Kvöldsólin lýsti upp Sólvelli

Ég efa ekki að ég er ögn skrýtinn en mér líður ágætlega með það og meðan ég geri engum mein með því er ekkert við því að segja. Ég var að úti fram til klukkan hálf átta og þegar mér þóknaðist að hætta settist ég í henguróluna úti á palli móti skóginum og lét fara vel um mig. Ég hélt rólunni á afslappandi hreyfingu og lét hugann reika. Upp úr klukkan átta fór ég inn og fékk mér kvöldmat.
 
Svo þegar ég var búinn að koma átta fernum af rúgbrauði í bakarofninn og ganga frá fór ég nefnilega aftur út í hengiróluna. Það var orðið dimmt en mátulega sterkt útiljós skein út frá gaflinum handan við suðaustur hornið, kyrrðin var bókstaflega fullkomin og lofthitinn notalegur. Það var alls ekki kalt en það var svo svalandi að sitja þarna á stutterma skyrtunni. Það amaði ekkert að. Ég var hvorki lasinn eða veikur, hafði engar áhyggjur, samviskan var í lagi og ég sáttur við alla.
 
Þarna sat ég eins og einn hálftíma og hugurinn reikaði mjög víða.  Ég hlakkaði til að Hannes kæmi með fólkið sitt í heimsókn til mín á morgun, ég var ánægður með daginn og ég var líka ánægður með að það hyllir undir að öll stærri verk eru að verða búin hjá mér á Sólvöllum. Eftir einar fimm vikur reikna ég með að ég sé orðinn frjáls maður og það sem eftir það þurfi að gera megi gera hvort heldur vikunni fyrr eða seinna eða kannski bara hálfum mánuði fyrr eða seinna. Það kalla ég að vera frjáls maður.
 
Ég ákvað líka að fá hann Anders til að hjálpa mér með ákveðna hluti í einn eða tvo daga. Að gera það þegar ég er tilbúinn með mitt sparar mér eins og eina viku hið minnsta. Og þarna sat ég aleinn í kvöldrökkrinu og var ánægður með lífið. Allt mögulegt annað fór gegnum huga mér. Það er ótrúlegt hvað hugurinn getur farið víða um heim á stuttum tíma. Það er bara notalegt fyrir þann sem er sjötíu og eins árs að dilla sér svolítið í hengirólu.
 
Þessa heimsókn fékk ég í dag. Hann var búinn að losa farminn og var í þann veginn að hoppa út úr bílnum þegar ég tók myndina. Hann virtist kunna betur við að heilsa. Þegar bílar hafa komið með efni hef ég nær undantekningarlaust ekki verið heima. Þegar við höfðum heilsast spurði ég hann hvort það væri hann sem alltaf kæmi með efnið þegar ég bæði Martin að panta. Ja, árlega hef ég komið hingað all lengi svo að ég er farinn að rata svaraði hann. Svo höfðum við ekkert meira að segja og hann hélt af stað. Vissulega fannst mér bíllinn fínn, það verð ég að segja. Ég þarf að finna einn svona handa Hannesi. Hannes er svo lítillátur að bílar þurfa ekki að vera svo voðalega stórir. Hann er ánægður með þá samt.
 
Svo er orðið grænt í kringum Bjarg. Alla vega þegar horft er á grasið úr þessari fjarlægð. Þvílík breyting kringum eitt hús frá því í vor. Þessi malarhaugur upp á einar sextíu hjólbörur á að fara í allt mögulegt hingað og þangað. Ég er býsna seigur við að finna mér verkefnin en það byggist á því að ég vil að vel sé frá öllu gengið á Sólvöllum svo lengi sem ég hef með það að gera. Þar með get ég líka haft gaman af að flytja sextíu hjólbörur af vegamöl hingað og þangað á staðnum. Mér sýnist að mér muni takast að klára svona verk áður en ég verð búinn að fá yfir mig nóg af þeim.
 
Að grafa fyrir stöplunum undir æði stóra veröndina, já og það tvær, steypa, fá heim efni og að smíða úr þessu efni, það kostaði að það var orðið rusl og drasl hingað og þangað. Og það voru steinar og stórir steinar og bara grjót út um allt. Spýtur, járnkall, haki, skóflur, einangrunarplast, jarðvegsdúkur og gersamlega allt mögulegt. Ég ákvað í morgun að gera staðinn Sólvelli að fínum stað aftur og taka daginn í það. Nú er það búið og ég er líka búinn að slá alla flekki sem urðu eftir þegar verið var að slá kringum þetta drasl allt saman. Alveg er þetta dásamlegt og svo lýsir kvöldsólinn upp sveitina á sinn sértaka og fallega hátt. Grasið er líka að ná sér eftir heita og þurra hásumartímann.
 
Rúgbrauðið er orðið heitt í ofninum þar sem hann malar hógvær þarna frammi í eldhúsi. Það er ekki komin lykt ennþá en hún verður búin að fylla húsið einhvern tíma á bilinu sex til sjö í fyrramálið. Sjálfsagt fyrr, en þá verð ég bara ennþá með honum Óla í draumalandinu þar sem við hugsanlega verðum að borða volgt rúgbrauð með helling af kúasmjöri ofaná. Mér væri nær að fara að sofa núna en hætt er við að það dragist fram yfir miðnætti. Ég er greinilega orðin dálítil kvöldmanneskja sem ég var þó ekki áður. Smáskrýtinn eins og ég sagði í upphafi. Góða nótt.


Kommentarer
Björkin.

Hvenær kemur svo einn heill frídagur.Bara að róla ,hvíla og kannski hugsa líka. haha.Krammmmmmmm

Svar: Ég er að vinna mér inn fyrir þeim degi mágkona.
Gudjon

2013-08-16 @ 13:44:55
Birna

Mikið óskaplega áttu fallegt og friðsælt heimili Guðjón minn.....kannski kem ég einn góðan veður dag með Rósu í heimsókn ;)kv Birna

Svar: Það vona ég svo sannarlega Birna, mikið ert þú velkomin.
Gudjon

2013-08-18 @ 22:35:07


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0