Verönd

Ég hef ekki alveg komist í gang í dag eins og ég hefði þó viljað. Ekki get ég sagt neitt um hvað stóð í vegi fyrir framgangi mínum enda kannski best fyrir mig að vera ekki að velta mér upp úr því. Eldingarnar, þrumurnar og rigningin komu heldur ekki eins og spáð var og það þótti mér miður. Ég hefði þurft að vökva en treysti á rigningu sem kom svo ekki. Ég var að líta á veðurspána á næstu veðurstöð við Sólvelli sem er í fimm kílómetra fjarlægð og þar er spáð þrumum og rigningu eftir 27 mínútur þannig að ekki er öll von úti. Nú hef ég á tilfinningunni án þess að lesa yfir þessar fyrstu línur að þær séu mettaðar af hógværri neikvæðni. En málið er þó að það er mikið búið að ske á Sólvöllum bæði í gær og í dag þannig að ég má vera harðánægður með minn hluta þennan fyrsta þriðjudag í ágúst.
 
Ég á ekkert stolt vegna þessarar austurhliðar á Sólvöllum. Hún er löng og kannski svolitið innantóm eins og ég finn mig líka á þessu augnabliki. Það er hægt að hressa upp á þessa austurhlið með ýmsu móti en það er bara að velja einhvern þeirra möguleika sem fyrir hendi eru. Sama er það með mig. Ég er búinn að skora á mig í bloggi og ef ég er ekki með neitt væl veit ég að innan tíðar verð ég kominn á flug og svo uppgötva ég allt í einu að það er kominn háttatími fyrir mig. En aftur að austurhliðinni. Það er ósnyrtilegt þarna. Grjót á dreif, stór moldarblettur, steypusívalningar standandi upp úr jörðinni og vatnsslanga liggur þarna í óreiðu. Svona leit það út i gærmorgun áður en framkvæmdir við stóra verönd fór af stað, það er að segja sá hluti framkvæmdanna sem sneri að smíðum.
 
En einmitt í gærmorgun kom hann Anders smiður á svarta sendiferðabílnum sínum og það fyrsta sem hann gerði var að koma til móts við mig með kaffibolla í hendinni og svo skeggræddum við smá stund. Svo fór Anders í gang. Á ótrúlega stuttum tíma hafði mikið skeð. Hann sagaði í lengdir með vélsöginni sinni, raðaði upp, sagði til og ég negldi svo að það næstum rauk af hamrinum. Alla vega úr svitaholum mínum í 26 stiga hitanum sem þá var. Jarðvegsdúk höfðum við nú lagt á perlumölina sem áður var komin á svæðið undir veröndinni. Síðan fór ég í að setja perlumöl ofan á jarðvegsdúkinn líka. Þetta fór að líta huggulega út.
 
Og ennþá huggulegra varð það þegar perlumölin huldi allan jarðvegsdúkinn. Þetta á ekki að verða neinum manni sýnilegt í mörg ár, hlest ekki í mörg, mörg ár, en mér finnst bráðnauðsynlegt að skilja snyrtilega við áður en hlutirnir eru látnir hverfa. Mér líður betur með það og finnst það vera mikilvæg sönnun þess að verkið hafi verið unnið að ummhyggju. Mannabústaður á að vera byggður og gerður úr garði af umhyggju. Þá verður hann góður bústaður með góða sál ef svo er hægt að segja um mannabústað. Að mínu mati er hægt að segja svo.
 
Ég verð að birta mynd af Anders líka. Hann ber mér vel söguna og ég ber honum líka vel söguna. Ég ræð hvernær í verkinu hann kemur og hann kemur þegar leiðinlegu verkin eru búin, verk þar sem það þarf til dæmis að skriða mikið, fá sand í skóna og sokkana, í hárið og niður um hálsmálið á skyrtunni eða bolnum, og svo ég tali ekki um sandinn sem smígur undir nærbuxurnar líka. Eða þar sem þarf að nota haka, skóflu og járnkall, þar sem þarf að sýsla við að ná einhverju hallalausu og réttu. Þegar þetta allt er búið segi ég við Anders að nú sé allt tilbúið.
 
