Skal eða skal ekki

Klukkan tæplega fimm í dag stóð ég upp frá tölvunni í Vornesi. Þá var ég búinn að vera með á tveimur starfsmannafundum, hafa morgunfund með sjúklingum, fyrirlestur, grúppu, hafa tvö viðtöl og enda vinnudaginn með að skrifa inn fjögur samtöl. Þar sem ég stóð þarna upp frá tölvunni renndi ég yfir þetta í huganum og var hissa. Mér fannst ég enn vera hress en vissi að þegar ég kæmi heim yrði ég ekki alveg eins brattur. Ég hef mitt kontó inn á sjúkraskýrslurnar, geri ekki minna en þeir sem eru tíu til þrjátíu árum yngri en ég og eru fastráðnir, og ég virka almennt ekki síður en þeir.
 
Að ég var að velta þessu fyrir mér í dag og að skrifa um það núna kemur til af því að ég hef verið í vangaveltum og samningagerðum við sjálfan mig undanfarið. Skal eða skal ekki. Vinna eða vinna ekki. Ég er búinn að vinna fyrir allt of miklu á árinu til að geta fengið eina einustu krónu af íslenskum ellilífeyri frá tryggingastofnun, jafnvel þó að lögunum hafi verið breytt. Svo fjallar þetta alls ekki eingöngu um peninga. Ég veit líka að ég geri gagn. Sagt og skrifað: Ég veit að ég geri gagn. Vinni ég einn fimmta af starfi ynni ég einn dag í viku og hefði frí í sex daga.
 
Þegar ungt fólk, miðaldra fólk og eldra fólk spyr mig hvernig ég endist til að gera þetta get ég með góðri samvisku svarað því til að þegar maður er edrú er það mesta hægt. Það er spurning hvort það yfirleitt er hægt að vera betri fulltrúi fyrir edrúmennskuna en með því að geta sagt þetta með góðri samvisku og af sannfæringu. Þau urðu dálítið undrandi þegar þau sáu mig koma snemma í morgun líka eftir að hafa unnið hálfa helgina. Ég hafði sofið minn eðlilega tíma og var vel úthvíldur og ég hafði gaman af að vinna í dag.
 
*          *          *
 
Ég var ákveðinn í því á leiðnni heim að fá mér léttan kvöldverð þegar heim kæmi og fara svo út að vökva nýræktina mína. Ég var svolítið hissa á því hversu snemma fór að bregða birtu og dreif mig út þegar ég var búinn að borða. Þetta með birtuna gerði mig enn meira undrandi þegar út kom. En öll él styttir upp um síðir. Ég var með sólgleraugun á mér, þau sem ég nota þegar ég ek bílnum. Þau eru alveg eins og hin gleraugun mín nema hvað glerin eru lituð. Svo skipti ég um gleraugu og eftir það var kvöldið fallega bjart lengi frameftir. Svo segist ég virka vel í vinnunni!
 
Það er merkilegt hvað mér finnst ég vera að gera mikið gang með því að standa úti með slöngu og dreifa vatni yfir gras. Svo fell ég fyrir því morguninn eftir að fara út og gá hvort það hafi ekki sprottið aðeins frá því í gær. Að vísu sér oft mun frá kvöldinu áður. En ég held að það sé þessi fína afslöppun sem ég sæki í. Það er nefnilega afslöppun í þvi að dreifa út vatnsúða yfir nýgresi. Og varla verður sagt um þetta að það skaði neinn eða taki neitt frá neinum. Ekki fylgir því hávaðinn eða mengunin. Meðan ég stóð þarna og vökvaði heyrði ég í þreskivélunum sem voru dreifðar um akrana í nágrenninu. Vélarhljóðið er mjúkt og þægilegt í þessum tækjum og vitneskjan um að þarna fer fram mikil matvælaöflun réttlætir þessar athafnir síðsumarsins.
 
Og akkúrat i þessum orðum skrifuðum kom Óli Lokbrá og kastaði fíngerðum sandi í augu mín. Ég skil sendinguna. Ég á að fara aðleggja mig. Í fyrramálið rekur ekkert á eftir mér. Ég verð heima allan morgundaginn og þarf ekki eldsnemma á fætur morguninn þar á eftir heldur. Ég legg mig á eftir ánægður með minn skerf í dag en ekki alveg ákveðinn í því sem ég byrjaði að skrifa um -skal eða skal ekki.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0