Lífið er þess virði að taka þátt í því.

Í dag fór ég í bankann til hennar Helenu. Helena þessi seldi okkur íbúðina sem við áttum í tíu ár í Örebro og sjálf keypti hún stærri íbúð í sama hverfi og það voru aðeins um 50 metrar á milli útihurðanna hjá okkur. Þar með varð Helena kunningi okkar og vinur. Við fengum aðstoð við kaupin í bankanum okkar í Örebro og Helena vann hjá sama banka en bara á öðrum stað, í Kumla. Þegar ég var orðinn illa haldinn af sumarbústaðadellunni, skömmu áður en Sólvellir komu á dagskrá, þá sagði ég við Helenu eitt sinn þegar við mættumst á bílastæðinu að ég væri að hugsa um að kaupa sumarbústað. Það líst mér vel á sagði hún og þegar þið eruð tilbúin getið þið bara komið og talað við mig. Þar með var hún orðin bankafulltrúi okkar og enn í dag er hún fulltrúi minn.
 
Ég fór til Helenu í dag til að ganga frá ýmsum málum. Til dæmis að færa á mitt nafn allt það sem við Valdís áttum saman. Sólvelli og vissa sameiginlega bankareikninga og svo framvegis. Ég hélt að ég mundi verða þarna einhvern hálftíma en ég var hjá henni í bankanum í rúma tvo tíma. Það var styttri tími sem það tók síðast þegar ég leitaði til hennar.
 
Það var í maí þegar Valgerður var stödd hér. Ég hafði aldrei slíku vant fengið útborgað frá Vornesi með ávísun og sú ávísun hafði legið all lengi hjá mér. Svo var það á fimmtudegi að við Valgerður fórum til Kumla og ég ætlaði þá meðal annars að koma við í bankanum og leggja ávísunina inn á reikninginn minn. Við gengum eins og venjulega eftir gangstéttinni heim að bankanum en allt í einu gerði ég mér grein fyrir því að ég þekkti mig ekki í þessari götu og bankann fann ég bara alls ekki. Ég var að gefast upp þegar Helena kom allt í einu út um sléttann glervegg, sneri sér svo við og læsti.
 
Við gengum til móts við hana og hún sá okkur á all nokkru færi og síðan heilsaði hún afar vingjarnlega. Ég sagði henni frá ferðum okkar og þá útskýrði hún hvað var á seiði. Bankanum var lokað um hádegi þennan dag af sérstökum ástæðum og hún hafði bara verið að ganga frá. Láttu mig hafa ávísunina sagði hún. Síðan þurfti ég að skrifa undir á tveimur stöðum og hún rétti mér penna og sagði að ég gæti notað rúðuna til að skrifa á. Síðan stakk hún ávísuninni í tösku sína og svo ætlaði hún að leggja inn á reikninginn minn næsta mánudag. Valgerður varð all undrandi á þessum bankaviðskiptum og þótti atvikið mikið sniðugt ef ég man rétt. Ástæðan til að ég hafði ekki fundið bankann var sú að stór glerflykki eru látin loka annars stórum inngangi og þá hverfur líka nafn bankans. Þetta sá ég í dag og þótti sniðugt.
 
*          *          *
 
Í dag fékk ég nágrannann hann Lars til að bera með mér hengiróluna upp á nýju veröndina. Hún sex ára Alma dóttir hans var með honum. Ég bað þau að setjast í róluna og fór inn til að sækja myndavélina. Þegar ég kom til baka höfðu þau lagt sig og þannig tók ég mynd af þeim. Ölmu þótti afar skemmtilegt að taka þátt í þessu.
 
Svo auðvitað vildi ég fá mynd af mér og stillti mér upp til myndatöku. Þetta er mjög notalegur staður og nú er svo undursamlega snyrtilegt við bakdyrnar á Sólvöllum. Að sitja þarna með skóginn svo stutt frá er alveg frábært.
 
Svo er það litli pallurinn fyrir litla mig, utan við svefnherbergisdyrnar mínar. Ég stillti þar upp bráðabirgðastól til að geta tekið raunverulega mynd. Ég er líka búinn að sitja þarna og það sveik mig ekki. Þetta er mjög góður staður og eiginlega ennþá nær skógnium en á hinum pallinum, þá í fyrsta lagi nokkrum eikum.
 
*          *          *
 
Og svo af allt öðrum toga.
 
Þarna var suðann ekki komin upp á kvöldmatnum mínum og þess vegna sást augað svo vel í sviðahausnum. Ég er ekki hissa á því að Svíum bjóði við þessu áti okkar Íslendinga. Þeir hafa nefnilega spurt mig sérstaklega hvort við virkilega borðum augun líka. Þegar ég játa því eiga sumir ekki orð. Með þessum sviðakjamma hafði ég kartöflur úr heimagarðinum.
 
*          *          *
 
Þannig er nú það. Um hálf ellefu á morgun legg ég af stað í Vornes og verð þar í rúmlega sólarhring. Vissulega kemur það fyrir að ég styn þegar ég hugsa til þess að ég eigi svona sólarhring framundan. En það er ekki svo oft. Þegar ég svo er kominn af stað svo ég tali ekki um þegar ég er kominn á staðinn, þá er þetta allt í lagi. Ég veit að ég geri gagn og flestum stundum hef ég gaman að þessu. Svo sem bónus fæ ég borgað fyrir það. Þessi vinna hefur haft jákvæð áhrif á persónuleika minn og vinnan sem ég innti þar af hendi frá miðvikudegi til fimmtudags hafði venju fremur jákvæð áhrif á mig.
 
Að vísu hafði ég samtal við mann á sextugs aldri sem átti erfitt með að taka ofan hattinn og lúta höfði fyrir raunveruleikanum. Sjálfur gerði ég það í janúar 1991 og ég reyndi að fá þennan mann til að skilja að það væri ekki um annað að velja. Hann skrifaði sig út og staðarhaldarinn skutlaði honum á næstu járnbrautarstöð. Á leiðinni þangað tókst honum þetta; að taka ofan hattinn og lúta höfði. Hann ætlar að koma aftur og ég veit að hann verður vinur minn þrátt fyrir að það fór ekki svo vel á með okkur í gærmorgun. Að lúta höfði í þessu samhengi er með erfiðari ákvörðunum sem menn taka en launin eru hundraðföld eða eitthvað ennþá meira.
 
Lífið er þess virði að taka þátt í því.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0