Víst er sumarið betra

Það birtir yfir myndunum eftir því sem neðar dregur og sú neðsta er sýnu best.
 
Ég gekk út í Sólvallaskóg í gær til að finna það jákvæðasta í náttúrunni miðað við árstímann. Miðað við þessa mynd er það ekki svo mikið að heillast af. Að vísu sá augað þetta allt öðruvísi en myndavélin. Það var eins og myndavélin sæi best kræklóttu eikargreinarnar sem blasa svo mikið við. Augað sá hins vegar mikið betur háu grenitrén sem eru lengra burtu. Og þessi grenitré eru há. Það var bara ekki nokkur leið að ná mynd af þeim nema hafa þessar nöktu greinar með. Ferðin út í skóg í gær var góð og ég gladdist yfir skóginum. Nú er komið kvöld og mér finnst búið að vera dimmt svo ótrúlega lengi dags. Þegar ég horfi á myndina sé ég alls ekki það sem ég heillaðist af í gær.
 
Þessi regnbogi var upplyfting á gærdeginum. Hann var heill alveg yfir himinhvolfið og mér fannst sem hinn endi hans kæmi niður við flugvöllinn. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir að ef ég væri á flugvellinum mundi hvorugur endi regnbogans vera nálægur þar. En hvað um það; regnboginn þessi var upplyfting meðan ég lét eftir mér að virða hann fyrir mér.
 
Hér hins vegar blasir eitthvað allt annað við. Þetta er hægt að kalla síðsumarmynd eða kannski haustmynd. Það er alla vega bjart og það sjást skuggar sem staðfesta síðdegissól. Þarna er Hannes Guðjón að hlaupa við vatnsturninn Sveppinn í norðanverðri Örebro sem aðeins sést í til vinstri á myndinni. Þá vorum við að koma þaðan eftir að hafa verið þar uppi í síðdegiskaffi og þau voru að leggja af strað til Stokkhólms eftir tveggja sólarhringa dvöl á Sólvöllum. Þessi mynd táknar allt aðra árstíð og allt aðra stemmingu en hinar myndirnar sem eru af náttúrunni eins og hún er í dag. Og það er svo bjart yfir litla manninum sem hleypur þarna að það lýsir upp kvöldið.


Kommentarer
Þórlaug

Þegar ég leit á fyrstu myndina sá ég fyrst háu grenitrén og svo beru greinarnar sem einhvers konar listaverk fyrir framan þau. Þær eiga eftir að verða ótrúlega fallegar í vetur þaktar af hrími. Allar árstíðirnar hafa sinn sjarma þó vorið og sumarið séu alltaf í uppáhaldi.

Bestu kveðjur í Sólvelli,
Þórlaug.

Svar: Sammála.
Gudjon

2013-10-30 @ 22:52:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0