Kannski verð ég afi ljósmóður

Mig langar að verða ljósmóðir sagði Guðdís barnabarn við mig um daginn þegar við töluðum saman á skæp. Í fyrra eða svo kom þetta líka fram á feisbókinni og ég sagði í umsögn eitthvað á þá leið að hún yrði örugglega góð ljósmóðir. En þá var það einhver í skólanum hafði komist inn á fb-síðuna hennar og skrifað þetta um ljósmóðurina. Svo þegar ég fór að hæla barnabarninu mínu hafði orðið voða gaman hjá hrekkjalómunum í skólanum og málið varð viðkvæmt fyrir Guðdísi. Ég fjarlægði umsögnina samstundis og ég frétti af þessu. Eftir þetta hélt ég að þetta með ljósmóðurina væri bara gamanmál. En svo horfði ég á þessa ungu konu fyrir framan mig á tölvuskjánum þegar við skæpuðum um daginn og hún bara segir þetta við mig í fullri alvöru. Gaman.
 
Guðdís dótturdóttir mín er ekki lengur barn, krakki eða táningur, hún er orðin ung kona. Ég sá hana í fyrsta skipti þegar við Valdís bjuggum á Vallaveginum í Falun. Ég var að vinna í Vornesi þegar þær komu mæðgurnar, Valgerður og Guðdís. Á leiðinni heim eftir vinnuvikuna lék ég mér með þá hugsun að hún mundi líklega verða fljót að hænast að honum afa sínum. Svo þegar ég kom heim hringdi ég fyrst dyrabjöllunni og opnaði svo. Hún kom fram að dyrunum til að forvitnast um hvað væri að ske, en þegar hún sá mig hljóp hún á mikilli ferð til mömmu sinnar, teygði upp hendurnar og bað hana um vernd. Ég þurfti að vinna fyrir vináttu hennar. Þá var hún um eins og hálfs árs þessi unga kona sem nú er hún skiptinemi í Danmörku.
 
Og eins og ég sagði þá skæpuðum við um daginn. Þá sagði hún mér frá því að hún hefði verið í heimsókn nýlega hjá honum Kristni bróður sínum á Bergensvæðinu. Þangað kom þá í heimsókn vinkona fjölskyldunnar og var hún ófrísk. Þá barst þetta í tal að Guðdísi langaði að verða ljósmóðir og að hún heillaðist af meðgöngu. Hún heillaðist einnig af því að kvenlíkaminn gæti borði annað líf inni í sér og borið það í heiminn. Daginn eftir fæddist þessi litla stúlka sem vinkonan gekk með þegar þessar heimspekilegu umræður áttu sér stað kvöldið áður. Verðandi ljósmóðirin fór þá auðvitað í heimsókn til mömmu og barns og fékk þá þessa mynd tekna.
 
Hún Guðdís dótturdóttir mín sagði mér frá þessu gegnum skæp. Hún var yfirveguð og þroskuð þar sem ég horfði á hana á tölvuskjánum og hún er eins og ég sagði skiptinemi í Danmörku. Kristinn bróðir hennar býr á Osterö norðan við Bergen, Rósa móðursystir býr í Stokkhólmi og afi býr í skógunum utan við Örebro. Það er nú meiri tætingurinn á þessu fólki. Hvar ætli Erla systir setji sig svo niður þegar hún leggur land undir fót.


Kommentarer
björkin.

Dugleg og falleg er hún Guðdís,Afastelpan þín.

2013-10-27 @ 21:34:42


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0