Susanna í Falun

Susanna var eitt sinn á Íslandi og lærði býsna góða íslensku. Þegar ég kom allra fyrst í Svartnes, þá hitti ég þessa færeysk ættuðu konu í fyrsta sinni. Ég man enn í dag það sem skeði 1994. Ég gekk móti svæðinu á meðferðarheimilinu í Svartnesi þar sem sjúkravaktin hafði aðsetur sitt. Þar sat Susanna við skrifborð og var að færa eitthvað inn í bók. Ég horfði á hana nokkur augnablik og hugsaði; falleg kona hún Susanna.
 
Á þriðjudaginn í fyrri viku sat ég við matarborðið heima hjá henni í Falun, það er að segja nítján árum seinna, og hugsaði; Súsanna hefur ekkert breytst. Og þannig fannst mér það svo sannarlega vera. Ég sagði henni það og hvaða hugsun hefði slegið mig upp í Svartnesi árið 1994. Hún tók því vel og launaði fyrir sig með því að segja að ég héldi mér líka vel. Þar með vorum við búin að slá hvort öðru gullhamra í góðu og það fór vel á því.
 
Hún býr í sama húsi við Vallavegen í Falun og við Valdís bjuggum í frá haustinu 1995 og þar til í janúarlok 1997. Ekki nóg með það, heldur bjuggum við á sömu hæð og það er aðeins einn veggur á milli íbúðanna. Þaðan höfðum við Valdís svo ótrúlega fallegt útsýni yfir vatnið Runn með öllum sínum skógi vöxnu nesjum og eyjum. Okkur var vel ljóst að annað eins útsýni yrði vandfundið þegar við flyttum þaðan og þó að ég leitaði með logandi ljósi vítt og breitt um Södermanland og einnig vítt og breitt í og kringum Örebro -þá fannst enginn staður sem hafði nokkuð í líkingu við útsýnið frá Vallaveginum í Falun, þriðju hæð. Ég minnist þess enn í dag að ég yfirgaf þetta með sorg. Valdís átti léttara með það þar sem hún vissi að sunnar í Svíþjóð væri meira af laufskógum og þeir heilluðu hana.
 
Þennan dag sem við Kristín skólasystir mín komum til Susanna vorum við búin að vera í Svartnesi og síðan niður í gömlu koparnámunni í Falun. Hvort tveggja hef ég bloggað um áður og hvort tveggja varð þáttur í spjalli okkar meðan á þessari heimsókn stóð. Susanna og Kristín höfðu jú aldrei hittst áður en það var mikið gaman að sjá hvað það fór vel á með þessum tveimur konum nánast á sama augnabliki og þær heilsuðust. Við fengum þessa líka þykku, mjúku, ilmandi, volgu og bragðgóðu eplaköku hjá henni Susanna og vanilusósu út á. Ég er ekkert vanur að tala um það sem fólk ber á borð fyrir mig en þessi eplakaka var í alla staði svo góð og borin fram af slíkum vingjarnlegheitum að það var ekki hægt annað en geta þess.
 
Já, færeyska konan Susanna vann sem sagt í Svartnesi nánast þar til yfir lauk þar. Þegar hún hætti var vitað hvernig færi með Svartnes og mín kona skellti sér í hjúkrunarnám og er nú hjúkrunarfræðingur. Þegar hún var búin að lesa í um það bil hálft ár man ég að ég sagði við hana að hún væri líklega farin að vera svolítið fróðari í greininni. Hógvær svaraði hún því að hún væri búin að læra það mikið að hún vissi meira um það hvað hún vissi lítið. Það eru nú mörg ár síðan en ég tel mig muna það að mér fannst sem ég hefði spurt mjög aulalega.
 
Tíminn leið hratt heima hjá Susanna og það var svo margt að tala um. En hún þurfti í vinnu og við Kristín komum full seint miðað við það sem talað hafði verið um. Náman tók meira af tíma okkar en við reiknuðum með. En ég er svo ánægður með að það varð af þessari heimsókn og þakklátur er ég fyrir móttökurnar Susanna mín. Þegar þær kvöddust, Kristín og Susanna, sá ég að þær hreinlega höfðu tengst vináttuböndum á þessari stuttu stund. Ég er búinn að tala um þetta við þær báðar og þær segja einfaldlega að þeim hafi fallið svo vel hvorri við aðra samstundis og þær hittust og þær útskýrðu það báðar á fallegan hátt. Mikið er gaman að þessu. Vinátta er falleg.
 
Ég ætlaði svo sannarlega að birta mynd af henni Susanna með þessu bloggi en það eru smá tæknivandamál sem valda því að það er ekki hægt. Mér finnst því trúlegt að síðar á árinu komi eitt blogg enn og þá endanlega bloggið um ferðina í Dalina. Það er talsvert mikið bloggað eftir um það bil 260 km ferð norður í land, en það er á að giska vegalengdin frá Sólvöllum og í Svartnes. Hvað ættu þeir þá að blogga mikið sem fara í heimsreisurnar eins og ég sagði um daginn. En sannleikurinn er bara að þessi ferð, ekki lengri en hún var, var mér mjög mikils virði. Það er kannski ekki stærðin sem skiptir máli, heldur verðmætin í stærðinni.


Kommentarer
Björkin

Gleymi ekki ferð okkar til Falun og heimsókninni til Jensu og Susönnu.Frábærar mæðgur.Góða nótt mágur minn.

2013-10-25 @ 00:37:32
Björkin

Gleymi ekki ferð okkar til Falun,og heimsóttum Jensu og Súsönnu.Frábærar mæðgur.Góða nótt mágur minn.

Svar: Og nú er bara fyrir mig að segja góðan dag mágkona.
Gudjon

2013-10-25 @ 00:57:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0