Minningartónleikar

Ég kom til Örebro úr ferðinni til Falun upp úr klukkan sex og það var orðið dimmt. Ég lagði bílnum utan við Kapellu Meistara Ólafs nyrst í Örebro og gekk móti innganginum að kapellunni, sömu leið og ég gekk þegar ég sótti ösku Valdísar þann 31. maí í vor. Síðustu 30 metrana eða svo að innganginum gekk ég milli tveggja þéttra raða af kertum sem búið var að kveikja á. Þegar ég kom inn í andyrrið var enginn þar fyrir en inni í kapellunni sjáfri var fólk að æfa söng. Ég var fyrstur til að mæta á minningartónleika sem útfararstofan sem annaðist útför Valdísar hér í Örebro hafði boðið mér bréflega að vera viðstaddur í kvöld. Innan tíðar var komið þarna fullt af fólki.
 
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það, en kannski einhvern veginn á þá leið að ég hafði engar stærri væntingar til þessara tónleika en enga fordóma heldur. Eða kannski vildi ég bara ekki hugsa um þá fyrr en ég væri kominn þangað. Ég alla vega talaði mjög lítið um þá. Klukkan sjö hófust tónleikarnir með því að maður og kona sem störfuðu á útfararstofunni léku ótrúlega fallega á píanó og klarinett þrjú alveg frábær, þekkt lög. Síðan kom það í ljós að fólkið sem við höfðum séð að störfum á útfararstofunni í þau skipti sem við komum þangað síðastliðið vor, það söng og lék á alls konar hljóðfæri. Þetta fólk hafði þá búið yfir hæfileikum sem það bar alls ekki utan á sér.
 
Þarna voru líka til aðstoðar maður og kona frá Örebro sem eru þekkt í tónlistarlífinu. Það voru sextán lög á dagskránni, ýmist leikin eða leikin og sungin. Níu af þessum lögum voru lög sem Valdís hafði mjög miklar mætur á og þetta gerði mig svo sannarlega undarandi og ekki slapp ég óhrærður frá því. Ekki á ég von á því að konan hans Evert Taube, ljóða og lagasnillingsins mikla, hafi unað alveg glöð við sitt þegar hann drakk gullin vín og skemmti sér meðal fagurra kvenna. En einhvers staðar innra með honum hefur alvaran þrátt fyrir allt borið sigur úr bítum. Þarna var sungið ljóð eftir eftir Taube við lag eftir hann sjálfan, ljóð sem lauk með þessum línum:
 
Stríði þínu er lokið.
Máninn lýsir.
Vornæturvindur svalar þér.
Sofðu á armi mínum.
 
 
Nú er haust og það eru engir vorvindar, máninn lýsir ekki á Sólvöllum. Laufverkið frá í vor hefur gulnað og fellur ört til jarðar. Í dag er nákvæmlega hálft ár síðan ákveðnu stríði lauk. Það var vor þá, þann 16. apríl. Á hálfs árs deginum voru þessir minningartónleikar haldnir sem voru til minningar um alla þá sem hafa kvatt síðan eitt ár til baka. Ég hafði engar stærri væntingar en enga fordóma heldur sagði ég í upphafi. Nú í kvöld hef ég verið mikið þakklátur fyrir þessa tónleika þó að þeir hafi komið af stað miklu, miklu róti. Þeir komu af stað hugsanaferli sem nú hefur að mestu hjaðnað því það er komin nótt. Nokkrir klukkutímar hafa liðið og hugsanaferlið var mikilvægt fyrir mig sem fullorðinn mann að ganga í gegnum.
 
Það var mikið af kertum á tónleikunum í kvöld og meðan á þeim stóð var kveikt á þremur kertum til viðbótar. Síðasta kertið sem kveikt var á var fyrir framtíðinni. Á morgun er framtíðin, nýr dagur með nýjar væntingar, nýja atburði og nýjar athafnir. Í kvöld, þann 16. október, var staldrað við á minningartónleikunum en svo heldur lífið áfram.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0