðal annarra ung kona en þó fullorðin. Í dag vissi hún ekki hvernig hún ætti að svara spurningu sem ég beindi til hennar og hún sneri sér við og kallaði: pabbi! Þá skildi ég. Stelpan sem forðum reyndi utan við búðargluggann að plata pabba sinn til að gera eitthvað fyrir sig var orðin fullorðin. Ég sagði henni söguna og síðan fór ég með mína þrjá borðabolta. Hvort henni finnst ég skrýtinn kall enn í dag veit ég ekki en hún er lipur og hjálpleg þegar hún liðsinnir mér í verslunarferðum mínum.
 
*          *          *
 
Ég þarf ekki að spyrja hvort þetta sé gott því að það er gott. En hlýtur þetta ekki að vera mikið hollt? Flökin eru síldarflök og á brettinu er paprika, chilipaprika, rauðlaukur, tómatar og kaldar kartöflur. Ég hef fengið að heyra að upphitaðar kartöflur séu hollari en nýsoðnar. Þess vegna sauð ég kartöflurnar um miðjan dag og hitaði þær svo á pönnu í kvöldmatinn ásamt rauðmetinu.


Kommentarer
Björkin

Duglegur að elda mágur ,og flottur er bíllinn. Krammmm

Svar: Þessi rauði matur hitaður á pönnu er ákaflega góður með hvort heldur fiski eða kjöti, ég mæli með fiski. Langar ekkert í nart á kvöldin þegar ég hef borðað þetta.
Gudjon

2013-10-23 @ 23:16:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0