Ferðafélaginn

Kristín Guðmundsdóttir var ein af 1959 útskriftarárganginum í Skógum. Hún kom víða við í lífinu eftir það og rak meðal annars verslun á Laugaveginum í Reykjavík um tíma. Einhvern tíma upp úr 1980 hittumst við á gangstétt í Reykjavík og hún sagði að við Valdís skyldum endilega líta við í versluninni og hún gæti boðið upp á kaffibolla. Svo gerðum við og mér er minnisstætt hvað hún var almennileg gagnvart Valdísi. Mér þótti alla tíð vænt um það þegar mínir vinir og kunningjar hittu hana og hún fékk líka að njóta vingjarnlegheita þeirra.
 
Á Hríseyjarárunum vantaði mig peninga fyrir húsbyggingu. Þá hringdi ég í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að ræða lánamöguleika. Mér var svarað af hjálplegri konu sem gaf mér samband við rétta deild. En áður en af því varð áttaði ég mig allt í einu á kunnuglegri röddinni og spurði hvort þetta væri ekki Kiddý. Jú, það var Kiddý. Þessu var ég alveg búinn að gleyma. Hún minnti mig á þetta þegar hún heimsótti okkur á Sólvöllum í sumar, en þá voru Rósa og fjölskylda líka stödd hér. Þegar hún talaði um þetta rann minningin upp fyrir mér.
 
Þegar við Skógaskólaliðið sem útskrifuðumst 1959 hittumst í skógum 2009, nokkrum mánuðum áður en ég fékk nýja mjaðmarliðinn, þótti mér svo óttalega hallærislegt að vera haltrandi og í gönguferð að Kvernufossi austan við skólann hafði ég ekki alveg við liðinu. Og ég segi það aftur að mér fannst þetta ástand mitt svo óttalega hallærislegt innan um þetta annars hressa fólk. Ég var Kiddý þakklátur fyrir að dragast líka aftur úr á leiðinni til baka og nenna að ganga með mér á mínum hraða. Það var eins og það væri aðeins uppreisn æru.
 
Þegar þessi lágvaxna, unga, fallega kona gekk um gangana í Skógum haldandi báðum höndum um bækurnar sínar og pennaveskið framan á maganum fannst mér alltaf, feiminn og hlédrægur sem ég var, að hún væri bæði þroskaðri og eldri en ég. Samt var hún yngri. Þetta gerði mig ennþá feimnari við hana. Hún var líka þroskaðri en ég og er enn í dag. Sína tryggu hönd hefur hún rétt út til margra þar sem veikindi eða erfiðleikar hafa lagst af þunga á fólk eða þar sem ellin hefur gert öldungum lífið mótsnúið. Og dætrum sínum fylgdi hún vel úr hlaði og kom þeim efnilegum út í lífið. Fyrrum sveitungar mínir og síðar nágrannar hennar hafa líka dáðst að elju hennar og góðum eiginleikum. Samt hefur lífið ekki farið neinum silfurhönskum um hana.
 
Nokkrum sinnum þegar Kiddý hefur dvalið hjá dóttur sinni í Västerås hefur hún komið í heimsókn til okkar. Þegar við gengum út að bílnum hennar í lok einnar heimsóknarinnar sagði hún; mér fellur vel við konuna þína. Í öll skiptin talaði hún um að við Valdís ættum að koma við hjá henni líka þegar við værum í Stokkhólmsferðum. Svo gerðum við þó aldrei þegar við fórum í heimsókn til Rósu og fjölskyldu þó að við færum alltaf í gegnum Västerås að minnsta kosti í annarri leiðinni.
 
Aldrei heimsóttum við sem sagt Kiddý en hún gafst ekki upp á okkur fyrir það. Hún er eins og ég sagði trygglynd kona með afbrigðum. Eftir öll mín góðu kynni af henni spurði ég hana hvort hún vildi ekki koma með mér upp í Dali þegar ég kæmi því í verk að fara þá ferð. Og á morgun, sunnudag, leggjum við af stað í þriggja eða fjögurra daga ferð þangað. Við höfum leigt minna sumarhús á mjög fallegum stað við hið fallega stöðuvatn Runn sem liggur inn að hjarta Falun.
 
Ég hef valið mér góðan ferðafélaga
 
Það eru engir sumarhitar lengur en það eru haustlitir og ef ég þekki Dalina rétt munum við ekki verða svikin af náttúrufegurðinni þar uppi og spáin er góð miðað við árstímann. Ég tel mig vel að því kominn að hvílast eftir strit mitt undanfarið og ég veit að Kiddý hefur að vnda ekki slegið slöku við heldur í þeim verkefnum sem hafa fallið henni í skaut.
 
Þessi mynd var tekin af Kiddý eftir gönguferð um Sólvallaskóginn í júlí í sumar.


Kommentarer
hulda

Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um hana Kristínu, hún er svo falleg og góð yst sem innst. Bið kærlega að heilsa henni. Hulda

Svar: Góð ummæli það.
Gudjon

2013-10-12 @ 13:01:05


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0