Blogg númer eittþúsund

Það var ekkert annað. Ég var heppinn þann 16. ágúst að fara inn á skjalasafnið á blogginu mínu, af algerri tilviljun. Þá sá ég að bloggin mín nálguðust eitt þúsund. Ég ákvað að halda upp á það með bloggi sem ég mundi gefa fyrirsögnina "Blogg númer eittþúsund". Í morgun birti ég blogg og gáði svo hversu nærri ég var þessu marki. Bloggið í morgun var númer 999 og því var ekki seinna vænna.
 
24 desember 2006 birti ég fyrsta bloggið. Ég hef nokkrum sinnum farið inn á fyrstu bloggin og þá sé ég að ég hreinlega kunni ekki á þetta kerfi. Mér tókst til dæmis ekki að birta nema eina mynd í hverju bloggi, svo tapaði ég nokkrum myndum og þetta bagaði mig mjög. Svo af tilviljun leystist það og af þeirri tilviljun lærði ég það að ef ég grúska og leita fyrir mér finn ég einhvern nýjan möguleika. Í þessu þúsundasta bloggi finnst mér sem ég þurfi ekki að kunna fleiri möguleika.
 
Upphaflega byrjarð þetta á því að ég vildi gefa nánum skyldmennum og gömlum nágrönnum möguleika á að fylgjast með lífi okkar Valdísar hér úti. Síðan jókst þetta og fleiri og fleiri fundu bloggið og fleiri og fleiri fréttu af því. Ég er ekki með í neinum bloggklúbb eða hvað nú á að kalla það og geri ekkert til að auglýsa það. Ég er ekki í þörf fyrir það.
 
Smám saman fór ég að finna að ég hafði gott af þessum skrifum mínum. Með því að skrifa hvað ég hugsa eða er með um í lífinu og gef öðrum kost á að lesa það, þá veit ég að ég hef gott af því. Það er eins og með AA félagsskapinn. Hann leysir mikið fyrir fólk. Flestir alkohólistar reyna á eigin spýtur að bjarga sér fyrir horn. Þeir vona að sem fæstir viti hvernig málum er háttað og þeir taka í laumi hverja ákvörðunina á fætur annarri um að hætta allri þessari vitleysu. Og enginn skal vita. En málið er bara það að þetta hjálpar ekki. Að lokum þegar alkohólistarnir gefast endanlega upp og fara að hitta aðra aklohólista og segja þeim sannleikann, þá fer eitthvað merkilegt að ske.
 
Ég gæti líka skrifað mín blogg og látið vera að birta þau, til dæmis af því að ég þyrði ekki að láta aðra sjá hvernig minn stíll við að tjá mig með pennanum er, eða af því að ég þori ekki að láta aðra sjá hvernig ég hugsa, hvað mér finnst og hvað ég er með um í lífinu. En ef ég gerði það, væri í feluleik með allt sem ég skrifa, hefðu bloggin mín 999 ekki gert mér mikið gagn og ég hefði verið betur settur með að nota frístundir mínar á annan hátt.
 
Ég hef fengið að upplifa margt við þessi skrif mín. Ég hef oft grátið yfir þeim, líka þegar ég les yfir eldri blogg, ég hef hlegið aleinn yfir þeim á stundum, en ekki eins oft. Ég hef hrifist og það er án efa sú tilfinning sem hefur verið lang algengust. Oft þegar ég hef verið önnum kafinn við að skrifa blogg hef ég oft áttað mig á einhverju sem ég hef ekki skilið áður. Ég hef líka orðið reiður, mjög sorgmæddur, vonsvikinn og jafnvel hræddur. En það eru jákvæðu tilfinningarnar sem hafa algera yfirburði. Ég hef aldrei skammast mín fyrir að birta blogg og aldrei eytt bloggi vegna þess að ég skammist mín fyrir það.
 
*
 
Dagurinn í dag er góður dagur. Það er sólskin og um tuttugu stiga hiti að vanda. Ég skrapp inn til Örebro fyrir hádegi til að láta klippa mig. Ég stoppaði við póstkassann til að taka blaðið. Þá sá ég að hann Lars eldri í næst næsta húsi sunnan við sat úti á stutterma skyrtu og leysti krossgátu. Hann er jafnaldri minn. Ég bara varð að ganga til hans og heilsa upp á hann. Lars hefur glímt við langvarandi veikindi en hann hefur ekki gefið sig og gengur þrjá og hálfan kílómeter flesta morgna. Mjög lengi gekk hann með göngugrind og ég hef nokkrum sinnum hrósað honum fyrir það hversu jákvætt hann taki á þessu alvarlega máli og sagt honum að það muni bjarga honum frá ennþá alvarlegri veikindum.
 
Fyrir nokkru sleppti hann svo göngugrindinni og fór að ganga léttari skrefum. Þegar ég nálgaðist hann í morgun sá ég að þessi maður hafði tekið ótrúlegum framförum. Hrjáð andlitið var orðið slétt og fellt, það var létt yfir augnaráðinu og hann heilsaði með bros á vör. Ég talaði um að það væri gaman að sjá hann svona hressan. Hann átti svolítið erfitt með að svara því. Eftir nokkra stund vildi ég halda áfram. Ég reisti mig upp og sagði um leið að ég hefði bara ekki getað annað en komið við til að gleðjast aðeins með honum yfir því hvernig dugnaður hans hefði hjálpað honum.
 
Nú lenti Lars í svolitlum vanda en svo svaraði hann. Ég gleðst líka alltaf þegar ég sé að þú hefur náð einum áfanganum enn heima hjá þér. Ég þori að segja að nú vorum við báðir orðnir svolítið hrærðir. Það er gott að tala öðru hvoru saman af alvöru og víkja hlýju orði að þeim sem þurfa á því að halda.
 
Víst er dagur þúsundasta bloggsins góður.
 
 


Kommentarer
björkin

Takk fyrir að fá að lesa öll 1000 bloggin.Alltaf svo gott að lesa þinn fróðleik og pælingar.Líði þér vel kæri mágur.

Svar: Tack sömuleiðis mágkona.
Gudjon

2013-08-23 @ 21:35:08


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0