Spurningin er

Spurningin er: Hvað getur þetta verið? Svarið er ósköp einfalt; þetta er súpa. En þetta er ekki hvaða súpa sem helst. Efnið í hana óx úti við skógarjaðarinn á Sólvöllum og heitir grasker. Rósa og fjölskylda komu í gær, meðal annars til að fylgjast með á Sólvöllum og einnig til að undirbúa og ganga frá varðandi matjurtaræktina sem þau sáu um. Graskerið sem fór í þessa súpu og annað grasker til tók ég inn fyrir viku eða svo þegar næturfrost gengu í garð. Ef ég hefði verið einn með matjurtarækt hér hefði mér aldrei dottið grasker í hug, en sannleikurinn er sá að það hefur verið gaman að fylgjast með þessu, fyrir mér framandi fyrirbæri, og mér var annt um að vökva í þurrkunum seinni hluta sumars.
 
Það var næstum viðhöfn í Sólvallaeldhúsinu seinni partinn í dag þegar Pétur opnaði stóra graskerið. Rósa og Pétur hlógu og Hannes fylgdist broshýr og áhugasamur með. Ég var líka stór forvitinn enda hafði ég ekki hugmynd um hvað mundi birtast þegar þessi uppskurður átti sér stað. En það sem birtist var einhver aragrúi af fræjum og þráðum og ég var fljótur að ímynda mér eitthvað varðandi þræðin; þeir voru auðvitað flókið taugakerfi, ekki nema hvað? En það var líka mikið af kjöti, heil 4,75 kg af hreinu graskerskjöti. Þetta var nú spennandi.
 
Svo var mér stillt upp við eldhúsbekkinn -nei, reyndar var það ekki svo, ég var mjög fús til að fylgjast með súpugerðinni vegna þess að þrjú og hálft kíló af þessu kjöti er nú í frosti hér heima, sem er jú mikið og gott hráefni handa mér ásamt mörgu öðru sem leynist í frostinu. Ég er ekki matarlaus og það er býsna fjölbreyttur forðinn og kokkamennsku minni vex óðum ásmegin eftir því sem skammdegið eykst. Góð var súpan og saðsöm og þennan dýrindismat hef ég aldrei smakkað áður. Þau fara svo með minna graskerið með sér heim á morgun og annað af svipaðri stærð eru þau þegar komin með heim.
 
Ég hef verið ódrjúgur til verka í dag, enda hefur ekki beinlínis staðið til af minni hálfu að afkasta miklu. Þau hin voru duglegri. Ég að vísu gerði eina uppskrift af rúgbrauði sem ég skellti í ofn og var mikið ánægður. Nokkrum klukkutímum síðar var ég að undirbúa pönnukökubakstur og þegar ég fók fram lyftiduftið til að setja í pönnukökudeigið uppgötvaði ég hræðilegan hlut. Ég hafði sett lyftiduft í rúgbrauðið í staðinn fyrir natron. Ég var nálægt því að slökkva á ofninum og henda bakstrinum án frekari orðalenginga.
 
En þar sem Pétur er nú bakarasonur googlaði hann um þessi efni og komst að því að þau væru ekki svo ólík að öllu leyti. Rúgbrauðið fékk því að vera áfram í ofninum og klukktíma lengur en venjulega. Nú eru nokkrar mjólkurfernur af ágætu rúgbrauði að kólna á eldhúsbekknum og ef eitthvað er, er það heldur þéttara en það á að vera. En ég er búinn að taka prufu og borða og brauðið er herramannsmatur. Þó það nú væri að mér mætti verða aðeins á mistök, það fer ekki allt á annan endan fyrir því.


Kommentarer
Auja

Takk fyrir okkur í dag frábærar pönnu kökur! Og vá hvað er gaman að sjá afraksturinn af þessari ræktun! Lífið heldur áfram á allan hátt!

Svar: Takk fyrir komuna Auður og Þórir. Já, það var nú meiri afraksturinn og mikið var borðað af súpunni og nóg til morgundagsins líka. Og lífið heldur áfram, það er ekki spurning.
Gudjon

2013-10-05 @ 22:56:44


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0