Langþráð væta á Sólvöllum

Klukkan hálf eitt í dag lagði ég af stað heim frá Vornesi eftir nákvæmlega sólarhrings veru þar. Við vorum að vinna þar fjórir ellilífeyrisþegar. Sumir hinna fastráðnu voru í sumarfríi og sumir voru veikir. Mér finnst gott að vera gamall og ellilífeyrisþegi því að þá er ég svo sjaldan veikur. Þá get ég líka farið hóflega oft í vinnu og unnið mér til svolítillar ánægju og jafnframt fengið nokkrar krónur í vasann líka. Svo er það kannski þetta mikilvægasta og það er að ég held nú hreinlega að ég haldi betri heilsu með því að gera þetta. Suma hluti segi ég býsna oft og kannski er ég búinn að segja þetta síðasta full oft. En svona er það; stundum held ég að speki mín sé svo einstök að ég verði að hamra á henni aftur og aftur. Þrátt fyrir þetta allt saman þá neitaði ég vinnu í gær og meðferðarheimilið riðlaði þó ekki til falls. Ég er ekki svo algerlega ómissandi.
 
Þegar ég var að leggja af stað heim féllu fyrstu regndroparnir í Vornesi. Svo fjölgaði dropunum eftir því sem á ferðina leið og þegar ég kom heim var komin drjúg rigning. Ég veit ekki hvenær byrjaði að rigna hér og þess vegna byrjaði ég á því að líta á regnmælinn. Hann hékk þá út á hlið með á að giska 60 gráðu halla en svo undarlegt var það þó að það voru þrír millimetrar í honum. Þar til klukkan átta í fyrramálið er spáð 15 mm rigningu og minna má það ekki vera. Náttúran er orðin afar þyrst og mun taka lengi við. Mér þykir afar vænt um náttúruna og eftir því sem henni líður betur er veröldin kringum mig fallegri og ómótstæðilegri. Vellíðan mín vex í samræmi við það.
 
Vellíðan já. Við vorum í Marieberg ég, Rósa, Pétur og Hannes. Þau fóru í stórmarkaðinn til að kaupa til heimilisins en ég fór í byggingarvöruverslunina K-rauta til að athuga með efni. Þau ætluðu svo að koma þangað til að taka mig og mín innkaup þar. Ég beið nokkra stund eftir þeim og settist á vöruhillu utanhúss og á þessari hillu var gerfigras þannig að hún var notalegt sæti þó að hún væri full lág.
 
Þarna sat ég svo á hillunni með tommustokk í annarri hendinni og starði niður í malbikið við fætur mér. Eiginlega má þó segja að ég starði langt út í óendanleikann í einhverjum afslöppuðum, notalegum draumaheimi. Sólin var hátt á lofti og hitinn sennilega um eða yfir 25 stig eins og svo marga daga undanfarið. Skammt frá var slæðingur af fólki að skoða eitt og annað og þar á meðal maður og kona sem væntanlega voru hjón. Svo allt í einu fann ég hvernig konan stóð rétt hjá mér, virti mig fyrir sér og sagði: Er ekki allt í lagi? Þar með var ég vakinn upp frá dagdraumi mínum, ég leit snöggt upp og hélt nú það, það væri allt í lagi með mig, ég hefði bara verið upptekinn á fjarlægum slóðum. Hún brosti þægilega og gekk svo yfir til mannsins þar sem þau héldu áfram að spekúlera í vöruinnkaupum sínum.
 
Er ekki dásamlegt að fólk skuli bera svona mikla umhyggju fyrir náunganum? Ég er ekki að gera grín þegar ég segi að mér finnst svo vera.
 
Og í þessum línum skrifuðum um að bera umhyggju fyrir náunganum fór póstbílinn hjá. Þá ákvað ég að fara og sækja póstinn fyrir daginn í gær og í dag. Á leiðinni suður götuna hugsaði ég að nú yrði einu sinni eitthvað skemmtilegt í póstinum og mér fannst hugsunin svo skemmtileg að ég held hreinlega að ég hafi verið farinn að trúa því. Svo tók ég upp póstinn sem voru þrír reikningar sem eiga að borgast um mánaðamótin, eitt bréf um að ég væri búinn að breyta samningnum varðandi farsímann sem ég vissi jú þegar um, og svo var bréf um ferð í septemberlok til Kaumannahafnar.
 
Þá fór úr mér sá vindurinn -ekkert skemmtilegt í póstinum. En þá var það spurningin hvort eitthvað skemmtilegt væri í úrkomumælinum. Það var jú búið að rigna viðstöðulaust hátt í fimm tíma. Og viti menn; það voru átta millimetrar í mælinum utan við það sem ekki komst í hann fyrr í dag þar sem hann hallaði svo mikið. Um leið fór ég í kartöflugarðinn til að taka upp kartöflur til að hafa með köldum, reyktum makríl í kvöldmatinn. Það var að sjá á moldinni í kartöflugarðinum að það væri farið að muna um rigninguna.
 
Svo er í gangi svolítið leyndarmál hér á bæ, leyndarmál sem er að finna í kartöflugarðinum. Þegar við Rósa settum niður í vor urðu útsæðiskartöflur eftir. Þegar búið var að taka upp helminginn af fyrstu kartöfluuppskeru, þá setti Rósa niður kartöflurnar sem urðu eftir í vor. Þær eru komnar upp og grasið orðið á að giska 25 sm hátt. Það verður gaman að fygjast með uppskerunni frá þessari seinni sáningu.
 
Enn rignir og eykst heldur. Mér líður mjög vel með þetta hér innanhúss á stuttbuxunum. Þegar ég kom heim setti ég nokkra plankabúta inn í bílageymsluna og á morgun ætla ég að smíða úr þeim þá sæmilega þurrum eftir inniveruna. Svo verð ég í vinnu milli laugardags og sunnudags.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0