Leyndarmálið margnefnda

Þegar við keyptum Sólvelli var húsið jú bara sumarbústaður og stóð á steinstöplum sem sem við köllum plinta hér í landi. Mér finnst það bara alveg ágætt orð. Svo stækkuðum við sumarbústaðinn og höfðum viðbygginguna líka á plintum, það samsvaraði sér best þannig. Mörgum finnst þetta mjög góður byggingarmáti fyrir sumarhús þar sem þau halda sér þá vel þurr. En svo kom að því að við breyttum sumarhúsinu í heils árs íðbúðarhús og byggðum aftur við það. Þá var ekkert tal um hlutina, viðbyggingin var byggð á grunni hlöðnum úr múrsteinum sem hér er góð og gild aðferð líka. Nú fór svo að mér leiddist alveg hræðilega að hluti hússins skyldi standa á plintum og ég hreint út sagt hálf skammaðist mín fyrir það og var mjög ákveðinn í að lagfæra það. Það eru til margar góðar myndir af húsinu frá þessu sjónarhorni en ég hef alltaf forðast að nota þær þar sem ég vildi ekki hampa plintagrunninum of mikið.
 
Ég var ákveðinn í að laga það sagði ég. Menn vissu að þetta hefði verið framkvæmt en engan fann ég sem hafði gert það eða hafði nokkra reynslu af því. Það varð því minn höfuðverkur að finna út úr því. Mín heilabrot stóðu þrjú ár og þá taldi ég mig tilbúinn til að takast á við lagfæringuna. Ég talaði við byggingarfulltrúann og spurði hann hvort hús á plintum væri jafn traust hús og hús á öðrum grunni. Hann fullyrti að svo væri. Það var því sjálfgefið að ráðast í framkvæmdina en ég skal viðurkenna að ég hlakkaði ekki til vegna þess að ég vissi að þetta yrði óttaleg skítavinna.
 
Já, þetta er ekki björgulegt undir íbúðarhúsinu Sólvöllum. Hann Jónas nágranni minn sagði fyrir ekki svo löngu síðan að það hefði kannski verið best í upphafi að rífa gamla húsið niður og byrja frá grunni. Auðvitað hafði ég hugleitt það. En þó að það sé í raun lítið eftir af því elsta í Sólvallahúsinu, þá er það nú svo einkennilegt að þetta íbúðarhús ásamt Bjargi er líklega einni sænskri miljón ódýrara en það hefði orðið ef byrjað hefði verið frá grunni. Ég veit hvað ný hús kosta og ég veit nokkuð hvað Sólvallahúsin kosta í dag. Sólvellir og Bjarg eru mjög vel byggð hús, látlaus og einföld, en vel byggð. Snobbið sem hefði fylgt því að byrja frá grunni hefði samkvæmt mínum skilningi kostað eina sænska miljón. Vinnan mín er að vísu líka stór þáttur í þessum mun. Ég hefði aldrei farið út í slíkan kostnað. Sólvellir er hús með persónuleika og góðan anda þrátt fyrir látleysið. En íbúðarhús á plintum! Oj hvað mér leiddist það.
 
Ég var ekki tilbúinn fyrr en við sólsetur í kvöld að taka þessa mynd. Skítavinnunni var þá lokið. Alla vega þarf ég ekki lengur að liggja í skurðinum sem ég gróf meðfram húsinu til að geta gert þetta. Mikið var notalegt fyrir mig að virða fyrir mér húsið um hálf sjö leytið í kvöld þegar ég var kominn svona langt og hægt var að taka myndina.
 
Leyndarmálið var ekki merkilegra en þetta en fyrir mig var þetta mjög merkilegur áfangi. Ég held að ég fari rétt með það að nú er lokið vondum verkum á Sólvöllum. Eftir eru mörg verk en þau er flest hægt að vinna með fæturna nokkurn veginn niður og höfuðið upp. Það er mun notalegra þannig. Ég þarf við tækifæri að mála lokaumferð á fimm gluggum, að ljúka við baðherbergið á Bjargi, að raða viði inn í geymslu, að grisja í skóginum og allt mögulegt í þessum dúr. Þetta má allt bíða í eina viku, tvær eða þrjár og það er hægt að taka hlé í miðju verki og lesa, eða blogga um miðjan dag, eða að skreppa inn í Örebro án þess að hafa ögn á tilfinningunni að ég megi ekki vera að því.
 
Á morgun þegar ég verð búinn að borða morgunverð og setja rúgbrauð í bakarofninn ætla ég út og snyrta kringum húsið. Það verður bara skemmtiverk og ég er búinn að finna góða staði fyrir þessa afganga sem eru þarna. Verkfærin fara svo á sinn stað og eftir þetta geng ég svolítið fram og til baka til að virða fyrir mér og njóta þess sem ég hef gert. Svo fer ég inn og fæ mér kaffi og í skúffu er til súkkulaði til að hafa með kaffinu. Ef það verður sól og gott veður fer ég kannski út með kaffið og súkkulaðiblokkina. Og ef ég sit þá framan við húsið munu þeir sem ganga hjá segja; fint det har blivit. Svo sagði hann Ívar nágranni í dag. Moldina undir gaflinum sái ég ekki í fyrr en að vori. Á sunnudaginn fer ég svo upp til Falun til að halda upp á áfangann og hvíla mig.
 


Kommentarer
Svanhvit

Fínt hjá þér Guðjón, kíkjum bráðlega við í kaffi.

Svar: Alveg endilega Svanhvít, þið eruð svo velkomin.
Gudjon

2013-10-11 @ 21:55:49
björkin

Mikið rosalega er þetta orðið flott hjá þér mágur minn.Til hamingju með þennan áfanga.Kram og góða nótt.

Svar: Þakka þér fyrir mágkona en nú er kominn dagur þannig að ég segi bara góðan daginn.
Gudjon

2013-10-12 @ 01:24:51
Báara Halldóradóttir

Sæll Guðjón, Já það má með sanni segja "fint det har blivit". Þvílíkur munur, til hamingju. Svo sannanlega geturðu nú farið í smá afslöppun og frí. Njóttu og góða ferð.
kveðjur bestar
Bára

Svar: Þakka þér fyrir Bára og kveðja til baka.
Gudjon

2013-10-13 @ 02:13:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0