Blóm, lítið lag, fiðrildi sem sest á hönd þér

Ég veit ekki alveg hvenær ég ákvað að skrifa "blogg af þessu tagi" en einhvern tíma upp úr miðjum degi í gær var ég farin að semja línurnar í huga mér. Kannski var það þegar ég stóð upp eftir vinnuna stuttu fyrir klukkan fimm þegar hafði lokið öllu samviskusamlega. Svo kom kvöld og ég var heima og var orðinn syfjaður. Þá byrjaði ég að skrifa. Þegar ég er orðinn syfjaður verður orðalagið öðru vísi, stafsetningin brestur svolítið meira en ella og ég segi stundum eitthvað sem ég ekki mundi segja við aðrar aðstæður.
 
"Blogg af þessu tagi" var bloggið sem ég skrifaði í gærkvöldi, bloggið hér næst fyrir neðan. Ég átti frekar von á því að einhver mundi senda mér vísdómsorð af einhverju tagi en svo varð ekki. Ég var ekki með neina kröfu í huga en það hefði vissulega verið gaman að lesa eitt og annað heilræði. Hins vegar er það nú svo að ég er býsna duglegur við að finna heilræði sjálfur og ég velti þeim oft fyrir mér og þykir það uppbyggjandi. Ég finn líka oft að þau eru mjög í samræmi við hugmyndir mínar um lífið og tilveruna.
 
Stundum finnst mér líka heilræðin eða vísdómsorðin vera hreina "bla ha". Það er þess vegna sem ég leita oft eftir höfundum þeirra til að sjá hverjir þeir voru eða áorkuðu. Það getur haft áhrif á hvort ég er reiðubúinn að tileinka mér vísdóminn. Ég las eitt sinn ótrúlega falleg orð um fegurð tilverunnar og hversu hljóðar stundir í þeirri fegurð geta verið mikilvægar. Ég leitaði uppi höfundinn og ég man ekki hvort hann var uppi fyrir 1500 árum frekar en 3000 árum. En hann lét þannig lífið að lokum að hann var drukkinn á siglingu á báti á lygnu fljóti og sá mánann speglast svo fagurlega í vatninu að hann henti sér fyrir borð til að fanga hann. Þar dó hann, kannski með mánann í fanginu, hver veit?
 
Ég hló alls ekki þegar ég las þetta. Vogur eða Vornes fundust ekki fyrir hann á þessum tíma en væntanlega hefur hann verið í mikilli þörf fyrir hjálp af slíku tagi. En hann sá fegurðina og gat sett hana í orð. Ég hef lesið nokkur af vísdómsorðum hans og þau eru svo sönn, svo ótrúlega sönn. Þó að ég muni ekki nafn þessa manns, en um hann finnst heil mikið skrifað, og geti heldur ekki á þessu augnabliki sagt frá vísdómsorðum hans frá orði til orðs, þá hafa þau áhrif á mig. Þegar ég lít núna út í laufþykknið sem iðar í suðvestan golunni, þá finnst mér sem hann hafi hjálpað mér að sjá verðmæti sem ég þarf ekki að borga fyrir. Þau bara eru þarna þar sem ég er hverju sinni.
 
En nú er kannski best að ég komi heim aftur áður en ég drukkna í vísdómsorðum og mánaskini. Ég hef hér flogið úr einu í annað og er svo til baka aftur. En það liggur ljóst fyrir að ég er að gera upp við mig hvað ég eigi að vera lengi á vinnumarkjaði þó að ég sé ekki að tala um að fara í fastráðna, fulla vinnu. Ég talaði um einn fimmta í gær. Þessar pælingar mínar um hversu lengi ég eigi að vinna virðast kannski alveg snarruglaðar. En þá kem ég að því að maðurinn á myndinni fyrir neðan er alls ekki snarruglaður. Hann er snjall kall.
 
Og hann er líka alveg snarlifandi. Sjáið bara andlitið og augnaráðið. Hann er 77 ára og er enn í vinnu. Ef ég gæti verið eins og hann þegar ég verð 77 ára, þá verð ég einhver hamingjusamasti maður á norðurhveli jarðar ásamt honum. Svo er bara að sjá hverju skaparinn úthlutar mér af tíma.
 
Ég er reyndar búinn að gera þessi vinnumál upp við mig en það er mitt mál hvaða ákvörðun ég hef tekið. Tíminn fær að leiða það í ljós.
 
Í kyrrð dagsins segir þann 25. ágúst: Ég vona að merkisatburðir lífsins verði þér til gleði -en ekki síður allt hið smávgilega: blóm, lítið lag, fiðrildi sem sest á hönd þér.
 
 Ellen Levine
 
Ég hef haft þetta allt við hendina í dag og talsvert mikið meira. Þessi orð eru höfð eftir konu að nafni Ellen Levine, en hún skrifaði fyrir börn, unga lesendur og fullorðna sem helga sig samfélagslegum málefnum og sögu. Hún lést á síðasta ári.
 
Ég að vísu hlustaði ekki á neitt lítið lag í dag en ég tíndi þess í stað þessi stóru bláber af runna sem er hérna skammt út í skógi. Svo sótti ég tómata út í garðinn hennar Rósu sem er úti við skógarjaðarinn og ætla að hafa þá með rauðsprettunni sem ég var að enda við að steikja í ofninum.


Kommentarer
björkin

Þú ert svo mikill penni kæri mágur minn.Þú veðjar örugglega á réttan hest hvað vinnu varðar.Krammmmmmmmm.

Svar: Takk mágkona.
Gudjon

2013-08-28 @ 13:48:49
Anonym

Er komin í samband aftur með nýja tölvu. Þú verður ekki í vandræðum með að finna verkefni við hæfi þó þú hættir launavinnu. Kveðja úr Sólvallagötunni

Svar: Og kveðja til baka frá Sólvöllum.
Gudjon

2013-08-28 @ 23:32:56


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0