Skýfall

Mikið er fallegt útsýnið út um austurgluggann á herberginu mínu. Eftir talsverða rigningu í gær og talsverða vætu undanfarið virðist náttúran svo sæl með sig, safarík, afslöppuð og í góðu formi. Það er eins og sólin lýsi upp nokkra græna, óreglulega sali þarna út í skóginum og þó að ég sé búinn að vera þarna úti í einhver þúsund skipti get ég spurt mig að því hér og nú; hvernig ætli það líti út að vera þarna og þarna já og þarna. Ég veit það alveg upp á hár en samt verður það svona á þessum frábærilega fallegu morgnum að hugmyndaflugið fer á flug. Það er eins og það sé endalaust hægt að fara í eina og eina sólarlandaferðina enn út um þennan austurglugga minn.
 
Rósa og fjölskylda koma í heimsókn um helgina. Ég þarf að tala um það við hann Pétur að ná mynd af þessu ef veðrið býður upp á það. Hann á mikið betri myndavél en ég. Samkvæmt tíu daga spánni gæti vel orðið svona morgun á sunnudag. Að ég sé að reyna að glíma við þetta með minni vél og birta síðan mynd af því er eiginlega rangt. Það verður aldrei sönn mynd.
 
Rósa, Pétur og Hannes Guðjón koma á morgun til að skoða framkvæmdir síðustu tveggja vikna. Eins og venjulega hefði ég viljað hafa gert meira en það verður bara að duga eins og það er. Þessi mynd er að vísu næstum viku gömul en það er ekki svo mikill munur á, þá og nú, annað en að það er mun þrifalegra í dag en það er á myndinni.
 
Í gær kom skýfall sem stóð ekki nema eins og í tíu mínútur. Ég hef séð vera skýfall en þetta en það var alveg nóg samt. Þrumurnar möluðu látlaust hér í kring og um stund beint yfir að því er virtist. Ég stóð undir þakskegginu austan við húsið, þarna inn í horninu við dyrnar sem við sjáum á myndinni, og horfði á hvernig ég þarf að hækka með jarðvegi kringum pallinn. Það var alveg í samræmi við það sem ég hafði gert mér í hugarlund en það er bara fínt að fá það staðfest svona beint frá raunveruleikanum.
 
Á fyrstu tíu mínútunum rigndi eina tólf millimetra. Það athugaði ég með því að setja þvottabala yfir mig og hlaupa svo að mælinum og verða blautur í fæturna. Síðan rigndi samtals 23 mm á um það bil hálftíma. Í fyrradag sáði ég nokkrum lítrum af grasfræi á bletti kringum Bjarg, bletti sem enn voru sköllóttir eftir sáningu frá því fyrr i sumar. Þegar fór aðeins að þorna til fór ég og hugaði að grasfræinu. Það sást ekki tangur eða tetur af því. Kannski hefur eitthvað af því grafist í rennblauta moldina en ég efa það. Líklegast þykir mér að það muni fara að vaxa mikið af fallegu grasi í lok næstu viku í skurðinum út í skógi. Ég hef alveg efni á að kaupa annan svona fræpoka. Ég er tilbúinn að leggja nokkrar krónur í þann efa, það fer best á því.
 
Sólin er að heita má komin upp yfir skóginn, veðrið er alveg stórkostlegt, allt er mjög fallegt og líka út um gluggann fyrir aftan mig. Eftir þungan dag í gær er gott að fá einn svona alveg frábæran dag í dag. Það er virkilega kominn tími á hafragraut með tilheyrandi og svo þarf ég að láta hendur standa fram úr ermum svo að ég geti orðið aðeins meira stoltur á morgun þegar gestirnir mínir koma til að gera úttektina.
 
Oj, klukkan er orðin níu!


Kommentarer
Björkin.

Hann er fallegur Sólvallarskósurinn.Ekki furða,því að það er hugsað um hann að mikilli alúð.Kveðja og áttu góðan dag.

Svar: Takk sömuleiðis Árný mín.
Gudjon

2013-08-15 @ 13:43:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0