Hljóðláta sinfónían

Uppistaðan í því besta sem ég hef alltaf fyrir augum mínum út um austurgluggann þegar ég stit við tölvuna eru tveir hlynir. Einhvern tíma síðsumars lýsti ég því að sitji ég úti á litlu veröndinni utan við herbergið mitt í hægum vestan andvara, láti augun nema staðar á einhverjum punkti mitt í grænu laufhafi þessara hlyna, horfi ekki á neitt en slappi af og láti hugann reika, þá verði iðandi laufhaf þeirra eins og tónverk þar sem heil sinfóníuhljómsveit leikur af mildi á fína strengi, blásturshljóðfærin óma mjúklega við varir snillinganna og burstarnir líða fimlega yfir trommuskinnið.
 
Með orðum síðsumarsins lýsti ég þessu þá, orðum sem ég man ekki lengur, en með orðum haustsins lýsi ég því núna. Léttleikinn í leik sinfóníuhljómsveitarinnar er ekki sá sami, tónar hennar eru meira í skyldleika við kvöldið, hún leikur í öðrum dúr og treginn hefur lagt milda nærveru sína yfir sviðið. Það eru aðeins trommurnar sem hafa styrkt nærverun sína, með þyngri slögum sem burstarnir ráða ekki við og það er eitthvað kraftmeira sem hefur leyst þá af.
 
Haustlaufin falla þýðlega til jarðar og vekja í mér trega, vindurinn er skarpari og bærir ekki lengur laufið eitt, hann setur allt tréð á hreyfingu, hugur minn reynir að sameinast nýrri árstíð og ég sakna sumarsins. Hlynirnir eru eins og þeir hafi allt í einu orðið eldri, en við hlið þeirra eru aðrir hlynir, minni, en að vori ætla þeir að sameinast laufverki þeirra stóru og skapa nýja fyllingu í tónaflóð sinfóníuhljómsveitarinnar.
 
Þannig byrjar dagurinn í dag hjá mér hér á Sólvöllum. Svo ætla ég að vera þátttakandi í lífinu í dag og njóta þeirra tóna sem árstíðin býður mér upp á.
 
 
Hlynirnir mínir mitt í hafinu.


Kommentarer
björkin

Fallegir haustlitirnir á Sólvöllum.ALLT HEFUR SINN SJARMA.sTÓRT KRAMMMMMMMMMM

2013-10-07 @ 14:03:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0