Morgunhugleiðingar á Sólvöllum

Ég vaknaði snemma í morgun, rétt fyrir klukkan fimm. Eftir eina ferð fram í þetta litla herbergi sem ég, og við flest líklega, heimsæki í byrjun hvers dags, þá lagði ég mig aftur í þeirri von að sofna. Aðeins slumraði ég til en það varð enginn svefn. Klukkan sex kveikti ég á lampanum á náttborðinu og tók bók upp úr náttborðsskúffunni og fór að lesa. Það var eins gott fannst mér. Annars mundi ég bara safna stærri baugum undir augun sem mundu svo hanga á mér langt fram eftir degi. Þessir venjulegu baugar nægja mér alveg þó að ég liggi ekki á mig ennþá stærri bauga.
 
Ég sló upp bókinni þar sem nöglin á þumalfingri hitti á hana. Ég geri oft svoleiðis að ég loka augunum og set svo þumalfingurinn að bókinni og opna þar sem nöglin hittir milli blaðanna. Efnið sem ég hitti á í þetta skipti fjallaði um að dæma ekki, þá skyldi ég ekki verða dæmdur heldur. Ég varð svolítið hugsi. Af hverju hitti ég á þetta efni þennan fyrsta ágústmorgun. Ég get ekki sagt að ég hafi fundið mig sekan um neitt sérstakt akkúrat núna en almennt séð var kannski rétt fyrir mig að hugleiða þetta. Það var ýmislegt fleira sem efnið í þessum texta varaði mig við, ýmislegt fleira sem myndi koma niður á mér sjálfum mér að lokum. Koma til baka til mín eins og bergmálið frá fjallinu.
 
Ég hef ekki lesið neitt á kvöldin eða á morgnana undanfarið. Ég hef fundið mig of önnum kafinn fyrir það, en þó veit ég að það er ekki rétt af mér. Ég veit ekki hversu langur tími er ætlaður mér hér á jörðu og kannski er það mikilvægara fyrir mig að sinna mínum innri manni en að hamast við að byggja upp fasteignina Sólvelli. En það er einmitt þetta sem togast oft á í mér, minn innri maður og hið veraldlega. Ég skal hrinskilnislega viðurkenna að ég vonast til að fá þann tíma að ég komist yfir hvort tveggja.
 
Ég vil ekki að neinn eftirkomandi taki við Sólvöllum eins og þeir eru. Það er ýmislegt ógert hér sem bara ég veit hvernig stendur. Svo er ýmislegt í mér sjálfum sem einungis ég get tekið höndum um að annast. Samviskan segir mér að ég skuli ljúka þessu hvoru tveggja á þeim tíma sem mér er gefinn. Þessi veraldlega uppbygging mín ætti að vera löngu frágengin en ég er á eftir mínum jafnöldrum á því sviði. Ég er ekki tilbúinn að fjalla frekar um það að sinni, en sá dagur kemur að ég geri það. Ég er nokkuð undir það búinn þó að ég sé ekki tilbúinn.
 
Ég talaði um bauga áðan. Stundum var það þannig að þegar ég hafði fengið mér afréttara á morgnana, sem var allt of algengt, að þá leit ég heldur hressari út. En oft varð það þveröfugt og þá fann ég án þess að líta í spegil hvernig baugarnir hrönnuðust upp undir augunum og mér fannst ég verða að illa gerðum skítahaug. Eitt svoleiðis tilfelli var í gangi þegar ég var á leið heim til Íslands frá Kaupmannahöfn. Þá fannst mér sem allir þeir sem litu framan í mig í þeirri ferð sæu að þarna var á ferðinni reglulegur skítahaugur. Ég sat við ganginn í vélinni og Valdís við hliðina á mér, einu sæti nær glugganum.
 
Flugrfreyjurnar voru búnar að ljúka störfum sínum og þar á eftir gekk ein þeirra aftur eftir vélinni og virtrist einfaldlega vera að athuga hvort ekki væri allt eins og það ætti að vera. Hún brosti ótilgerðarlegu brosi þar sem hún kom og nálgaðist nú sætið mitt. Hún horfði vingjarnlega á mig, svo vingjarnlega að mér er það minnisstætt enn í dag, og þarna sat ég og leið eins og ég væri ekkert. Þegar hún kom að sætinu mínu beygði hún sig svolítið niður og hvíslaði: Við seljum gel sem hjálpar til að minnka bauga undir augum. Þú getur komið aftur í til mín núna og keypt það ef þú vilt.
 
Hún sagði þetta svo ótrúlega vingjarnlega og ég var ekki í neinum vafa um að hún gerði það af einlægum vilja til að vera hjálpleg. Stundum kemur það fyrir þegar slíkt á sér stað að ég hugsa snögglega; ég elska þessa manneskju. Svo var það líka þarna upp í háloftunum yfir norðanverðu Atlantshafinu að ég hugsaði; ég elska þessa konu. Svo stóð ég upp og fylgdi henni eftir og keypti gelið. Því næst fór ég beint á snyrtinguna og bar gelið á baugana mína samkvæmt leiðbeiningum flugfreyjunnar.
 
Ekki sá ég breytinguna umsvifalaust og svo fór ég í sæti mitt. Ég hafði þó alla vega gert eitthvað og fannst það sem eftir lifði ferðarinnar að þetta væri líklega að lagast. Ekki svo mjög mörgum mánuðum síðar stóð ég í andyrrinu á Vogi og beið eftir því að hjúkrunarfræðingur kæmi þangað og tæki á móti mér. Þar fékk ég gelið sem dugði best, ekki bara á baugana, heldur fyrir minn innri mann líka. En minningin um flugfreyjuna sem ég hef líklega bara hitt einu sinni á ævinni lifir enn með mér og iðulega enn í dag nota ég svona gel til að hressa mig svolítið upp, en þá er ástæðan allt önnur en í flugvélinni forðum.
 
*          *          *
 
Hér fyrir neðan eru svo myndir af skóginum og sólaruppkomunni í morgun. Myndirnar voru teknar með svo sem hálftíma millibili. Ég tók margar myndir en fékk þó ekki fram neina sem sýndi einmitt það sem ég sá. Stundum held ég að myndavélin mín sé göldrótt en það er hún bara ekki. Ég læt myndirnar fara þrátt fyrir ófullkomleikann. Þetta hafði ég fyrir augum mér meðan ég skrifaði bloggið.
 
 
 
 
 


Kommentarer
Dísa gamli nágranni

Þú ert einlægur í blogginu þínu eins og alltaf Guðjón minn. Er að fara yfir bloggið í langan tíma. Hef ekki setið við tölvuna lengi Bestu kveðjur til þín úr Sólvallagötunni

2013-08-05 @ 18:54:43


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0