Kannski dylst einhver sjálfsvorkunn í þessu af minni hálfu en að öllu gríni slepptu, þá á Anders bara ekki að koma fyrr en svona verk eru búin. Svo þegar hann kemur, þá gengur svoleiðis alveg ótrúlega vel. Svíar segja stundum þegar mikið er að gera og vel gengur að það rjúki úr skósólunum. Það má kannski segja að það rjúki úr skósólunum hjá Anders þegar hann kemur -akkúrat þegar það passar og þá tala verkin svo um munar.
 
Málið er nefnilega það að á tveimur dögum hefur þetta áunnist. Og austurhliðin sem á fyrstu myndinni var svo auðnuleg og löng hefur skánað svo um munar. Þrátt fyrir það verða gerðar ráðstafanir til að gera hana ennþá ljúfari ásýndum, en það er ekki það fyrsta sem þarf að framkvæma. Það er til dæmis mikilvægara að ganga frá köntunum á veröndinni og fá þrep á ákveðnum stöðum. Að það er bleyta á nýju veröndinni kemur til af því að það gerði örlitla skúr sem strax tók enda og varð ekkert annað en látalætin. En svo kemur ein mynd enn.
 
Vinstra megin á myndinni sér undir húsið á milli stöplanna. Þar er eftir að byggja undir gamla húsið og loka. Það eru til dæmis svona verk sem ég mundi ekki vilja fá Anders til að vinna. Ég vil gera þetta sérstaklega vel, gera það án þess að það þurfi að hugsa um tíma eða vinnulaun og án þess að þurfa að hugsa um að verkið sé leiðinlegt.
 
Þessi litla verönd er fyrir utan svefnherbergið mitt og er fyrir litla mig að fara út á á morgnana þegar sólin er að vinna sig upp yfir skóginn beint á móti í austri. Þá get ég fengið mér þarna sæti, léttklæddur án þess að nokkur sjái mig og með nýju tölvuna á hnjánum get ég sem hluti af náttúrunni lýst í ljóðrænum bloggum því sem er að ske hjá sólinni, skóginum, fuglunum og í kollnum á mér. Að hugsa sér hvað það verður mikið og mettað af andríki hugans á hljóðlátu litlu veröndinni utan við herbergið mitt. :-)
 
Svei mér þá ef ég er ekki búinn að ná úr mér sjálfvorkuninni og hálfeymdinni sem hrærðist í mér í dag og alveg þangað til ég byrjaði á þessu bloggi. Ekki veit ég í hvaða línu það breyttist, en ég bara veit að það breyttist. Eins gott líka þar sem ég fer að vinna á morgun sem meðal annars krefst þess að ég sé talandi dæmi þess að það sé til gott líf án áfengis og annarra vímuefna.
 
Maður að nafni Þórir kom í heimsókn um fimmleytið. Hann sagðist vera í þörf fyrir hreyfingu og sló þann hluta lóðarinnar sem hægt var að komast að vegna yfirstandandi framkvæmda. Kann ég honum bestu þakkir fyrir. Á meðan gat ég sýslað við aðra hluti.
 
Núna prísa ég mig sælan. Gangi ykkur hinum allt í haginn líka.
 
 Ps. Rigningin sem átti að koma eftir 27 mínútur er ekki enn komin klukkutíma seinna.


Kommentarer
Björkin.

Til hamingju með nýju veröndina mágur minn.Held bara að það sé hægt að taka einn SKOTTÍS,OG SNÚA ÖFUGT EINS OG PABBI GERÐI.Gangi þér allt vel,og farðu nú varlega.Góða nótt.

2013-08-07 @ 00:20:18
Dísa gamli nágranni

Það er ótrúlegt hverju þú og þið Anders komið í verk á Sólvöllum. Bestu kveðjur .

2013-08-07 @ 01:28:59


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0