Að vakna heilbrigður

Í morgun vaknaði ég eftir mikið góðan og endurnærandi nætursvefn. Ég lagði mig á bakið og horfði upp í loftið og hafði það notalegt. Ég er búinn að vinna helling í vikunni og svo verður næstu dagana líka. Ég var því ákveðinn í að flýta mér ekkert um of á fætur, enda var klukkan ekki nema tæplega hálf átta. Eins og svo oft hugsaði ég til þess að ég var við góða heilsu og hafði yfir höfuð ekkert að kvarta undan.
 
Allt i einu datt mér í hug síðasta ferð mín inn til Marieberg, bara fyrir nokkrum dögum. Ég gekk þar suður eftir einum stóru ganganna þar í átt að apótekinu. Ég var ekki á leið þangað til að kaupa lyf. Ég ætlaði að leita að sjampói og mýkjandi, lyktarlausu húðkremi. Þar sem ég var þarna á göngunni heyrði ég allt í einu hljóð í rafmagnsstól hægra meginn við mig. Ég leit þangað.
 
Í stólnum sat maður og ég gat ekki gert mér neina grein fyrir aldri hans. Stóllinn var einn af þessum þungu hjólastólum og með margs konar að því er virtist þungum og flóknum útbúnaði. Á höfði mannsins og kringum það var mikill búnaður og ég gerði mér ekki grein fyrir hvernig hann stýrði stólnum. Hann virtist ekki horfa framfyrir sig, heldur skáhalt upp í loftið, og ferð hans gekk í rykkjum. Hann virtist velja leið næstu metrana og fara þá leið á enda, hægja þá á eða stoppa og velja síðan leið aftur og aka hana.
 
Mér fannst næstum ógnvekjandi að sjá þetta. Þarna var maður sem ég taldi mikið yngri en ég var, kannski á aldur við barnabarn mitt eða svo, og ég var ekki viss um að ég mundi einu sinni hafa kunnáttu til að hafa nokkuð samband við hann í tali eða neinni annarri tjáningu. Svo gekk ég þarna rúmlega sjötugur kall, nokkuð beinn í baki, og var á leiðinni á apótek til að kaupa mýkjandi húðkrem. Ég vildi gera hendurnar á mér svolítið fínni og kannski setja smá slettu af kreminu í andlitið líka. Svo dettur mér stundum í hug að ég þurfi að hafa það aðeins betra en ég hef. Hvers vegna er okkur mismunað svo mikið manneskjunum á þessari jörð!?
 
Ég sagðist ekki hafa verið á leiðinni í apótekið til að kaupa lyf. Ekkert keypti ég þar sjampóið en húðkremið keypti ég. Þeldökk kona á hvítum slopp sem gat verið barnabarnið mitt hjálpaði mér mjög vingjarnlega. Svo keypti ég rúmlega miðlungs stóra túbu á 61 krónu, en ég gat líka fengið flókið og margslungið krem í næstu verslun sem kostaði einhver hundruð hver túba. Ah, nú varð ég gamaldags. Sjampóið fékk ég í annarri verslun. Nú er ég hér heima með nægjanlegt af fegrunarefnum fram að jólum.
 
Í kommóðuskúffu hér frammi eru reyndar lyf. Þar er pakki af nokkru sem heitir ipren sem er vægt verkjalyf sem líka á að standa á móti bólgum. Ég hef ekki notað þetta lyf í viku eða svo, en ég nota það þegar ég þarf að gera eitthvað þar sem ég þarf að vera í vondum stellingum við, skríða eða bogra til dæmis. Þá verð ég óneitanlega liprari við verkin mín og fljótari að standa upp. Svo ætla ég á næstu dögum að kaupa D-vítamín. Þar með eru lyfin mín upp talin. Þegar ég var búinn að hugsa um þetta allt saman í morgun þakkaði ég fyrir þá heilsu sem ég hef og fyrir allar þær gjafir sem mér eru gefnar.
 
Hverjum get ég svo þakkað fyrir? Ég skil það eftir sem gátu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0