Uppskerutíð

Framarlega í skóginum eru nokkrir bláberjarunnar og þar eru ber sem eru tilbúin til átu eða hvers konar sultu-, saft- eða hlaupgerðar. Ég veit satt best að segja ekki hvað ég á að gera við þau. Ég get vel borðað þau eins og þau eru, úr hnefa eða saman við skyr eða jógúrt. Sennilega verður það svo að ég borða þau óunnin og bara eins og þau koma af skepnunni. Svo þarf bara að setja niður þó nokkra runna í viðbót í haust eða að vori. Sennilegast af öllu að vori.
 
Það eru fleiri að sinna uppskerunni sinni. Hann Mikki á Suðurbæ til dæmis. En það er svo um þessar mundir að á ökrum og vegum vítt og breitt um sveitirnar eru stórar dráttarvélar á ferðinni með tvo aftanívagna hver vél. Yfirleitt má sjá í kúfinn af korni kíkja upp yfir hliðarnar á vögnunum. Einstaka er með vagna á stærð við vörubílspall en þá eru þeir líka bara með einn vagn. Á þessari mynd er Mikki að slá akurinn sinn, þann sem liggur næstur Sólvöllum, bara í nokkur hundruð metra fjarlægð..
Hér er hann búinn að fylla vélina og er nú að losa hana yfir í annan vagninn. Ég sá til hans þegar ég var á leiðinni heim og þá var bara að sækja myndavélina og taka nokkrar myndir.
 
Þegar Mikki var búinn að losa vélina á vagninn benti hann mér að koma. Ég held að stiginn upp í klefann til hans hafi verið fimm þrep og þegar ég var kominn þangað upp bauð hann mér far. Farþegasæti hafði hann þar líka.
 
Mér skildist á honum að svona vél kosti ekki minna en 36 miljónir íslenskar enda er hún vel hlaðin tækjum. GPS tækið er þarna efst næstum fyrir miðju. Mikki hafði fingurinn á gula tækinu neðst til hægri, annars sá GPS tækið um að stjórna vélinni þegar hún var komin í stefnu á nýja ferð.
 
Svo verður auðvitað að birta mynd af höfðingjanum sjálfum og enn hefur hann fingurinn á hnöppunum á gula tækinu. Aftan við okkur var rúða og þar gaf að líta kornið sem komið var um borð, svo hreinlegt og fínt. Menn hafa verið að lýsa fyrir mér hvernig þessi stjórnstöð líti út og nú er ég búinn að sjá það með eigin augum. Ég veti að það eru til svona vélar á Íslandi en ég veit ekki hversu vel þær eru tækjum búnar. Það kostaði mig ekkert að birta þessar myndir ef einhver skyldi hafa áhuga á að skoða.
 
Ég er í notalegu fríi núna og fram á laugardag. Svo fer ég aftur í Vornes og verð þar einn sólarhring. Það er ekki langt eftir af þessari vinnuskorpu minni. Við Mikki töluðum um þessa vinnu mína og hann taldi að án efa mundi það skila mér betri heilsu. Það eru margir á þeirri skoðun.
 
Að lokum er svo spurning hvort þessi mynd af berjunum er ekki betri en sú fyrsta. Stærðin á þeim er alla vega nær lagi á þessari mynd.


Kommentarer
björkin

Frysta uppskeruna mágur minn,og setja svo í skyrið. Mikið hefur svo verið gaman að fylgjast með bóndanun við störffin nýn. Góða nótt úr Miðengi,

Svar: Núna verður það góðan daginn hér, það er kominn nýr dagur.
Gudjon

2013-08-23 @ 00:16:32


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0