Snemmvetrarrugl í Guðjóni á Sólvöllum

Þegar ég var að gera matinn áðan hugsaði ég mér til gamans að enginn mundi vilja vera í fæði hjá mér. Samt finnst mér maturinn sem ég geri bara góður, góður fyrir mig, en að bjóða einhverjum öðrum upp á það! Nei. Síld steikt í rúgmjöli -hafið þið heyrt um það? Ég talaði við hana Rósamundu Káradóttur í Hrísey í gær eða fyrradag. Hún sagði að það væri hægt að finna allt um matargerð á netinu þannig að matargerð væri ekkert vandamál fyrir neinn lengur. Ég var svo sammála. En það er samt smá vandamál fyrir mig af gefnu tilefni. Ég vil nefnilega kunna að laga matinn áður en ég les um matargerðina. Hins vegar googlaði ég fyrir kvöldmatinn og var þá að athuga hvað það væri skynsamlegt að nota mikinn hvítlauk. Það er eins og með allt annað að það er best að hafa það í nokkru hófi. En alla vega, ég googlaði.
 
Heyriði, veit nokkur um fjarstýringuna að sjónvarpinu mínu? Ég óskaði þess svo sannarlega áðan að ég gæti hringt í einhvern og spurt. Ég meira að segja leit inn í uppþvottavélina en hætti eiginlega við það á miðri leið. En ég leitaði á baðinu. Ég leitaði bara um allt. Mikið langaði mig að geta hringt í fjarstýringuna eins og ég geri þegar ég finn ekki annan hvorn símann minn. Svo ákvað ég að sækja sprittkerti inn í neðri skáp, alveg óviðkomandi fjarstýringunni. Ætli þetta verði ekki til að ég finni fjarstýringuna hugsaði ég samt. Svo tók ég kertið út úr skápnum og rétti úr mér. Þarna lá fjarstýringin við stólfót og ég var viss um að ég væri búinn að líta á staðinn hvað eftir annað.
 
Síðustu vikurnar er ég búinn að kaupa tvö granatepli en þau hafa þornað upp hjá mér. Samt keypti ég enn eitt granatepli í gær og íslenskt skyr, þetta sem er selt hérna á gríðarlegu verði. Svo þegar ég var púinn að borða fisk og mikið af rauðmeti tók ég granateplið, skar það í tvennt og setti annan helgminginn í plastfolie og svo inn í ísskáp. Svo tók ég tekseið og stakk henni langt inn í eplið. Þá fékk ég gusu af rauðum legi á gleraugun mín. Já, einmitt. Ég var búinn að gleyma því að það er best að halda á granatepli neðst í eldhúsvaskinum og hreinsa það þar. Svo fékk ég að þurrka rauðar slettur sem voru út um allan eldhúsbekk og auðvitað á glerugunum mínum líka. Síðan plokkaði ég steinana úr neðst í eldhúsvaskinum eins og í gamla daga þegar við Valdís vorum oft með granatepli. Granatepli og skyr. Hlýtur það ekki að vera með því hollara sem völ er á?
 
Þetta er nú meira endemis bullið í mér. Mér er varla sjálfrátt ef ég birti þessi ósköp. En það blés óvenju mikið af suðvestri í gær. Það var orðið mikil lauf á allri lóðinni og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og byrja í næstu viku að raka saman laufið og flytja að beykitrjánum mínum. Strá eins og hálfu kílói af hænsnaskít kringum hvert tré og dreifa svo laufinu yfir hænsnaskítinn. Þetta hef ég gert í sjö haust og reynst mér vel. Hænsnaskíturinn er þá orðinn meyr og ljúfmeltur að vori, enda hafa beykitrén vaxið framar öllum vonum. En ég þarf ekki að verða bvakveikur við raksturinn þetta haustið því að laufið er nokkurn veginn allt horfið. Talsvert af því er á lóð nágrannanna norðan við en annað er komið langt inn í skóg. En hænsnaskítinn mun ég bera á hvað sem öðru líður.
 
Nú ætla ég að hætta þessu bulli. Kannski er ekki gott fyrir mig að vera svona mikið einn. Ég get sjálfsagt orðið skrýtinn á því ef ég er þá ekki þegar orðinn það. En kannski það rætist úr mér á mánudag. Þá fer ég í vinnu og vinn nóttina milli mánudags og þriðjudags. Svo vinn ég eina tvo daga í dagvinnu líka í vikunni. Það verður nú best þannig. Eins og áttræði læknirinn sagði við mig fyrr í haust; hófleg vinna hvetur til góðrar heilsu og hindrar synd.
 
Þar með ætla ég að hætta þessu og ég mun birta þetta eintal við sjálfan mig. Hafið ekki áhyggjur af mér því að ég er í býsna góðum málum þrátt fyrir allt.


Kommentarer
Björkin

Sé þig alveg fyrir mér við leitina að fjarst.Eigðu góðan dag mágur minn.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-10-26 @ 14:40:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0