Dalirnir eru góðir heim að sækja

Að koma upp í Dali var fyrir mig mikið annað og meira en að gista í góðu húsi með góðum félaga og sjá landslag og haustliti. Minningarnar eiga sér sæti þar vítt og breitt þar sem við fórum um. Eitt sinn sem oftar fyrsta árið okkar hér var ég með grúppu í bæ sem heitir Borlänge. Á leiðinni heim til Svärdsjö þar sem við bjuggum þá lá leiðin gegnum Falun. Það var desemberkvöld og kalt var það og fyrstu jólin okkar erlendis voru að bresta á. Ég hlakkaði til að koma heim í hlýja og bjarta íbúðina og vissi að Valdís væri að vinna við jólaundirbúning og kannski væri lykt af bakstri.
 
Þegar ég kom að bensínstöð Stadoil við Korsnäsvägen í Falun var þar allt upplýst af ólituðum jólaljósum, jólatré og öðrum skreytingum margskonar. Þetta leit allt öðru vísi út en ég hafði nokkru sinni séð áður fyrir jól og það greip mig svo sterk tilfinning þess efnis að ég væri staddur í útlöndum og að líf okkar Valdísar væri farið að hafa sinn gang hér mitt á meðal alls hins óþekkta. Ég var svolítið stoltur af því man ég og þar að auki var ég að koma heim frá að vinna í bæ sem var eina 50 kílómetra að heiman. Þarna vorum við búin að vera í Svíþjóð í tíu mánuði en það komu oft upp atvik þar sem það var eins og ég áttaði mig ekki á því að við værum virkilega búsett í þessu landi. Nú í þessari Dalaferð fórum við þarna framhjá í dagsbirtu og þá allt í einu eins og upplifði ég ferð mína um kvöldið í desember 1994.
 
Falun koparnáma hefur alltaf heillað mig og þegar ég var í sænskunámi, þá í Örebro, skrifaði ég ritgerð um námuna. Ég var búinn að heimsækja námuna mjög oft, fara niður í hana einu sinni og lesa mikið um hana. Þegar ég var að skrifa þessa ritgerð og leggja mig fram um að skilja þá menn sem unnu þar fyrir mörg hundruð árum og dóu ungir af þrældómi og slæmu umhverfi, þá fann ég til með þeim. Falun og Falunáman eru á heimsminjaskrá, meðal annars vegna þess að sérstaklega Svíþjóð varð ríkara land vegna námunnar og ekki bara Svíþjóð, náman hafði áhrif á fjárhag Evrópu. Svo er það líka staðreynd að þarna var farið að vinna málma fyrir 1300 árum. Þegar við Valdís fluttum út átti fyrirtækið Stora námuna og þá var Stora 700 ára gamalt fyrirtæki.
 
Við fórum niður í námuna á ferð okkar núna um daginn og mér fannst sem ég kæmist nær mönnunum sem unnu þar, dóu ungir, gerðu Svíþjóð og Evrópu ríkari og urðu til þess að Falun komst á heimsminjaskrá. Fjöldi hinna fallegu koparþaka í Svíþjóð og væntanlega svo víða annars staðar koma úr Falunkoparnámu. En hvílíkt erfitt vinnuumhverfi sem þeir hafa búið við. Leiðsögumaðurinn í þessari námuferð, ung kona, slökkti ljósin þegar við vorum lengst niðri og viti menn; myrkrið var fullkomið og kyrrðin var algjör. Ferðin niður í námuna var mjög áhugaverð og áhrifamikil. Að lokum vil ég geta þess að Valdís fór niður í námuna ásamt skóla sem hún var þá í og það var löngu áður en ég fór þangað niður. Það var margt sem hún gerði á undan mér í Svíþjóð eins og að fara í skóla, niður í Falunámuna, ferðast til Álandseyja og Finnlands. Og svo er ég ekki enn í dag búinn að koma því í verk að fara til nágrannalandsins Finnlands.
 
