Súkkulaðiskúffan

Ég fylgdist með sjónvarpsfréttum frá hálf átta til átta og svo klikkaði ég milli SVT 1, 2 og 4 nokkrum sinnum en slökkti svo bara á sjónvarpinu. Svo las ég pínulítið, borðaði síðan tvö lítil, sænsk epli og svo kveikti ég á sjónvarpinu aftur. Þá lenti ég á auglýsingu á einum átta efnum sem öll áttu að gera mig ungan, það er að segja að húðin átti að verða yngri, hrukkur að hverfa, ég átti að verða glaðari og svo man ég ekki meira.
 
Ég áttaði mig þar með á því að það væri enginn vandi fyrir mig að verða þrjátíu og fjögurra ára aftur, bara ef ég eignaðist öll þessi efni. Í lok auglýsingarinnar kom svo fram að þessi efni voru fyrir konur og þá slökkti ég aftur á sjónvarpinu. Og nú sit ég hérna eftir að hafa væflast svolítið fram og tilbaka í allt að klukkutíma og yngingarefni kvöldsins voru bara fyrir konur. Fyrir aftan mig bíður rúmið með ullarfeldinum mínum og lokkar mig til sín. Í nótt verður klukkunni seinkað um klukkutíma þannig að það verður einn auka hvíldartími fyrir þá sem þurfa.
 
Það var fólk á Sólvöllum í dag. Það komu tveir læknar í heimsókn og einn læknaritari þannig að ég fann mig mjög öruggan. Þetta fólk var búið að boða komu sína og með þeim ummælum að ég mætti alls ekki vera með neinn undirbúning. Ég var því úti við og baukaði við mitt þar til á síðustu stundu að ég setti á könnuna, kveikti upp í kamínunni og ryksugaði mest áberandi staðina. Mér var sagt að ég mætti eiga von á tertu, þá frekar tveimur en einni. Þau vissu að ég sæti ekki auðum höndum og vildu mér vel.
 
En viti menn. Þegar ég heyrði um tertu fann ég ljúft bragðið af mjúkri súkkulaðitertu sem bráðnaði upp í mér og súkkulaðihungrið gagntók mig. Ég var úti að bauka eins og ég sagði en svo stóðst ég ekki mátið, fór inn og með hendina niður í súkkulaðiskúffuna -en umbúðirnar voru tómar. Ég átti því bara um eitt að velja, að bíða kræsinganna. Svo var það eins og mig grunaði, gestirnir mínir komu með stóra, stóra, mjúka og ilmandi súkkulaðitertu sem saddi svo um munaði súkkulaðihungur mitt.
 
En hvers vegna ætli það hafi verið tómar súkkulaðiumbúðir í súkkulaðiskúffunni. Alveg merkilegt! Jú, það var þannig að ég hafði ekki keypt nein sætindi af neinu tag í vikur. Svo fáeinum dögum áður en við fórum upp í Dali keypti ég þrjár blokkir af súkkulaði til að hafa með. Það var auðvelt að snerta það ekki áður en við lögðum af stað þar sem það var keypt í þessum ákveðna tilgangi. Svo gleymdi ég súkkulaðinu heima. Ég held hreinlega að það hafi verið það eina sem ég gleymdi en mér fannst það hundleiðinlegt.
 
En þegar ég kom heim! Hugur minn leitaði stöðugt niður í súkkulaðiskúffuna og þegar hugurinn var kominn þangað fylgdi hendin fljótlega á eftir. Ég vil bara ekki segja frá því hvað súkkulaðið kláraðist fljótt. En það kláraðist. Ég vissi það en þegar það hafði verið minnst á tertu við mig í dag fannst mér sem ég gæti nú athugað hvort það væri ekki smá horn eftir. Nei, svo var ekki. Hins vegar eru tvö væn stykki af tertum í ísskápnum núna. Þau freista mín ekki sem stendur og ég er að hugsa um að frysta þau bæði.
 
Þannig er nú það. Nú er súkkulaði og sætindaáti mínu lokið í bili. Að vísu er sagt að dökkt súkkulaði sé bara hollt eða alla vega ekki skaðlegt. Brátt kemst sætinda og súkkulaðihungrið í jafnvægi aftur. Það er merkilegt hvað einn biti af einhverju af þessu getur sett hungrið af stað, til og með að gruna að súkkulaðiterta sé á leiðinni á Sólvelli. Eða þá ef það finnst eitthvað í súkkulaðiskúffunni. Ef ekkert er til af því heima er allt í lagi en ef ég kaupi það til að breyta aðeins til losnar um hömlurnar.
 
Ég hef stundum heyrt útundan mér að ég sé ekki alveg einn um þetta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0