Fyrir nokkru minntist ég á hann Asbjörn í Svartnesi, norska manninn sem var átján ára 1944 þegar hann vann Þjóðverjunum mein með einhvers konar spellvirki. Ég bar virðingu fyrir honum og hitti hann all oft, en okkar fundir voru reyndar bestir þegar ég kom í Svartnes eftir að ég hætti að vinna þar. Ég vissi að Asbjörn hafði orðið ekkjumaður fyrir allmörgum árum og var í miklum vafa um það hvort hann væri sjálfur á lífi. Ég talaði um það við Kristínu að mig langaði að hitta þennan mann en það væri vafi í mér hvort ég ætti að banka upp á. Hún sagði mér mjög ákveðin að hika ekki við það og það reið nú baggamuninn. Við stoppuðum utan við húsið hjá honum og ég steig út. Þar með fóru tilfinningar mínar á fulla ferð. Ég sá snyrtilega skrifað á lítinn kupp sem var festur við hliðina á útihurðinni þessi tvö nöfn: "Asbjörn och Ingrid". Ég fékk gæsahúð.
 
Svo bankaði ég á hurðina og strax heyrði ég fótatak inni. Andartaki síðar opnaðist hurðin og Asbjörn stóð þar og horfði á mig. Ég fékk algerlega kökk í hálsinn þar sem ég stóð þarna og horfði á þennan 89 ára gamla mann. Hann gat vel verið faðir minn. Hann þekkti mig ekki en tók mér afar vel og sagði mér af högum sínum. Fyrst stóðum við á dyrapallinum. Ég benti honum á hvar við hefðum staðið við girðinguna forðum og talast við. Ég veit ekki hvort hann minntist neins frekar en hann treysti mér fullkomlega og talaði svo afslappaður en líflega við mig. Hann sagði mér að Ingrid væri dáinn fyrir ellefu árum og þá dró aðeins niður í röddinni. Það sagði hann mér líka síðast þegar ég kom til hans og þá var hann sorgmæddur maður. Svo töluðum við um myndir af húsinu hans og af Svartnesvatninu. Þá sagði hann mér að koma inn. Þar sýndi hann mér myndir á veggjum.
 
Svo sagði hann mér frá því að sjónvarpið hefði haft samband við hann fyrir nokkrum árum og beðið um viðtal. Hann féllst á það. Svo komu tveir stórir sendiferðabílar merktir sjónvarpinu sagði hann, og fjöldi manns hóf að bera áhöld út úr bílnum og stilla upp út um allt. Hvað er eiginlega í gangi hafði hann spurt fólkið og honum var svarað því að þarna ætti að fara fram sjónvarpsupptaka. Svo fór upptakan fram og þátturinn var sýndur í sjónvarpi.
 
Asbjörn sagðist langa að eignast þennan þátt og gefa börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann velti upp spurningunni hvort það væri hægt að fá svona þætti. Þarna var ég orðinn svo tilfinninganæmur að ég lofaði honum að athuga það. Ég er hreinlega til í að fara sérstaka ferð upp í Svartnes og færa honum upptökur af þættinum ef mér gengur vel. Það er einkennilegt hversu djúp áhrif þessi rólyndi skýrleiksmaður með sitt hreina hugarfar hefur alla tíð haft á mig. Maðurinn sem kom átján ára í Svartnes til að fela sig vegna hetjudáða sem hann hafði drýgt, hitti unglingsstúlkuna Ingrid og flutti aldrei aftur til Noregs. Þau hittust fyrst árið 1944 og leiðir þeirra skildu 2002.
 
Væntanlega munum við dvelja um stund í Svartnesi á morgun líka.
 
Þessi kirkja stendur við Stóra torgið i miðbænum í Falun og er þess verð að litið sé inn. Falleg er hún og hljótt er þar inni. Hún var tekin í notkun 1655. Predikunarstóllinn er einkar fagur og er gerður á árunum 1655 og 1656. Það leynir sér ekki að menn gátu byggt og smíðað á þessum árum. Hvort það var og er Guði þókknanlegt að leggja svona mikið í Guðshúsin læt ég ósvarað, en ég held að það sé ekki hægt að sýna mönnunum meiri virðingu, þeim sem þræluðu og þeim sem blæddi við að reisa slíkar byggingar, en að staldra við og finna áhrifin sem verk þeirra hafa á fólk enn í dag.
 
Úr brekkunum austan við Siljan. Rättvik leynist bakvið skóginn til hægri.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0